Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við 35 ríki sem tilheyra bandalagi ríkja um réttindi hinseginfólks, hafa fordæmt ákvörðun stjórnvalda í Brúnei að hrinda í framkvæmd sjaríalögum sem kveða meðal annars á um að grýta megi samkynhneigða til bana.
Í sameiginlegri yfirlýsingu eru stjórnvöld í Brúnei hvött til að afturkalla breytingarnar og tryggja að öll refsilöggjöf í landinu sé í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Brúnei á sviði mannréttinda.
„Það er dapurlegt að enn þann dag í dag skuli hinsegin fólk sæta slíkum ofsóknum af hálfu stjórnvalda að lífi þess sé ógnað. Réttindi hinsegin fólks eru grundvallarþáttur í mannréttindastefnu Íslands og við leggjum mikla áherslu á þau í störfum okkar í mannréttindaráðinu,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í tilkynningu á ráðuneytisvefnum. „Þessi réttindi eru aldrei afstæð heldur gilda þau alltaf, alls staðar. Þess vegna hvorki getum við né megum láta þessar ákvörðun stjórnvalda í Brúnei átölulausa.“
Ákvörðun Brúnei um að hrinda sjaría-lögum í framkvæmd hefur verið fordæmd víða um heim frá því að tilkynnt var um hana um síðustu mánaðamót. Ísland gerðist aðili að Equal Rights Coalition,bandalagi ríkja um réttindi hinseginfólks, á síðasta ári en bandalagið var sett á laggirnar árið 2014 og telur á fimmta tug ríkja í Evrópu, Suður- og Norður-Ameríku og Afríku.
Athugasemdir