Birgir S. Bjarnason, fyrrverandi formaður Félags atvinnurekenda, var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum í síðustu viku.
Taldi Héraðsdómur Reykjavíkur sannað að Birgir hefði, sem framkvæmdastjóri Íslensku umboðssölunnar hf., ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna, alls 24,7 milljónum króna á eins og hálfs árs tímabili.
Við meðferð málsins krafðist Birgir sýknu og sagði enga meðvitaða ákvörðun hafa verið tekin um að greiða ekki staðgreiðsluna til ríkissjóðs. „Aldrei hefði verið óskað eftir því að greiðslur, sem greiddar voru til ríkissjóðs, myndu renna til greiðslu á tilteknum skuldum,“ segir í reifun á málsvörn hans. „Hann kvaðst hafa talið að greiðslum til tollstjóra væri ráðstafað lögum samkvæmt en hann hefði ekki fylgst með því. Honum hefði þó aldrei dottið í hug að ráðstöfun á greiðslum félagsins myndi valda sér refsiábyrgð. Þá kvaðst hann alltaf hafa talið að félagið myndi ná að rétta úr kútnum og verða gjaldfært.“
Dómurinn taldi hins vegar sakfellingu óhjákvæmilega. „Samkvæmt framburði ákærða, sem fær stuðning í gögnum málsins, er sannað að framangreindum fjárhæðum var haldið eftir af launagreiðslum til starfsmanna en þeim ekki skilað til innheimtumanns,“ segir í dóminum. „Á þessu bar ákærði ábyrgð sem framkvæmdastjóri félagsins. Hann verður því sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.“ Birgi er gert að sæta fangelsi í 6 mánuði og greiða ríkissjóði 49 milljóna króna sekt.
Athugasemdir