Aðeins 12% þeirra kvenna sem dvöldu í Kvennaathvarfinu á árinu 2018 kærðu manninn sem hafði beitt þær ofbeldi. 5% þeirra fengu nálgunarbann og 2% neyðarhnapp. Aðeins 14% þeirra fóru aftur heim til ofbeldismannsins, sem er lægsta hlutfallið frá upphafi.
Þetta kemur fram í tölfræði sem Kvennaathvarfið hefur tekið saman. Alls komu 135 konur og 70 börn í athvarfið til dvalar í fyrra, en þar að auki 240 konur í viðtöl án þess að dvelja. Þar að auki komu 225 konur í viðtöl í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
Konur og börn dvöldu í athvarfinu allt frá einum degi upp í 325 daga. Að meðaltali var dvölin 31 dagur hjá konum en 35 dagar hjá börnum. Af þeim konum sem dvöldu í athvarfinu voru 80% af höfuðborgarsvæðinu og 67% þeirra af erlendum uppruna.
Af konunum höfðu 47% einhvern tímann hlotið áverka í sambandinu og lögregla hafði í 43% tilvika haft afskipti af gerandanum. 50% sögðust hafa óttast um líf sitt vegna ofbeldisins en aðeins 12% lagt fram kæru. Í fjórðungi þeirra mála hafði dómur fallið.
Í svörum kvennanna kom í ljós að samanlagt 273 börn bjuggu á ofbeldisheimilum. Í 44% tilvika vissi konan af því að barnavernd hefði verið tilkynnt um aðstæður barna á heimilinu en í einungis 27% tilvika höfðu börnin fengið aðstoð vegnaofbeldisins. Í þeim tilfellum var yfirleitt um að ræða eitt viðtal við sérfræðing eða að barnið hefði möguleika á að ræða við starfsmann skóla.
„Langstærstur hluti hópsins hafði enga aðstoð fengið þrátt fyrir að flestum sé nú orðið ljóst að afleiðingar þess að verða vitni að ofbeldi á heimilum geti verið engu síður alvarlegar en afleiðingar þess að vera beitt ofbeldi á heimilum,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.
Athugasemdir