Við höfum gengið í gegnum svo margt sameiginlega síðasta áratug. Áhyggjur, vonir, væntingar, uppgjör, valdeflingu og breytingar. Stundum vonbrigði, en almennt viljann til að bæta okkur og samfélagið.
Í kosningunum 2013 var kosið um hvernig Nýja-Ísland ætti að líta út. Helsta uppgjörinu við hrunið var lokið. Erfiðleikarnir voru að mestu afstaðnir og kominn tími til að byggja á nýja grunninum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom fullskapaður fram í stjórnmálum og vann stórsigur með loforði um að lækka húsnæðisskuldir um 20 prósent og afnema verðtryggingu, nokkuð sem vinstri stjórninni hafði mistekist í hreinsunarstarfinu.
Við fengum fljótlega að kynnast niðurstöðunni. Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um hið gagnstæða fyrir kosningar ákvað nýja ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, eða Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu, einn síns liðs og án þess að ræða málið á Alþingi. Við tók ein ruglingslegasta stjórnmálaumræða síðari ára þar sem ráðherrar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks reyndu að sannfæra þjóðina um að þetta væri allt misskilningur, það væri ekki búið að draga umsóknina til baka, en það væri samt búið að slíta viðræðunum, það hefði verið sent bréf og ekki sent bréf, en allt væri þetta pólitískt ómögulegt.
Strax eftir að hafa verið forsætisráðherra í einn mánuð gerði Sigmundur Davíð Ríkisútvarpið að helsta óvininum. Þessi þráður hefur haldið honum síðan, að fjölmiðlar séu vondir, en hann sjálfur rödd skynseminnar og holdgervingur baráttu gegn ótilgreindum illviljuðum öflum. Fyrir síðustu kosningar hélt hann þræðinum gangandi með því að lofa að stefna þremur fjölmiðlum fyrir meiðyrði. Sem hann hefur þó ekki staðið við.
Þjóð með ranghugmyndir
Fljótlega kom að því að Sigmundur efaðist um raunveruleikaskyn þjóðarinnar, vegna þess að fólki vantreysti stjórnmálamönnum. Hann krafðist meiri bjartsýni og ánægju, útmálaði gagnrýnendur dökkum litum, og sagði vantraustið skýrast „á þessu rofi milli raunveruleika og skynjunar eða umfjöllunar“ og að „rangfærslur sem styðja við ranghugmyndirnar“ næðust „betur í gegn heldur en raunveruleikinn“.
Þarna vissi fólk auðvitað ekki af þeim raunveruleika að forsætisráðherrann ætti hálfs milljarðs króna kröfur í þrotabú íslenskra banka í gegnum leynilegt aflandsfélag á sama tíma og hann hafði það tekið sér það hlutverk að útfæra samninga við kröfuhafa.
Þarna vissi fólk ekki heldur af þeim raunveruleika að utanríkisráðherrann Gunnar Bragi Sveinsson hafði ákveðið að fara fram á persónulegt endurgjald fyrir að skipa Geir H. Haarde sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. (Sjá siðareglur alþingismanna: „Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra“.) Og auðvitað vissi fólk ekki beint að hann hefði skipað „fávitann“, „frænda“ sinn, Árna Þór Sigurðsson, sendiherra til að snúa athyglinni frá þessari verðmætu persónulegu fjárfestingu í skuldbundinni velvild Sjálfstæðisflokksins sem skipan Geirs átti að vera.
Tól lýðskrumaranna
Svo var Sigmundur svikinn. Hann var í viðtali, sem var „falsað“ - því hann var spurður spurningar sem hann vildi ekki svara, um leyndan hagsmunaárekstur sinn. (Sjá siðareglur ráðherra: „Ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Takist honum ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá.“)
Og það var brotist inn í tölvuna hans. Örugglega. En engin ummerki fundust. Honum var boðið á afvikna staði á fundi með kröfuhöfum. Kröfuhafar eltu hann um heiminn. (Sjá Panamaskjölin: Hann var sjálfur kröfuhafi).
George Soros stóð á bakvið þetta. (Sjá: Victor Orbán ofl. popúlistar) En Soros var sjálfur í Panamaskjölunum.
Ókunnugu fólki var smalað í rútur gegn honum. En rúturnar reyndust fullar af kínverskum ferðamönnum. Og þegar hann tapaði formannskjöri strunsaði hann út og mætti ekki í vinnuna svo mánuðum skipti. Þegar hann var spurður út í mætingu sína á Alþingi gekk hann út úr viðtali í annað skiptið frá Wintris-viðtalinu heimsfræga.
Ótti kvenna
En Sigmundur sneri aftur. Hann sló met í fylgi nýs stjórnmálaflokks með sjö manna þinglið. Hann sló líka met í kynjahalla. Það er að segja, enginn flokkur komst nálægt því að vera með aðeins 14 prósent hlutfall kvenna. Nálæg skýring var uppstilling Miðflokksins, en Sigmundur fann ytri skýringu. Hann kenndi „umræðunni“ um, sem þýddi að hann bæri enga ábyrgð á því.
„En það sem ég er að spá í sérstaklega, varðandi stöðu kvenna í stjórnmálum, er áferð stjórnmálanna. Maður hefur tekið eftir því að fólk almennt, en kannski sérstaklega konur, hlutfallslega meira konur, eru ekki hrifnar af því hvernig stjórnmálin líta út. Og þar af leiðandi finnst þetta ekki freistandi starfsvettvangur,“ sagði Sigmundur í Silfrinu daginn eftir kosningarnar í fyrra.
Því þessar „klikkuðu kuntur“, „apakettir“, „helvítis tíkur“, sem þeir „gætu bara riðið“, treysta sér ekki í stjórnmálin vegna óvæginnar opinberrar umræðu.
„Þetta er alvarlegt vandamál sem við verðum að taka á að það er orðið óaðlaðandi fyrir fólk, bæði karla og konur, hlutfallslega er það meira konur, að fara inn á þetta starfssvið,“ sagði hann eftir kosningarnar. „Og það breytist ekki á meðan stjórnmálin halda áfram að þróast meira og minna út í eitthvað svona persónulegt níð.“
Þetta var í fullu samræmi við opinberan boðskap Sigmundar. Hann hafði verið útnefndur einn helsti karlfemínisti heims, sigri hrósandi, og sama á segja um Gunnar Braga, sem tók á móti HeForShe verðlaunum alþjóðasamtakanna UN Women fyrir Íslands hönd.
Aldrei aftur svik
Í þriðjudagsspjalli Sigmundar, Gunnars Braga, þriðja Miðflokkskarls og tveggja karla úr 75% karlaflokknum Flokki fólksins, meðal annars um einu konuna í þinghópi Flokks fólksins, sem nefnd var „kunta“, lýsti Sigmundur því að enginn skyldi vera svikinn, eins og hann var svikinn.
„Ég vil að þessi flokkur og þessi hópur hérna hafi það að leiðarljósi að þeir sem standa með hópnum séu virtir af því og aldrei sviknir þegar á reynir,“ lýsti Sigmundur yfir.
„Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“
Hann hneykslaðist á stjórnmálakonu, sem hafði hafnað Miðflokknum. „Henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann,“ sagði hann. „Henni er bara fokking sama um hvað við erum að gera. Hjólum í helvítis tíkina! Það er bara málið. Af hverju erum við að hlífa henni? Ég er að verða brjálaður! Af hverju erum við að hlífa henni?“ hrópaði Gunnar Bragi.
„Who the fuck is that bitch?“ sagði einn þeirra og annar tekur undir: „Fuck that bitch“. „Þú getur riðið henni, skilurðu,“ sagði Miðflokksþingmaður til áréttingar, hluti af þeirri nýliðun sem átti sér stað á Alþingi um síðustu kosningar.
Samsærið
Spjallið á Klaustri, barnum rétt á milli Dómkirkjunnar og Alþingis, vakti athygli nærstaddra. Sigmundur var fljótur til. Hann fullyrti að brotist hefði verið inn í síma eða hlerunarbúnaði komið fyrir. Hann kallaði á rannsókn og saksókn gegn fjölmiðlum. Gamla trikkið.
Og fjölmiðlar bitu á. Fyrsta frétt flestra fjölmiðla af umræðum þingmanna með spillingarjátningu, kvenfyrirlitningu og háði um fatlaða og jafnréttisbaráttuna, sem þeir höfðu svo mikið stært sig af, var á forsendum Sigmundar Davíðs: „Telur hlerunarbúnaði hafa verið beitt“, sagði stærsti vefmiðillinn, með útgangspunktinum: „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir það alvarlegt mál ef gerð hefur verið hljóðupptaka á einkasamtölum stjórnmálamanna og farið sé að stunda hleranir hér á landi.“
Svona reynir Sigmundur að snúa umræðunni upp í absúrd yfirlýsingar sínar á samfélagsmiðlum, og tekst það yfirleitt. Við þekkjum fordæmin upp að einhverju marki - stjórnmálamenn sem henda fram ósönnum eða ósannanlegum yfirlýsingum um samsæri gegn sér, fá umfjöllun fjölmiðla fyrir stóru orðin, ala á andúð gegn fjölmiðlum og eru óvart staðnir að ógeðfelldum yfirlýsingum um konur á upptöku. (Sjá: „Grab them by the pussy!“).
Ákveðið hlutfall kjósenda virðist kaupa þessa vöru hvar sem er. Þeir kjósa þá sem eru áberandi í fréttum, þó sjaldnast sé af góðu, sem þeir álíta vera „doers“. Gerendur. Sem breytast fljótt í fórnarlömb þegar upp um þá kemst, og skjóta sendiboðann.
Hótanir gegn blaðamanni
Jóhannes Kr. Kristjánsson blaðamaður bar Sigmund Davíð lauslega saman við Donald Trump í viðtali við bandarískt blað fyrir rúmu ári. Stuðningshópur Sigmundar steig fram í ummælum undir fréttinni. „Ég held að þessi Jóhannes ætti ekki að vera úti eftir að skyggja tekur, það leynist margt i myrkrinu sem getur verið hættulegt, er mér sagt,“ sagði einn þeirra. „Jóhannes þessi er einn mesti viðbjóður sem hefur lætt sér sem eiturnaðra inn á fjölmiðla. Þöggum niður í þessu kvikindi,“ sagði annar. „Nákvæmlega,“ tók þriðji undir. Allir undir nafni.
„Þöggum niður í þessu kvikindi“
„Fær hann vel borgað fyrir að níða Ísland niður?“ spurði enn annar. „Er ekki hægt að dæma ríkisborgararéttinn af þessum lygna ómerkilega óþverra?“ hélt enn annar áfram.
Logið um lygi eða tvílyga?
Viðbrögð Gunnars Braga og Sigmundar við umræðu trygglynda hópsins um kvenfyrirlitningu og mont um spillingu voru samkvæmt aðferðinni.
Gunnar Bragi var steinhissa og mundi lítið. „Ég verð bara að viðurkenna það, að ég man ekkert eftir öllu sem fór þarna fram. Svo ég sé nú alveg heiðarlegur,“ sagði hann. Svo sagðist hann hafa verið að ljúga um að hafa beðið um greiða frá Sjálfstæðisflokknum fyrir að skipa Geir sendiherra. Eða, annað hvort laug hann því að hann hefði verið að ljúga eða Sigmundur Davíð laug með honum á fundinum, því hann staðfesti orð hans staðfastlega. Allavega var lygin höfð við hönd.
„Grafalvarlegt mál,“ sagði Gunnar Bragi. Um það að orð hans hafi verið tekin upp.
Að karla eftir ábyrgð
Af hópnum öllum var aðeins einn aðili sem íhugaði afsögn. „Það fara einhverjir dagar í að við komumst yfir þetta,“ segir Gunnar Bragi, treystandi á að næsti fréttahringur fái fólk til að gleyma.
Í þinghópi Miðflokksins og Flokks fólksins eru samtals níu karlar og tvær konur. 18 prósent konur, 82 prósent karlar. Eins og í gamla daga.
Af konunum tveimur var ein fjarverandi á fundinum á Klaustri. Hún var úrskurðuð „fokking tryllt“ og „húrrandi klikkuð kunta“. Hin, sem var viðstödd, sagði minnst. En það er hún sem íhugaði ein afsögn í dag. „Ég ætla að hugsa mjög vel mína stöðu. Finnst mikilvægt að ég beri ábyrgð á sjálfri mér,“ sagði hún.
Það er ekki vitað enn hvort Miðflokkurinn missi einu konuna, og tveir karlar úr Flokki fólksins gangi til liðs við Miðflokkinn, Karlaflokkinn.
En við vitum núna að það sem kallað var „ógeðslegt þjóðfélag“, (engin prinsipp, engar hugsjónir, bara tækifærismennska og valdabarátta), af einum helsta plottara síðustu aldar í rannsóknarskýrslu Alþingis, flaut með í gegnum allar uppfærslurnar okkar, hrunið, uppgjörið, endurreisnina, Panamaskjölin og Me too. Það er enn sagt að það sé ekki „hluti af menningunni“ að axla ábyrgð. Eða er það ekki hluti af karlmenningunni að axla ábyrgð? Sem betur fer er það orðinn hluti menningar okkar að kalla eftir henni. Þótt það reynist erfiðara að kalla karla eftir henni. Það gleymist stundum, þegar hentar, að menning er manngert fyrirbæri og við getum breytt henni. Ef vandamálið birtist í æðstu stöðum er hins vegar einfaldlega um að ræða vandamál okkar með mönnun.
Athugasemdir