Hrafnhildur Anna Hannesdóttir, forseti Nemendafélags Menntaskólans við Hamrahlíð, segir áhyggjuefni að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi afskipti af góðgerðastarfi nemenda í skólanum að tilefnislausu. „Við vorum mjög hissa og hefðum aldrei búist við því að lögreglan færi að skipta sér af góðgerðavikunni sem við höfðum skipulagt,“ segir hún í samtali við Stundina.
Kvennablaðið greindi frá því á dögunum að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði hringt í rektor MH vegna viðburðar í góðgerðaviku nemendafélagsins þar sem afganskir flóttamenn komu í heimsókn og sögðu sögu sína. Fram kom að Steinn Jóhannsson rektor hefði tekið nemendur tali og greint frá því að lögregla hefði spurt hvort hvatt hefði verið til „ólöglegra mótmæla“ á viðburðinum.
„Ég fékk fyrirspurn frá lögreglu sem ég svaraði,“ segir Steinn í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið. „Um leið leiðrétti ég misskilning sem var í gangi um hvort nemendur hefði verið hvattir til ólöglegra mótmæla.“ Hann segir að foreldri hafi haft samband við lögregluna og haft áhyggjur af því að barnið sitt hefði verið hvatt til slíkra mótmæla. „Þann misskilning leiðrétti ég.“
Hrafnhildur Anna segir að stjórn nemendafélagsins og góðgerðaráð skólans taki virkan þátt í stuðningi við flóttafólk. „Stór hluti þeirra sem mótmælt hafa á Austurvelli eru MH-ingar. Það er gríðarleg samheldni og samkennd meðal nemenda gagnvart flóttafólki og lögreglan breytir því ekki með svona afskiptum,“ segir hún.
„Það er gríðarleg samheldni og samkennd meðal nemenda gagnvart flóttafólki og lögreglan breytir því ekki með svona afskiptum“
Rektor segir góðgerðavikuna hafa verið vel heppnaða. „Mér finnst jákvætt að nemendur skólans hafi í góðgerðarviku vakið athygli á málstað hælisleitenda og látið gott af sér leiða, m.a. með matargjöfum til þeirra,“ segir Steinn og bætir við: „Ég hefði svo sannarlega viljað sjá það jákvæða dregið fram um þessa vel heppnuðu viku okkar.“
Að sögn Hrafnhildar er þjóðfélagsgagnrýni fyrirferðamikil meðal MH-inga þessa dagana. Aðspurð hvort nemendur taki virkan þátt í loftslagsverkföllum á föstudögum segir hún: „Já, skólinn tæmist bókstaflega í hádeginu á föstudögum meðan strætóleið 13 fyllist, beint úr MH á Lækjartorg.“
Athugasemdir