Í apríl komu 106 þúsund erlendir ferðamenn til Íslands, en þeir voru 131 þúsund í sama mánuði í fyrra. Fækkunin nemur 19 prósentum og er þetta mesta fækkun á sambærilegu tímabili í tvo áratugi frá því Hagstofan hóf mælingar.
Sambærileg fækkun á milli ára varð í maí 2010 þegar erlendum farþegum fækkaði um rúm 18 prósent. Í apríl hafði þá verið eldgos í Eyjafjallajökli sem lamaði flugumferð í Evrópu og varð til þess að um 95 þúsund flugferðum í Evrópu var aflýst. Þá fækkaði erlendum farþegum þó einungis um 6.300.
Umferð í gegnum Keflavíkurflugvöll dróst einnig saman í apríl. Heildarfarþegaflutningar drógust saman um 27 prósent á milli ára, voru tæplega 475 þúsund í apríl, en 650 þúsund í sama mánuði árið 2018. Heildarflughreyfingar, flugtök og lendingar, voru tæplega 7 þúsund í apríl, en 9.300 í apríl í fyrra, og drógust þannig saman um fjórðung.
Athugasemdir