Lögregluembættin beittu símahlerunum í 362 skipti árið 2018. Þar af voru 322 tilvik, eða 89 prósent, hjá embættum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Árið 2017 var 256 sinnum gripið til símahlustunar eða skyldra úrræða. Fjölgaði þannig tilfellum um 40 prósent milli ára. Úrskurðir sem lutu að símahlustun voru 53 árið 2018. Auk þeirra lutu 30 úrskurðir að svokölluðum eftirfarabúnaði, 65 að útskrift á gagnanotkun farsíma, 132 að útskrift á notkun, 29 að upplýsingum um rétthafa, einn að tölvusamskiptum, fimm að myndavélaeftirliti, átt að hlustunarbúnaði og 39 að svokallaðri IMEI-leit.
Kemur þetta fram í skýrslu ríkissaksóknara um eftirlit með símahlustun og skyldum úrræðum árið 2018. Bæði lögregluembættin á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu drógu í rúmt ár að svara bréfi ríkissaksóknara sem báðum embættum var skylt að svara. Lögregluembættið á Suðurnesjum hafði ekki svarað bréfinu þegar skýrslan var gerð í júní, en í samtali við Morgunblaðið segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, að bréfinu hafi nú verið svarað.
Bréfið var fyrst sent í janúar 2017 og erindi þess ítrekað þegar ár var liðið frá því það var sent. „Við svöruðum í síðustu viku í samræmi við þann frest sem var fenginn,“ segir Ólafur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu svaraði bréfinu eftir ítrekun, en öll önnur embætti höfðu svarað því án tafa. Í bréfinu var beðið um upplýsingar um hvernig haldið væri utan um meðferð upplýsinga sem aflað væri með símahlustun og skyldum úrræðum. Einnig var beðið um tilnefningu tengiliðs við embætti ríkissaksóknar vegna símahlustana.
Athugasemdir