Afkoma Alfa hf., félags sem heldur utan um hlut Engeyinga og viðskiptafélaga þeirra í Kynnisferðum og Tékklandi bifreiðaskoðun, dróst saman um 362 milljónir króna í fyrra og var neikvæð um 198,2 milljónir. Munar þar mestu um 297 milljóna tap Kynnisferða ehf. árið 2017.
Alfa hf. á 65 prósenta hlut í Kynnisferðum á móti SF VII ehf., sem er í eigu SÍA II slhf., fagfjárfestasjóðs í rekstri Stefnis, sjóðsstýringarfyrirtækis Arion banka. Helstu eigendur Alfa eru foreldrar, bróðir, föðurbróðir og nánustu frændsystkini Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og viðskiptafélagar þeirra. Sjálfur er Bjarni eina barn þeirra Einars og Benedikts Sveinssona sem er ekki á hluthafalista félagsins, en ólíkt eiginkonu Einars Sveinssonar á eiginkona Benedikts, móðir Bjarna, um 10 prósenta hlut í Alfa.
Eins og sjá má á töflunni hér að ofan hefur Alfa skilað gríðarlegum hagnaði í uppsveiflu undanfarinna ára samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna. Þetta hefur gert eigendum kleift að greiða sér út veglegan arð, eða samtals 2,2 milljarða frá 2013, sem skiptast að mestu niður á 10 manneskjur. Á síðasta ársfundi Alfa, sem fram fór 30. ágúst, var ákveðið að ekki yrði greiddur út arður á yfirstandandi ári, enda afkoman neikvæð í fyrra. Staða félagsins er þó sterk og samkvæmt ársreikningi nam eigið fé Alfa 1,2 milljörðum í árslok 2017.
Eignuðust rútufyrirtækið eftir hrun
Hópurinn sem á Alfa og Kynnisferðir er að miklu leyti sá sami og átti olíufélagið N1 fyrir hrun. Eins og Stundin greindi frá í október 2017 var yfirtaka Engeyinganna á Olíufélaginu árið 2006 að miklu leyti fjármögnuð með kúlulánum frá Íslandsbanka, sem síðar hét Glitnir, en á þeim tíma var Einar Sveinsson stjórnarformaður bankans auk þess sem þeir Benedikt Sveinsson voru í hópi stærstu hluthafa.
Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, leiddi fjárfestahópinn ásamt Hermanni Guðmundssyni, sem svo varð forstjóri N1 en Bjarni varð stjórnarformaður BNT og N1 eftir viðskiptin. Engeyingarnir eignuðust svo Kynnisferðir eftir hrun þegar það var selt út úr BNT-samstæðunni sem þá hafði lent í miklum fjárhagskröggum og stóð í tugmilljarða skuld við Glitni við fall bankans.
Hagnaður ræstingafyrirtækisins dróst líka saman
Arðurinn af rekstri Kynnisferða og tengdra félaga hefur ýmist skilað sér beint inn á bankareikninga eigendanna eða inn á eignarhaldsfélög þeirra. Stærsti hluthafi Alfa er Benedikt Sveinsson, en hann á bæði 9,35 prósenta hlut á eigin nafni og í gegnum eignarhaldsfélag sitt, Hafsilfur ehf.
Hafsilfur tók við 18,7 milljóna arði í fyrra og 57,2 milljóna arði árið 2016. Benedikt Einarsson, sonur Einars Sveinssonar, tók við álíka miklum arði sömu ár í gegnum félagið Hæng ehf. og greiddi sér hann út. Svipaður háttur var hafður á hjá systkinum hans og eignarhaldsfélögum þeirra, Hellisvík ehf. og Hóvík ehf.
Eigið fé Hafsilfurs, félags Benedikts Sveinssonar, var 206 milljónir í árslok 2017 samkvæmt efnahagsreikningi. Hafsilfur á 26,43 prósenta hlut í Sandi ehf., móðurfélagi ræstingafyrirtækisins Daga hf. sem áður hét ISS Ísland. Hagnaður Daga dróst saman milli ára, eða úr 172,6 milljónum árið 2016 í 73,6 milljónir árið 2017. Þá var afkoma Sands neikvæð tvö ár í röð, um 21 milljón árið 2016 og 62 milljónir árið 2017.
Hlutur Hafsilfurs í Sandi er metinn á 253 milljónir króna og er þannig heildarverðmæti Sands um 957 milljónir samkvæmt bókum Hafsilfurs. P 126 ehf., félag sem Einar Sveinsson á í gegnum Lúxemborgarfélag, á jafn stóran hlut í Sandi og Hafsilfur og fer líka með 6,21 prósenta hlut í Alfa. Ársreikningur P 126 ehf. fyrir síðasta ár er óbirtur.
Samkvæmt skattframtalsgögnum ríkisskattstjóra þénaði Benedikt Sveinsson 64,3 milljónir í fjármagnstekjur árið 2017. Einar Sveinsson þénaði að meðaltali 1,1 milljón á mánuði í almennar tekjur og fékk 18,2 milljóna fjármagnstekjur ofan á þær.
Athugasemdir