Sú ákvörðun dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að skjóta Landsréttarmálinu til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu verður þess valdandi að Hæstiréttur mun ekki taka afstöðu til afleiðinga dómsins að landsrétti næstu mánuði eða ár.
Þetta er ljóst af ákvörðunum sem Hæstiréttur tók í gær um að hafna áfrýjunarbeiðnum sem byggðu á því að meðferð mála fyrir Landsrétti hefði verið stórlega ábótavant í ljósi þess að ekki var farið að lögum við skipun dómara sem fóru með málin.
Vísað var sérstaklega til þeirrar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu frá 12. mars síðastliðnum að íslenska ríkið hefði brotið gegn rétti manns til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi þegar dómari sem dómsmálaráðherra hafði skipað með ólögmætum hætti við Landsrétt dæmdi í máli hans.
„Sá dómur mannréttindadómstólsins er ekki orðinn endanlegur og kann að geta sætt endurskoðun,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar, en að henni standa dómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson. „Mun Hæstiréttur ekki taka afstöðu til afleiðinga dómsins að landsrétti nema hann verði annaðhvort endanlegur eða niðurstaða hans látin standa óröskuð við endurskoðun en alls er óvíst hvenær það gæti orðið. Ótækt er vegna þessa álitaefnis eins út af fyrir sig að heimila í þessu sakamáli áfrýjun sem fyrirsjáanlega hefði þá afleiðingu að hér fyrir dómi yrði að fresta því um ótiltekinn tíma án þess að nokkru verði nú slegið föstu um hvert vægi þessa álitaefnis kynni að verða.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra kynnti á þriðjudaginn þá ákvörðun sína að íslenska ríkið muni óska eftir endurskoðun yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu á dómi MDE í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar gegn Íslandi.
Í málinu komst meirihluti dómsins að þeirri niðurstöðu að annmarkar á meðferð ráðherra og Alþingis við skipun eins dómara við Landsrétt fælu í sér brot gegn áskilnaði 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) um að skipan dómstólsins sé ákveðin með lögum.
„Við höfum síðustu vikur skoðað mismunandi fleti þessa mikilvæga máls. Eftir þá skoðun tel ég rétt að óska endurskoðunar hjá yfirdeild Mannréttindadómstólsins,“ segir Þórdís Kolbrún í fréttatilkynningu um málið. „Ég tel brýnt að fara þessa leið í ljósi þess hve mikilvæga hagsmuni málið snertir hér á landi. Ég mun halda áfram að skoða aðra fleti málsins en á þessu stigi verða ekki teknar frekari ákvarðanir.“
Fram kemur að líkur standi til þess að niðurstaða um það hvort yfirdeildin taki dóminn til endurskoðunar fáist „innan fárra mánaða“. Taki yfirdeildin málið til endurskoðunar verði þess óskað að málið njóti forgangs.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur undir orð Þórdísar Kolbrúnar í viðtali á RÚV í dag. „Ég tel að það hnígi ákveðin rök til þess að vísa málinu áfram til efri deildar,“ segir hún. „Og þau rök eru auðvitað fyrst og fremst þau að dómurinn er fordæmalaus og hann hefur áhrif á grundvalllardómstig í landinu og hefur mjög mikil áhrif hér á landi. Um leið er það svo að okkar færasta fólk hefur ekki verið á einu máli um hvernig eigi að túlka dóminn. Það sé ekki hafið yfir vafa hvernig eigi að túlka þennan dóm sem varðar grundvallardómstig í landinu. Þannig að ég tel rök fyrir því að vísa málinu til efri deildar.“
Athugasemdir