„Okkur er mjög brugðið að þetta hafi verið gert án samnings, innan háskólans, að okkar vitneskju án þeirra vitneskju, að þeir hafi ekki vitað að þetta hafi farið fram innan veggja háskólans og að það hafi átt sér stað einhverjar greiðslur sem óljóst er hvert hafa farið, varðandi þessar rannsóknir,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs og ein þeirra sem hefur leitt mótmæli innan háskólans gegn tanngreiningum á ungum hælisleitendum. Stúdentaráð Háskóla Íslands, Landssamtök íslenskra stúdenta, starfsmenn og doktorsnemar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem og starfsmenn og doktorsnemar við Hugvísindasvið skólans hafa að undanförnu sent frá sér yfirlýsingar þar sem tanngreiningunum er mótmælt harðlega.
Málið þykir óþægilegt fyrir rektor sem og yfirstjórn Háskóla Íslands sem hefur beitt sér fyrir gerð þjónustusamningsins, en tanngreiningar hafa farið fram innan veggja skólans án slíks samnings í áraraðir. Stúdentar, doktorsnemar og starfsmenn háskólans hafa meðal annars bent á að tanngreiningar á hælisleitendum fari gegn vísindasiðareglum skólans en þær kveða á um að rannsakendur skuli ekki skaða hagsmuni þeirra sem tilheyra hópi í erfiðri stöðu. Þá hafa þeir bent á samfélagslegt hlutverk menntastofnana sem og mikilvægi þess að akademískar stofnanir framkvæmi ekki aðgerðir lögvalds á borð við Útlendingastofnunar. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi tölvupóst á starfsmenn háskólans í síðustu viku þar sem hann sagði að aldurgreiningar á tönnum færu ekki fram á meðan málið væri til skoðunar hjá Heilbrigðisvísindasviði skólans.
„Að það hafi verið einn ungur maður ranglega aldursgreindur og að hann hafi haft svona gífurlega neikvæða reynslu af Háskóla Íslands í því ferli, það stakk okkur virkilega mikið“
Stundin greindi frá því í fyrra þegar tannlæknar við Háskóla Íslands komust að þeirri niðurstöðu að sautján ára barn væri í raun og veru átján ára og þar með fullorðinn einstaklingur. Við það missti einstaklingurinn þá stöðu sem fylgdarlaust barn hefur, en það sem varð honum til happs, var að hann gat nálgast vegabréf og persónuskilríki frá heimalandinu sem sýndu fram á að hann væri í raun og veru sautján ára. Málið vakti athygli á því hvað tanngreiningar geta verið ónákvæmt vísindi. Elísabet segir að þeim í Stúdentaráði hafi verið verulega brugðið þegar þau áttuðu sig á þessu. „Að það hafi verið einn ungur maður ranglega aldursgreindur og að hann hafi haft svona gífurlega neikvæða reynslu af Háskóla Íslands í því ferli, það stakk okkur virkilega mikið.“
Háskóli Íslands brást við fyrrnefndu atviki og þeirri umræðu sem fylgdi með því að hefjast handa við að undirbúa gerð fyrrnefnds þjónustusamnings um aldursgreiningar á tönnum hælisleitenda við Útlendingastofnun. Forseti Stúdentaráðs gagnrýnir að háskólinn hafi farið beint í að undirbúa þjónustusamning í stað þess að kanna hvað hefði farið úrskeiðis. „Fókusinn hefur hingað til bara verið á það að koma þessu í formlegt ferli en ekki að líta til baka og hugsa, hvað fór úrskeiðis? Hvernig gátu rannsóknir farið fram innan veggja háskólans þar sem enginn samningur lá fyrir?“ Spyr Elísabet sem telur að það þurfi að skoða vel hvernig það gat gerst að slíkar rannsóknir færu fram innan veggja skólans án samnings.
Í helgarblaði Stundarinnar er rætt við þrjár konur, sem nema og starfa við Háskóla Íslands, en þær gagnrýna skólann sinn harðlega fyrir að hafa stundað röntgenrannsóknir á tönnum ungra hælisleitenda fyrir Útlendingastofnun án samnings, sem og að vinna að sérstökum þjónustusamningi um rannsóknirnar.
Athugasemdir