Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra afhenti David Lidington, staðgengli Theresu May og ráðherra í ríkisstjórn hennar, eintak af skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins í morgun. Þetta kemur fram á stjórnarráðsvefnum þar sem greint er frá fundi sem ráðherrarnir áttu í Birmingham.
Á fundinum fóru þeir yfir nýjustu þróun í Brexit-viðræðunum og ræddu jafnframt samskipti Íslands og Bretlands eftir útgönguna, um viðskipti landanna almennt og mikilvægi þess að styrkja þau til framtíðar. Þá var fjallað um efnahagsmál á Íslandi og þróun síðustu ára.
„Bjarni afhenti Lidington eintak af nýlegri skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, en í henni er m.a. fjallað um fordæmalausa framgöngu ríkisstjórnar Verkamannaflokksins í garð Íslendinga þegar þáverandi ríkisstjórn Bretlands beitti bresku hryðjuverkalögunum á Íslendinga í tengslum við bankahrunið,“ segir í tilkynningunni á vef stjórnarráðsins.
Í skýrslu Hannesar Hólmsteins sem David Lidington fékk að gjöf er hrun íslenska fjármálakerfisins að vissu leyti rakið til aðgerða breskra stjórnvalda. Fjallar Hannes meðal annars um beitingu hryðjuverkalaganna og aðgerðir Breta gagnvart dótturfélögunum Heritage Bank og Kaupthing Singer & Friedlander. Hann setur fram tilgátur um hugsanlegar ástæður þess hvernig breskir ráðamenn gengu fram og kemst að þeirri niðurstöðu að bresk stjórnvöld skuldi Íslendingum afsökunarbeiðni.
Athugasemdir