Þjónustugjöld bankanna hafa hækkað langt umfram verðlag, þrátt fyrir hagræðingu bankanna í formi lokunar útibúa og aukinnar rafrænar þjónustu. Þetta kemur fram í úttekt verðlagseftirlits ASÍ.
„Dýrt er að sækja sér þjónustu í útibú eða í símaver en gjöld tengd slíkri þjónustu hafa hækkað mikið á síðustu árum auk þess sem ýmsir þjónustuliðir hafa bæst við sem ekki voru til áður,“ segir í tilkynningu ASÍ. „Þá rukka bankarnir viðskiptavini enn fyrir ýmsan kostnað sem á ekki við í dag eins og FIT kostnað. Gjaldskrár bankanna eru þar að auki afar flóknar og ógagnsæjar sem gerir neytendum erfitt fyrir að átta sig á kostnaði eða gera samanburð milli banka.“
Þá kemur fram að gjaldliðir bankanna nemi hundruðum og erfitt sé að bera þá saman á milli banka þar sem þeir heiti mismunandi nöfnum.
„Bankarnir eru farnir að rukka hærri gjöld fyrir þjónustu sem krefst aðstoðar þjónustufulltrúa, hvort sem það er í gegnum síma eða í útibúi á meðan þjónustan kostar mun minna eða ekkert ef fólk framkvæmir aðgerðirnar sjálft,“ segir í tilkynningunni. „Þannig hefur Arion banki tekið upp fast afgreiðslugjald upp á 195 kr. fyrir aðgerðir sem framkvæmdar eru af þjónustufulltrúa en ýmsir liðir kosta þó töluvert meira. Mestur er verðmunurinn á afgreiðslugjaldi vegna innlagnar reiðufjár í annan banka sem kostar 495 kr. hjá Arion banka, 375 kr. hjá Íslandsbanka og 100 kr. hjá Landsbankanum en það gerir 375% verðmun á hæsta verðinu hjá Arion og því lægsta hjá Landsbankanum.“
Helmingi færri útibú og 1.500 færri starfsmenn
Í tilkynningu ASÍ kemur fram að útibúum bankanna hafi fækkað úr 146 í 74 og starfsmönnum fækkað úr 4326 í 2850, eða um tæplega 1500 manns. Á síðustu þremur árum hafi bankakostnaður hins vegar hækkað um 11% og kostnaður við greiðslukort um 19%. Vísitala neysluverðs á sama tíma hækkaði um 7% og verðbólgu því ekki hægt að kenna um alla hækkunina.
„Það vekur því nokkra furðu að verðhækkanir þeirra séu jafnmiklar og raun ber vitni,“ segir í tilkynningunni. „Þrátt fyrir að einhver munur sé á verðlagningu bankanna virðist lítil samkeppni vera í verðlagningu milli þeirra. Ef einn banki hækkar gjöld virðist næsti fylgja á eftir með svipaðar verðhækkanir. Það er því ekki að sjá að bankarnir reyni að keppa um viðskiptavini í verði og einkennist markaðurinn af fákeppni.“
Fram kom í tilkynningu í síðustu viku að þýski netbankinn N26 hyggðist hefja starfsemi hér á landi, en bankareikningar N26 eru í evrum.
Athugasemdir