Tryggingafélagið Tryggingamiðstöðin og eignarhaldsfélagið Fiskisund ehf. seldu hlutabréf sín í Arnarlaxi til norska laxeldisrisans Salmar AS í dag fyrir um 2,5 milljarða samtals. Um var að ræða rúmlega 12 prósenta hlut. Tryggingamiðstöðin átti 3,9 prósent í Arnarlaxi og Fiskisund ehf. átti 8,4 prósent.
Fiskisund er eignarhaldsfélag í eigu þeirra Kára Þórs Guðjónssonar, Einars Arnar Ólafssonar og Höllu Sigrúnar Hjartardóttur og var það stofnað utan um fjárfestingu þeirra í Fjarðalaxi á sínum tíma. Árið 2016 seldu þau Fjarðalax til Arnarlax og fengu greitt fyrir í reiðufé og með hlutabréfum í sameinuðu félagi. Einar Örn hefur verið stjórnarmaður í Arnarlaxi síðan en mun nú hverfa úr stjórninni þar sem hann á ekki lengur hlutabréf í félaginu.
„Hlutabréf TM í Arnarlax voru vörsluð hjá norsku fjármálafyrirtæki“
Hvorki TM né Fiskisund komu upp á hluthafalistanum
Í tölvupósti til Stundarinnar staðfestir Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri hjá Tryggingamiðstöðinni, sem sér um samskipti við fjölmiðla fyrir hönd tryggingafélagsins, að Tryggingamiðstöðin hafi nú selt hlut sinn. „Já“, segir hann stutt og laggott við þeirri spurningu hvort Tryggingamiðstöðin sé einn þeirra aðila sem selt hafi bréfin til Salmar.
Aðspurður hvort hlutabréf Tryggingamiðstöðvarinnar hafi verið hluti þeirra bréfa sem voru í vörslu fyrirtækisins Clearstream banking í Lúxemborg segir Kjartan: „Hlutabréf TM í Arnarlax voru vörsluð hjá norsku fjármálafyrirtæki og skýrist það einfaldlega af því að hlutabréfin sem TM átti voru í norska félaginu Arnarlax AS.“
Hvorki Tryggingamiðstöðin né Fiskisund voru skráð beint á hluthafalista Arnarlax og hefur Stundin ekki geta fengið það útskýrt af hverju umrætt félag í Lúxemborg var skráð fyrir bréfunum.
Miðað við kaupverðið á hlutabréfunum hefur Tryggingamiðstöðin fengið um 800 milljónir króna fyrir þau.
Fengu um 1700 milljónir fyrir hlutinn
Meirihluti hlutabréfanna í Arnarlaxi var í eigu Fiskisunds og hefur félagið fengið rúmar 1700 milljónir króna fyrir hlutabréfin sem það seldi. Miðað við verðmæti hlutafjárins sem selt var er markaðsvirði Arnarlax rúmlega 20 milljarðar króna. Einar Örn Ólafsson, einn af eigendum Fiskisunds, var á fundi þegar Stundin hringdi í hann og gat því ekki farið yfir málið með blaðinu.
Ljóst er að Fiskisund hagnast verulega á viðskiptunum og er söluverðið á hlutafénu umtalsvert hærra en bókfært verð hlutarins í síðasta ársreikningi Fiskisunds. Þar eru hlutabréfin bókfærð á tæplega 1200 milljónir. Skuldir félagsins voru tiltölulega lágar, 249 milljónir króna.
Áætlaður söluhagnaður Fiskisunds á hlutabréfunum er því talsverður. Þessi söluhagnaður bætist við 1400 milljón króna hagnað Fiskisunds þegar félagið seldi Fjarðalax til Arnarlax árið 2016. Áætlaður hagnaður Fiskisunds af viðskiptunum með laxeldisfyrirtækin, sökum þess hve skuldir eru lágar, er því um þrír milljarðar króna.
Fiskisund ehf. kom að eignarhalinu á Fjarðalaxi á tímabili þar sem erfiðlega hafði
gengið að fá nýja eigendur að félaginu og hefur Kári Þór lýst því í fjölmiðlum að án aðkomu þeirra hefði félagið líklega orðið gjaldþrota. „Fyrirtækið var í sölu í næstum því heilt ár áður en það var selt en það tókst ekki að selja það. [...] Ég var ráðgjafi eigenda í verkefninu. í fyrsta lagi að reyna að redda fjár- mögnun,“ sagði Kári og utskýrði að hans hlutverk hefði meðal annars verið að reyna að bjarga þeim verðmætum sem voru inni í fyrirtækinu. „Í raun og veru var kom- inn áf samningur við innlenda aðila sem vildu kaupa þetta. [...] Það gekk hins vegar ekki upp að kaupa félagið á tveimur til þremur vikum án þess að gera áreiðanleikakönnun og þess vegna duttu menn út. [. ..] Ég var náttúrulega bara einhvers konar fulltrúi eigenda að reyna að forða því að fyrirtækið færi í þrot. Á endanum sting ég upp á þessum viðskiptum og eigendur samþykkja það að það megi reyna þessa leið og samþykkja það að Halla fengi þá að vera með í þessu, taka þátt í þessum kaupum.“ Fiskisund ehf. hefur því gert afar gott mót fjárhagslega með viðskiptum sínum í íslensku laxeldi. Athygli vakti hins vegar á sínum tíma að Halla Sigrún Hjartardóttir, einn eigandi Fiskisunds, var starfsmaður fjárfestingarbankans Straums sem vann að því að finna nýja hluthafa að félaginu og lét hún af störfum í bankanum í kjölfarið á því að Fiskisund kom að Fjarðalaxi.
Þau tengsl eru á milli eigenda Fiskisunds og Tryggingamiðstöðarinnar að Einar Örn Ólafsson er stór hluthafi í tryggingafélaginu. Hann á 2,89 prósent og er jafnframt stjórnarmaður í fyrirtækinu. Því má segja að Einar Örn hagnist með tvenns konar hætti á sölu hlutabréfanna í Arnarlaxi, sem eigandi Fiskisunds og sem hluthafi í Tryggingamiðstöðinni.
Athugasemdir