Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 4 árum.

Gunnar Bragi og Bergþór brutu siðareglur með þessum ummælum

Um­mæl­in sem siðanefnd Al­þing­is taldi vera brot á siða­regl­um og skýr­ing­ar þeirra Gunn­ars Braga Sveins­son­ar og Berg­þórs Óla­son­ar, sem segj­ast vera þo­lend­ur kyn­ferð­is­legs áreit­is og of­beld­is. Gunn­ar Bragi sak­ar mennta­mála­ráð­herra um að mis­nota orð­ið of­beld­is­mað­ur. Siðanefnd tel­ur um­mæli þeirra öll af sömu rót­inni sprott­in og van­virð­andi í garð kvenna.

Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson brutu siðareglur Alþingis með orðfæri sínu á Klaustri. Í áliti siðanefndar Alþingis, sem birt var á mbl.is í morgun, segir að það hafi ekki verið talin þörf á að meta hvert og eitt atriði í ummælum Bergþórs og Gunnars Braga, þar sem þau væru öll af sömu rótinni sprottin. „Þau eru ósæmileg og í þeim felst vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt. Siðanefnd telur þau einnig til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess, auk þess sem þau sýna Alþingi, stöðu þess og störfum ekki virðingu.“ 

Samstaða gegn kynbundnu ofbeldi

Er vísað til þess að umræða um jafnrétti, kynbundið og kynferðislegt áreiti, einelti, ofbeldi og aðra vanvirðandi háttsemi af hálfu karla hafi verið í hámæli undanfarin misseri. Konur í mismunandi starfsstéttum hafi greint frá slíkri reynslu hér á landi og fjöldi frásagna borist í tengslum við #MeToo.

 „Þau eru ósæmileg og í þeim felst vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt“

Alþingismenn hafi sýnt viðleitni til þess að styðja þá umræðu, meðal annars með áskorun til forsætisnefndar Alþingis að halda ráðstefnu í formi rakarastofu þar sem karlar voru hvattir til þátttöku í baráttunni gegn ofbeldi og eins með sérstakri umræðu á Alþingi um #MeToo. „Ræðumenn fordæmdu einróma ríkjandi ástand og áréttuðu mikilvægi þess að karlmenn hefðu frumkvæði að bættu hugarfari meðal karla og stuðluðu þannig að betra samfélagi. Var rík samstaða meðal ræðumanna um að hafna hvers konar ofríki og ofbeldi í garð kvenna.“

Í kjölfarið hafi verið gerðar breytingar á siðareglum Alþingis, með það að marki að stuðla að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi innan þingsins, þar sem áreitni og vanvirðandi framkomu væri hafnað.  

Ummæli Bergþórs og skýringar eru eftirfarandi: 

Húrrandi klikkuð kunta 

Um Ingu Sæland, alþingismann og formann Flokksins: „[…] þið eruð með þessa húrrandi klikkuðu kuntu sem formann Flokks fólksins, sem þið ráðið ekkert við. Þið ráðið ekkert við hana. Segið mér ef ég hef rangt fyrir mér. Ég mundi ekki ráða við hana, Sigmundur mundi ekki. Hún er fokking tryllt. […]“ 

„Eins og fram hefur komið opinberlega, þá hef ég beðið Ingu Sæland fyrirgefningar vegna ummæla minna um hana og Inga af stórmennsku veitt mér hana. Svona á maður ekki að tala um fólk. Ekki einu sinni pólitíska andstæðinga,“ segir í bréfi Bergþórs til forsætisnefndar þar sem hann gefur skýringar á þeim ummælum sem siðanefnd Alþingis taldi brot á siðareglum. 

Segir nefndina refsa þolendum

Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur alþingismann vændi Bergþór Ólason um kynferðislega áreitni og tilraun til nauðgunar, og sagði meðal annars.: „Hún var að tosa buxurnar af hælunum á mér […] Ég vakna úr nærbuxunum.“ 

Þetta er sú þingkona sem hélt lengstu MeToo ræðuna. Og við sátum bara „what the fuck is going on.““

 „Ég mun segja, ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér í alvöru?“ 

Bergþór sagði í bréfi til forsætisnefndar, að hann hefði hvorki dregið orð sín um Albertínu til baka, né beðist afsökunar á þeim sérstaklega. Hér sé hann útmálaður sem gerandi, þegar raunin sé önnur. „En að svo skuli nefnd Alþingis ætla sér að nýta þann glæp til að refsa þolendum brotsins og um leið þolendum kynferðisbrots hryggir mig óseigjanlega.“

Segist hafa átt við árangur en ekki útlit 

Um Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, sagði Bergþór: „Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“ 

„Það þarf sérstakan vilja til að heyra aðeins kynferðislegan undirtón í þessum ummælum“

Hér sagði Bergþór að hlutir hefðu verið slitnir úr samhengi. Bæði á undan og eftir tilvitnuðum ummælum hafi fallið hrósyrði um Írisi, þar sem hún  hafi meðal annars verið sögð eldklár. Með því að tala um að hún sé hot, sé ekki átt við útlit hennar eða kynþokka heldur árangur Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, þar sem hún var bæjarfulltrúi. „Þetta blasir auðvitað við,“ segir í bréfi Bergþórs til forsætisnefndar. „Það er augljóst í þessu samhengi að það hefur fallið á frambjóðandann, hann er ekki „eins hot“ og hann var áður, hann er ekki eins sterkur osfrv. Það þarf sérstakan vilja til að heyra aðeins kynferðislegan undirtón í þessum ummælum.“

Þá segir hann ummælin „EKKERT“ hafa að gera með viðhorf sín til ungra kvenna í stjórnmálum að gera. „Heldur er ég þarna að lýsa þeim áhrifum sem sérframboð sem hún leiddi, gegn Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum, hafði á pólitíska stöðu hennar innan Sjálfstæðisflokksins. Siðanefndarfólk þarf að vera með sérstaklega vanstilltan kompás ef þessi augljósi hlutur nær ekki í gegn hjá þeim, enda er hér um augljósa rökvillu að ræða. Ummæli um eina persónu geta ekki lýst almennu viðhorfi til hóps af fólki. Mætti þá ekki eins segja að ummæli mín lýstu „tilteknu viðhorfi“ til Vestmannaeyinga?“

Grín að góðum vinum 

Um Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sagði Bergþór Ólason: „Það hefur engin gugga teymt mig meira á asnaeyrunum en hún, sem ég hef ekki fengið að ríða.“ 

Þarna loksins kom skrokkur sem typpið á mér dugði í.“

„Fyrri ummælin eru augljóslega sögð í stríðnistóni, þar sem gert er grín að góðum vinum sem hafa látið stjórnmálamann teyma sig á asnaeyrunum að mati undirritaðs,“ segir Bergþór í bréfi sínu þegar hann útskýrir ummælin um Lilju. Lilja hefur hins vegar sagt að hún líti svo á að þeir séu ofbeldismenn, sem eigi ekki að fara með dagskrárvald í íslensku samfélagi. „Í þessu samhengi var notast við tungutak þekktrar sjónvarpsfígúru, sem á flesta mælikvarða er talinn fullkominn auli og það gert til að undirstrika stríðnistóninn í ummælunum. Í Bretlandi væri þetta kallað „to have a banter“, sem netorðabók skilgreinir sem „playful and friendly exchange of teasing remarks,“ segir Bergþór.  

Hann segist ekki kannast við síðari ummælin. „Ummælin eru í meira lagi undarleg og algerlega úr takti (og raunar alveg úr sambandi) við það samtal sem á sér stað á þessum tíma.“

Ummæli Gunnars Braga og skýringar eru eftirfarandi: 

Stendur við orð sín

Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur alþingismann vændi Gunnar Bragi Sveinsson um kynferðislega áreitni og tilraun til nauðgunar, og sagði meðal annars: „Ég sagði bara nei […] en það var bara suðað. Þá var bara eins og einhver hefði verið líflátinn. Hún var brjáluð, hún trylltist, hún grenjaði og öskraði. Ég bara hugsaði, hvað, á ég að ríða henni? Það var algjörlega kreisí.“ 

Það getur vel verið að við ákveðnar aðstæður, ég ætla ekki að segja hvaða aðstæður, að ég þurfi að labba að henni og segja: Ertu búin að gleyma því þegar þú reyndir að nauðga mér?

Gunnar Bragi sendi forsætisnefnd einnig skýringar á orðum sínum. Þar segir hann að um hafi verið að ræða einkaspjall um „hræsni þingkonu“ vegna #MeToo-umræðunnar. Þarna séu „tveir einstaklingar að segja frá misgóðum kynnum sínum af þingkonuninni og hvernig hún áretti þá. Allt það sem þar er sagt stend ég við en vil þó taka fram, líkt og ég gerði við viðkomandi, að notkun á orðinu „nauðgun” var of gróft og var hún beðin afsökunar á þeirri orða notkun.“

Þá sagði hann þetta ekki eina skiptið sem hann „hafði lent í slíku áreiti af hálfu þingkonunnar“ og spyr: „Er nefndin að hvetja til þess að slík mál séu ekki rædd af þingmönnum við vini eða kunningja ef tilefni er til?“

Sakar Lilju um að misnota orðið ofbeldismaður

Um Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sagði Gunnar Bragi Sveinsson: „Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina. Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“ 

„Þrátt fyrir að menntamálaráðherra hafi misnotað orðið ofbeldi í pólitískum tilgangi þá er menntamálaráðherra fyrst og fremst stjórnmálamaður sem nýtir sín tækifæri“

Í bréfi sínu segist Gunnar Bragi hafa beðist menntamálaráðherra afsökunar á þessum orðum, sem eigi sér rætur í vonbrigðum og reiði vegna persónulegs máls. „Það er hins vegar al íslenskt að nota þau orð sem þarna voru höfð uppi og hafa ekki til þessa talist ósiðleg en klárlega skammarorð.

Spyrja má hvort minnihluti siðanefndar hefði komist að sömu niðurstöðu ef karlmaður hefði átt í hlut? Ef orðin hundur, asni, drullusokkur, gunga og drusla, skítlegt eðli eða eitthvað þaðan af verra hefði verið notað í staðin fyrir orðið „tík”. Á enskri tungu er orðið m.a. notað yfir óforskammaða manneskju. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá eru þessi orð og mörg önnur notuð til lýsingar á skoðunum þegar þau eru sögð.

Þá má velta því fyrir sér hvort siðanefndin eða forsetarnir hafi kynnt sér orðfæri þingmanna í þingsal? Er það mat nefndarinnar og hinna ólöglega kjörnu forseta að það að kalla ráðherra „gungu og druslu” sé í lagi nema það teljist til hefðar að nota slík orð? Mega þingmenn nota slíkt orðfæri?

En þrátt fyrir að menntamálaráðherra hafi misnotað orðið ofbeldi í pólitískum tilgangi þá er menntamálaráðherra fyrst og fremst stjórnmálamaður sem nýtir sín tækifæri en er ágætis manneskja,“ segir Gunnar Bragi. 

Segir „galið“ að þeir hafi gert grín að ofbeldi

Um Ragnheiði Runólfsdóttur, afrekskonu í sundi, sagði Gunnar Bragi Sveinsson: „Já sundkellingin þarna, voruði að lemja hana? [hlátur].“ 

Gunnar Bragi segir „galið“ að nefndin teljið að hér hafi verið gert grín að heimilisofbeldi. „Verið var að ræða fyrrverandi eiginmann þessarar fyrirmyndar konu, en sá starfar nú innan veggja Alþingis. Hún hafði sagt frá ömurlegri reynslu sinni í viðtalið við Akureyri vikublað árið 2017. Af handriti Alþingis er ljóst að tilefni umræðunnar var ekki konan sjálf heldur fyrrum eiginmaður hennar.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu