Meint brot lögreglumanna á málsmeðferðarreglum við rannsókn Hafnarfjarðarmálsins svokallaða hafa verið kærð til ríkissaksóknara og héraðssaksóknara. Þetta staðfestir Jóhann Baldursson, lögmaður móðurinnar, í samtali við Stundina.
Kæran til héraðssaksóknara lýtur að tveimur atriðum lögreglurannsóknarinnar sem fram fór í árslok 2014 og ársbyrjun 2015; annars vegar því að stúlkunum hafi ekki verið skipaður réttargæslumaður þegar rannsókn hófst og hins vegar að lögreglan hafi hunsað atriði sem komu fram í skýrslutöku yfir sakborningi og hafi gefið tilefni til sjálfstæðrar rannsóknar.
Kæran til ríkissaksóknara varðar atburðarásina í desember 2016, þegar barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar tilkynnti föðurinn til lögreglu í þriðja sinn eftir að vísbendingar um kynferðisbrot höfðu komið fram í viðtölum meðferðaraðila við börnin. Lögreglan afgreiddi málið án rannsóknar, skipaði ekki réttargæslumann og vísaði málinu frá. Telur lögmaðurinn ljóst að lögreglu hafi verið óheimilt að ljúka málinu með þessum hætti.
Sama dag, þann 8. desember, tjáði lögreglan barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar að embættið ætlaði að bíða eftir könnunarviðtali Barnahúss við aðra stúlkuna. Tilvísunarbréf barnaverndarnefndar til Barnahúss lá óhreyft í pósthólfi Barnahúss í mánuð og um leið bilaði tölvukerfi stofnunarinnar. Á sama tíma hafði Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, samband við starfsmann barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í samráði við afa stúlknanna og talaði fyrir því að þær yrðu látnar umgangast föður sinn og fjölskyldu hans. Síðar boðaði Bragi til fundar um málefni stúlknanna og lýsti efasemdum um trúverðugleika þeirra upplýsinga sem borist höfðu frá listmeðferðarfræðingi sem barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar hafði sent stúlkurnar til.
Stundin gerði þessum afskiptum Braga ítarleg skil í vor, en atvikalýsingin sem birtist í fréttum Stundarinnar byggði á einu skráðu samtímagögnunum sem til eru um þau eins og síðar fékkst staðfest með skýrslu Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara og Kristínar Benediktsdóttur dósents um málsmeðferð ráðuneytisins við athugun á kvörtunum barnaverndarnefnda.
Fréttablaðið fjallar um kærurnar vegna lögreglurannsóknarinnar á forsíðu í dag.
Haft er eftir Kolbrúnu Benediktsdóttur aðstoðarsaksóknara að embættið hafi til meðferðar mál sem snúist um „hvort lögreglumenn hafi gerst sekir um refsivert athæfi“ við meðferð máls sem lauk fyrir nokkru síðan, þ.e. Hafnarfjarðarmálsins.
Höfðu áhyggjur af netnotkun
Rannsóknin sem átti sér stað í kringum áramótin 2014/2015 hófst eftir að barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar fékk upplýsingar um netnotkun föðurins. Í ljós kom að maðurinn var virkur á kynlífssíðunum Rapeboard.com og FetLife.com. Þar kallaði hann sig „Perrabarn“, birti myndir af sér og getnaðarlimi sínum og hakaði við hvers konar myndefni hann hefði áhuga á og hvað hann væri forvitinn um. Fram kom að hann hefði meðal annars áhuga á sifjaspelli og því að „stunda kynlíf með dætrum sínum“ eins og það er orðað í tilkynningu barnaverndarnefndar til lögreglu.
Barnaverndarnefnd lýsti áhyggjum af netnotkuninni og benti á að maðurinn væri faðir tveggja stúlkna sem væru í reglulegri umgengni hjá honum á heimili afans og ömmunnar þar sem önnur stúlkan gisti yfirleitt uppi í rúmi hjá honum. „[Maðurinn] hefur einnig verið að spjalla á þessum síðum með stúlkurnar í fanginu,“ sagði í tilkynningu barnaverndarnefndar til lögreglu. Faðirinn sagði í samtali við Stundina í lok apríl að ekkert við netnotkunina hefði bent til þess að hann vildi gera börnum sínum mein. Kynferðislegu hugðarefnin sem er hakað við á síðunni endurspegli orðfæri sem sé algengt í klámi en hafi ekkert raunverulega með sifjaspell að gera. Lögregla kannaði málið en fann ekkert saknæmt og lét það niður falla. Kæran til héraðssaksóknara lýtur að vinnubrögðum lögreglu við þessa rannsókn.
Leyndarmál um úlf
Mál stúlknanna kom aftur til kasta lögreglu í nóvember 2015 vegna tilkynningar frá heimilislækni eftir að önnur þeirra var sögð hafa kvartað undan verkjum í klofi. Faðirinn var yfirheyrður, héraðslæknir ræstur út og stúlkurnar sendar á Barnaspítala Hringsins en engir áverkar fundust. Lögregla hætti rannsókn málsins þann 11. apríl 2016 en tilkynnti að ef ný sakargögn kæmu fram kynni rannsókn þess að verða tekin upp að nýju.
Í framhaldinu fóru stúlkurnar í meðferð hjá listmeðferðarfræðingi sem hefur starfað á BUGL og nýtur trausts Barnahúss. Í viðtölunum, þar sem stúlkurnar fengu að tjá sig frjálst í máli og myndum, komu fram atriði sem barnaverndarnefnd taldi gefa tilefni til lögreglurannsóknar. Í byrjun nóvember 2016 greindi listmeðferðarfræðingurinn barnaverndarnefnd frá því að svo virtist sem eitthvað óeðlilegt hefði gerst og að önnur stúlkan hefði verið meidd „í klofinu“. Skömmu seinna sagði önnur stúlkan listmeðferðarfræðingnum frá því að „eitthvað óþægilegt“ hefði gerst hjá pabba sínum, talaði um úlf sem réðist á hana og að úlfurinn væri pabbi. Haft var eftir hinni stúlkunni að á nóttinni gerðist eitthvað slæmt en hún mætti ekki segja hvað það væri. Það væri nefnilega leyndarmál og ef hún segði frá leyndarmálinu gæti hin systirin meiðst.
Kæran 5. desember 2016 var lögð fram í kjölfar viðtala listmeðferðarfræðingsins. Lögregla vísaði málinu frá án rannsóknar og telur lögmaður móðurinnar að þar hafi lögum ekki verið fylgt. „Með eftirgangsmunum fengum við upplýsingar og gögn frá lögreglunni sem sýna að málinu var vísað frá þremur dögum eftir að kæran var móttekin. Hún er lögð inn 5. desember 2016 en vísað frá 8. desember 2016,“ segir hann í samtali við Stundina.
Athugasemdir