Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir Sjálfstæðisflokkinn ekki geta borið ábyrgð á framkvæmd EES-samningsins lengur vegna innanflokksátaka. Ritstjórar Morgunblaðsins ýti undir sundrungu í flokknum þegar komi að þriðja orkupakkanum og flokkurinn sé nú klofinn.
Þetta kemur fram í grein Þorgerðar í Fréttablaðinu í dag. Í greininni segir hún ljóst að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni samþykkja innleiðingu orkupakkans í ágúst, en ný tilefni verði fundin til þess að viðhalda átökunum um EES-samninginn í kjölfarið.
Segir Þorgerður að ritstjórar Morgunblaðsins, þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, hafi sérstaklega beitt sér gegn Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. „Athyglisvert er að ritstjórarnir hafa kappkostað að lítillækka ritara og varaformann Sjálfstæðisflokksins sem hafa verið öflugir talsmenn innleiðingar og alþjóðasamstarfs,“ skrifar hún. „Þær eru sagðar svo óskýrar í hugsun, ungar og óreyndar að engum hefði á árum áður dottið í hug að fela slíku fólki trúnaðarstörf af þessu tagi.“
Þorgerður segir að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sé í vandræðum og geti ekki friðað „afturhaldsöfl“ flokksins. „Þá spotta og hæða ritstjórarnir formann Sjálfstæðisf lokksins með því að benda í sífellu á að hann hafi verið á móti málinu í byrjun en sé því nú fylgjandi – af óskiljanlegum ástæðum.“
„Hvaða mál verður tekið í gíslingu næst?“
Loks segir Þorgerður ólíklegt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni aftur standast þrýsting baklandsins í hvaða máli sem það verður sem komi á eftir orkupakkamálinu. „Á síðustu öld var Sjálfstæðisflokkurinn óumdeilanlega kjölfestan þegar kom að utanríkispólitík landsins,“ skrifar hún. „Þetta eru því einhver mestu málefnalegu hamskipti sem orðið hafa í einum stjórnmálaflokki. Kjarni málsins er sá að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki og munu ekki á næstu árum hafa nægjanlegan stuðning í baklandinu til þess að geta borið ábyrgð í ríkisstjórn á framkvæmd EES-samningsins. Það sjá allir. Hvaða mál verður tekið í gíslingu næst?“
Athugasemdir