Séra Gunnar Björnsson hafnar því að hafa gengið of langt gagnvart sóknarbörnum sínum og nemendum. Sex konur lýsa kynferðislegri áreitni séra Gunnars við sig á barns- og unglingsaldri í tölublaði Stundarinnar sem út kom í dag. Þær segja að hann hafi í tíð sinni sem sóknarprestur í Bolungarvík, á Flateyri og á Selfossi nýtt sér aðstöðu sína til að kyssa þær og káfa á þeim.
„Þær voru alveg prýðilega efnilegar stúlkur að læra að spila,“ segir Gunnar um konurnar tvær sem lýsa kynferðislegri áreitni hans í píanótímum á Flateyri. „Þetta hins vegar kannast ég alls ekki við. Því miður er þetta algjörlega í mínum huga úr lausu lofti gripið.“
Hann hafnar einnig frásögnum þriggja kvenna á Ísafirði, sem segja hann hafa snert sig með óviðeigandi hætti þegar þær voru á aldrinum níu til fjórtán ára. „Ég get engan veginn kannast við það, því miður. Ég man engan veginn eftir því eða get staðfest það að neinu leyti. Þetta er svona í framhaldi af þessu sem er svo mikið á döfinni núna.“
Hvað varðar mál tveggja stúlkna frá Selfossi sem hann var ákærður fyrir og síðar sýknaður vísar Gunnar alfarið í niðurstöðu Hæstaréttar. „Eins og þú sérð er þetta mjög mikið á döfinni í mannfélaginu, þessar ásakanir,“ segir hann.
„Mér líður bara alveg ljómandi vel. Mér gæti bara ekki liðið betur.“
Aðspurður hvernig honum líði með slíkar ásakanir sóknarbarna og nemenda og hvort hann þurfi eitthvað að endurskoða hegðun sína segir Gunnar ekki þörf á því. „Mér líður bara alveg ljómandi vel. Mér gæti bara ekki liðið betur.“
Gunnar segist að mestu sestur í helgan stein á Selfossi, en hafi stundað einhver prestsstörf undanfarin ár. Hann hafi í fyrra skilað af sér átta ára vinnu við að þýða skýringar við öll 66 rit Biblíunnar á vegum Hins íslenska biblíufélags.
„Það fær ekkert á mig, vinur minn, ég er alveg kominn í gegnum það,“ segir hann. „Þetta fáránlega mál hérna, því miður, það var enginn fótur fyrir því að þetta væri nein ..., enda kom það fram í dómi bæði í héraðsdómi og Hæstarétti að ég hefði ekki komið óviðurkvæmilega fram við kvenfólk.“
Aðspurður hvort samviska hans sé hrein í þessum málum segir Gunnar: „Algjörlega.“
Athugasemdir