Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, hvetur stjórnvöld til þess að handtaka Michael Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þegar hann kemur til landsins í opinbera heimsókn.
„Ég mótmæli því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur taki kurteislega á móti Michael Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag,“ skrifar Kristinn í færslu á Facebook. „Pompeo er heiftúðugur ruddi sem hefur haft í hótunum við mig og mína samstarfsfélaga í WikiLeaks sem hafa ekki annað til saka unnið en að upplýsa almenning á sömu forsendum og aðrir blaðamenn. Þetta er maðurinn sem hefur kallað WikiLeaks „fjandsamlega leyniþjónustu“ og heitið því að berjast gegn henni með öllum tiltækum ráðum.“
Pompeo mun eiga fund með Katrínu og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. „Það er óþolandi að Katrín Jakobsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson eigi kurteislegan vinafund með rudda sem hefur í hótunum,“ skrifar Kristinn. „Í starfi sínu sem utanríkisráðherra hefur Pompeo leitt stigvaxandi ofsókir ríkisstjórnar Trumps gegn WikiLeaks og Julian Assange, útgefanda samtakana. Staðfest er að búið er að gefa út pólitíska ákæru gegn Assange með leynd í Bandaríkjunum og ráðuneyti Pompeo fer fremst í flokki við að þrýsta á aðrar ríkisstjórnir að svipta hann og aðra starfsmenn WikiLeaks friðhelgi. Er það eitt af erindum hans til Íslands?“
Loks segir Kristinn að það sé skelfilegt að Katrín ætli að funda með Pompeo. „Á meðan mun lögreglan í landinu loka umferðargötum fyrir aðra en „fyrirmanninn“ og hans fylgdarlið. Fremur en að greiða för, á lögreglan að hefta hana, setja manninn í járn og láta hann sæta ábyrgð – í nafni lýðræðis, frelsis og mannréttinda.“
Athugasemdir