Tekist verður á um hæfi Davíðs Þórs Björgvinssonar, varaforseta Landsréttar, til að dæma í einkamálum og sakamálum er varða íslenska ríkið nú á fimmtudag.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður hefur krafist þess að Davíð Þór víki sæti í máli skjólstæðings síns í ljósi þess að Davíð Þór sinnti launuðum störfum fyrir íslenska ríkið í landsréttarmálinu, máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi sem Vilhjálmur rak og vann fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE). Ríkisstjórnin tilkynnti í byrjun apríl að óskað yrði eftir endurskoðun dómsins hjá yfirdeild MDE.
„Nú liggur fyrir að Davíð Þór hefur tekið sæti í dómi í máli Landsréttar nr. 44/2018 þar sem ég er skipaður verjandi ákærða, en ákærði á ekki að þurfa að sæta því að embættisdómari sem hefur verið að sinna lögmannsstörfum fyrir framkvæmdavaldið og er að reka dómsmál gegn skipuðum verjanda hans fyrir MDE dæmi í máli hans,“ segir í bréfi sem Vilhjálmur sendi Landsrétti þann 12. apríl síðastliðinn.
Málflutningur fer fram fimmtudaginn 8. maí næstkomandi. Vilhjálmur óskaði eftir fresti meðan hann aflaði upplýsinga um öll aukastörf og greiðslur sem Davíð Þór hefði fengið síðan hann var skipaður dómari, en Landsréttur varð ekki við þeirri beiðni.
Kaup Davíðs Þórs álíka hátt málskostnaðinum fyrir MDE
Eins og Stundin hefur greint frá fékk Davíð Þór Björgvinsson 1,5 milljónir króna frá forsætisráðuneytinu fyrir lögfræðiráðgjöf sem hann veitti ríkislögmanni við ritun greinargerðar til Mannréttindadómstóls Evrópu í fyrra. Samkvæmt 6. gr. reglna um aukastörf dómara er dómurum óheimilt að taka að sér málflutningsstörf sem og önnur hefðbundin lögmannsstörf ef endurgjald kemur fyrir. Þá hefur nefnd um dómarastörf túlkað dómstólalög með þeim hætti að „almennt verð[i] að telja að lögfræðileg ráðgjöf gegn endurgjaldi sé ekki heimil dómara“ og að það eigi við allt frá þeim tíma sem dómari hefur verið skipaður í embætti. Samkvæmt þessum forsendum var reglum ekki fylgt þegar Davíð Þór veitti ráðgjöfina.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson telur ljóst að vinna Davíðs Þórs fyrir íslenska ríkið í landsréttarmálinu hafi verið önnur og meiri en hann upplýsti um í fjölmiðlum haustið 2018. Reikningurinn sem hann sendi íslenska ríkinu vegna málsins sé raunar álíka hár og málskostnaðurinn sem umbjóðanda Vilhjálms, Guðmundi Andra Ástráðssyni, var dæmdur vegna reksturs landsréttarmálsins fyrir MDE. Ljóst sé að aukastarfið sem Davíð Þór tók að sér hafi í eðli sínu verið lögmannsstarf, og þar hafi Davíð Þór í raun verið að reka dómsmál gegn sér fyrir MDE.
„Með því að taka að sér ofangreint aukastarf fyrir íslenska ríkið braut Davíð Þór gegn 1. mgr. 45. gr. laga nr. 50/2016 og 2. gr., 1. og 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. reglna nr. 1165/2017 um aukastörf héraðsdómara, landsréttardómara og hæstaréttardómara o.fl.,“ skrifar Vilhjálmur og bendir á að ekki hafi verið gerð grein fyrir þessu aukastarfi dómarans á vefsvæði nefndar um dómarastörf.
„Davíð Þór var meðal annars að sinna framangreindu aukastarfi fyrir dómsmálaráðherra, en dómsmálaráðherra hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds“
„Með því að taka að sér framangreint aukastarf fyrir íslenska ríkið og þiggja fyrir það háa greiðslu er Davíð Þór vanhæfur til þess að taka sæti í dómi í öllum málum sem varða íslenska ríkið, hvort heldur sem um er að ræða einkamál eða sakamál. Í því sambandi er rétt að benda á að Davíð Þór var meðal annars að sinna framangreindu aukastarfi fyrir dómsmálaráðherra, en dómsmálaráðherra hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð sakamála og skipar ríkissaksóknara og héraðssaksóknara sbr. 20. og 22. gr. sml. Það er líka í hróplegri andstöðu við grunnregluna um þrígreiningu ríkisvaldsins sbr. meðal annars 2. gr. stjskr. að embættisdómari sé að sinna lögfræðistörfum fyrir framkvæmdavaldið gegn greiðslu.“
Athugasemdir