Siðanefnd Alþingis telur Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, hafa tekið undir vanvirðandi orðfæri samflokksmanna sinna um konur. Í áliti sínu segir nefndin að skilja megi orð hans sem hæðni gagnvart þolendum kynferðisofbeldis.
Niðurstaða nefndarinnar er sú að Sigmundur Davíð hafi ekki gerst brotlegur við siðareglur alþingismanna vegna þeirra orða sem hann lét falla á Klaustursupptökunum. Í áliti nefndarinnar, sem birt var á mbl.is í morgun, segir að það hafi ekki verið talin þörf á að meta hvert og eitt atriði í ummælum Bergþórs Ólasonar og Gunnars Braga Sveinssonar, þar sem þau væru öll af sömu rótinni sprottin. „Þau eru ósæmileg og í þeim felst vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt. Siðanefnd telur þau einnig til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess, auk þess sem þau sýna Alþingi, stöðu þess og störfum ekki virðingu.“
Á Klaustursupptökunum mátti heyra þingmennina gantast með að Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefði reynt að „nauðga“ þeim, annars vegar á herrakvöldi íþróttafélagsins Vestra og hins vegar í samkomuhúsinu í Hnífsdal. Segjast þeir hafa orðið fyrir áreitni og kynferðisbroti í andmælabréfum sínum til siðanefndar.
Sigmundur Davíð tók þátt í þessum umræðum og sagði meðal annars:
„Það voru ýmsir sem sögðu „take one for the team“ en Beggi var ekki til.“
„Þessir menn munu aldrei ná bata nema þeir opni sig, og það í opnuviðtali.“
„Þið sjáið að þessir menn þurfa stuðning, skilning og stuðning.“
„Já, ég meina það [áfengi] er oft besta leiðin til að takast á við svona.“
„Ef menn vilja vera með í nútímanum þá fara þeir í viðtal á DV.“
Siðanefndin telur að ummæli Bergþórs og Gunnars Braga hafi verið alvarleg. „Framangreind ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar verður að meta með hliðsjón af því að þau eru sögð í beinum tengslum við yfirlýsingar þeirra um kynferðislega áreitni og tilraun til nauðgunar,“ segir í álitinu. „Með þeim tekur hann þátt í umræðunum og virðist taka undir orðfærið í garð Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur.“
Telur siðanefnd að Sigmundur Davíð skuli njóta vafans varðandi þau ummæli sem féllu fyrst í umræðunum áður en ljóst varð um hvern var rætt. „Í öðrum ummælum virðist vera ákveðinn undirtónn sem skilja má sem hæðni gagnvart þolendum kynferðisofbeldis. Siðanefnd telur þau þó of almenn til þess að meta þau andstæð siðareglum.“
Loks eru nefndar athugasemdir Sigmundar Davíðs í umræðum um útlit Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar. Hafði þá Bergþór Ólason sagt: „Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“
Lét Sigmundur Davíð eftirfarandi ummæli falla í þessu sambandi: „Og á þeim forsendum segi ég að hún hrynji niður listann.“
Telur siðanefndin að ummæli Bergþórs um Írisi lýsa tilteknum viðhorfum til ungra kvenna í stjórnmálum. „Framangreind ummæli Sigmundar Davíðs verður að meta með hliðsjón af því að þau eru sögð í beinum tengslum við þau ummæli. Hann tekur þátt í umræðunum og tekur þannig undir orðfæri Bergþórs Ólasonar í garð Írisar Róbertsdóttur.“
Athugasemdir