Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, hefur lagt fram fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra um „markmið um aðlögun að íslensku samfélagi“. Spyr hann um þá sem leita alþjóðlegrar verndar og aðlögun þeirra, „þar á meðal um þátttöku á vinnumarkaði, færni til að sjá sér farborða, tækifæri til að afla sér menntunar og kunnáttu í íslenskri tungu“.
Þá spyr Ólafur ráðherra hvaða mælikvarðar séu lagðir til grundvallar slíkum markmiðum og hvernig þeir hafi þróast undanfarin fimm ár í samanburði við nágrannalönd. Loks spyr hann ráðherra hvort hann telji gildandi markmið og árangur í málaflokknum fullnægjandi og hvort áform séu um aðgerðir.
Þetta er í þriðja sinn frá þingkosningum fyrir tæpu ári sem Ólafur spyr út í málaflokk hælisleitenda, en í apríl spurði hann dómsmálaráðherra meðal annars um útgjöld vegna þeirra, fjölda þeirra og dvalartíma hér á landi síðustu fimm ár.
Flokkur fólksins hefur lýst því yfir að hann vilji einungis taka á móti 50 kvótaflóttamönnum á ári og að málefni hælisleitenda séu afgreidd með skilvirkum hætti „að norskri fyrirmynd“ innan 48 klukkustunda.
Fyrirspurnin í heild sinni
1. Hvaða markmið hafa verið sett um aðlögun þeirra sem fá alþjóðlega vernd hér á landi að íslensku samfélagi, þar á meðal um þátttöku á vinnumarkaði, færni til að sjá sér farborða, tækifæri til að afla sér menntunar og kunnáttu í íslenskri tungu?
2. Hvaða mælikvarðar eru lagðir til grundvallar um árangur að því er snertir þessi markmið og önnur sem kunna að hafa verið sett?
3. Hvernig hafa þessir mælikvarðar þróast á umliðnum fimm árum? Hvernig standast þeir samjöfnuð við mælikvarða í nágrannalöndum?
4. Telur ráðherra gildandi markmið og árangur til þessa vera fullnægjandi? Ef ekki, hver eru áform ráðherra um aðgerðir?
Athugasemdir