Stjórnendur WOW air seldu losundarheimildir vegna útblásturs á koltvísýringi fyrir 400 milljónir króna skömmu áður en félagið fór í þrot. Markmiðið var að eiga fyrir launagreiðslum marsmánaðar til starfsmanna. Þetta kemur fram í ViðskiptaMogganum í dag.
Fjármunirnir bárust ekki til félagsins á meðan það starfaði, enda var tekin ákvörðun um að skila inn flugrekstrarleyfi og taka félagið til gjaldþrotaskipta. Því eru að minnsta kosti 400 milljónir króna í reiðufé í þrotabúi WOW air.
Flugfélagið hafði fengið losunarheimildirnar úthlutaðar án endurgjalds og er flugrekendum heimilt að selja og kaupa þær eftir umfang starfseminnar. Ljóst er þó að WOW air hefði þurft að kaupa þær til baka síðar á árinu og var salan því hugsuð sem skammtímaaðgerð vegna þröngrar lausafjárstöðu. Heimildirnar sem félagið hafði tryggt sér án endurgjalds næstu árin eru virði tæplega 1,2 milljarða króna. Úthlutun þeirra er hins vegar háð því að flugrekandi hafi gilt flugrekstarleyfi og verður þrotabúið því af þeim verðmætum, að mati ViðskiptaMoggans.
Athugasemdir