Samtökin Orkan okkar, sem beita sér gegn innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins, vilja að lögreglan eða Vinnueftirlitið grípi inn í störf Alþingis með vísan til lagaákvæða sem eiga rætur að rekja til vinnutímatilskipunar Evrópusambandsins.
Hins vegar virðast samtökin misskilja gildandi lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Skýrt kemur fram í lögunum að kafli um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma gildi ekki um æðstu stjórnendur og þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir.
Orkan okkar hefur afhent lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Vinnueftirlitinu kæru vegna umræðna á Alþingi um þriðja orkupakkann, sem staðið hafa fram undir morgun marga daga í röð. Þingmenn Miðflokksins hafa talað hver við annan í pontu heilu næturnar og hafa önnur störf þingsins tafist vegna málþófsins. Segja samtökin í tilkynningu á Facebook síðu sinni að 11 klukkustunda hvíldartími samkvæmt lögum sé ekki virtur.
Hvíldartíminn var lengdur í 11 klukkustundir á sólarhring árið 1997 þegar Alþingi samræmdi ákvæðið í lögum við vinnutímatilskipun Evrópusambandsins. Ísland hafði skömmu áður gerst aðili að EES-samningnum og var vinnutímatilskipunin innleidd að fullu árið 2003. Í 52. gr. laganna segir að ákvæði þess kafla gildi ekki um „æðstu stjórnendur eða aðra þá sem ráða vinnutíma sínum sjálfir“. Eiga þannig Evrópureglurnar og innleiðing þeirra í íslensk lög ekki við kjörna fulltrúa, meðal annars alþingismenn.
„Mikilvægt er að starfsmenn, ekki síst alþingismenn, geti haldið fullri einbeitingu við störf sín og bíði ekki tjón á heilsu sinni,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum. „Þá er einnig að því að hyggja að aðilar sem hagsmuna eiga að gæta og almenningur hafi tök á að fylgjast með umræðunni í rauntíma.“
Yfirlýsing Orkunnar okkar í heild
„Nú hagar svo til að nefnda- og þingfundir á Alþingi hafa staðið yfir nánast samfellt sólarhringum saman. Fundað er á víxl í nefndum og í þinginu, hvíldarlaust. Störf Alþingis eru um þessar mundir í andstöðu við Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum IX kafla laganna um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Lögboðinn 11 klst. hvíldartími er órafjarri því að vera virtur.
Lög þessi eru vitaskuld ekki sett að tilefnislausu. Mikilvægt er að starfsmenn, ekki síst alþingismenn, geti haldið fullri einbeitingu við störf sín og bíði ekki tjón á heilsu sinni. Þá er einnig að því að hyggja að aðilar sem hagsmuna eiga að gæta og almenningur hafi tök á að fylgjast með umræðunni í rauntíma.“
Athugasemdir