Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, líkir gagnrýni á Þingvallaræðu Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, við gagnrýni kínverskra námsmanna í Bandaríkjunum á komu Dalai Lama. Þá segir hann skoðanir Piu í útlendingamálum vera viðurkenndar í evrópskum stjórnmálum.
Í grein í Morgunblaðinu í dag skrifar Björn að kínverskir námsmenn við háskóla í San Diego hafi mótmælt fyrirhugaðri ræðu Dalai Lama við skólann vorið 2017. Dalai Lama hefur barist fyrir mannréttindum og frjálsu Tíbet og sætt gagnrýni kínverskra stjórnvalda fyrir vikið.
Björn segir gagnrýni Pírata á hátíðarræðu Piu á Þingvöllum dæmi um „hvernig pólitísk öfl vilja ráða skoðanamyndun í landinu með því að þagga niður í erlendum einstaklingi sem þeir eru ósammála.“ Pia er þekkt fyrir útlendingaandúð og baráttu sína gegn fjölmenningu og íslam. Árið 2010 kallaði hún eftir því að stjórnvöld bönnuðu innflytjendum sem ekki væru af vestrænum uppruna að setjast í Danmörku. Hæstiréttur Danmerkur felldi árið 2003 þann dóm að réttmætt væri að kalla skoðanir Piu „rasískar“.
„Þetta er í ætt við viðhorfið hjá kínversku námsmönnunum sem gengu þeirra erinda að banna Dalai Lama að flytja ræðu sína,“ skrifar Björn. „Þetta er tilraun til útskúfunar í því skyni að hefta frjálsa skoðanamyndun.“
Samfylkingins stöðvi fylgistap sitt með harðari útlendingastefnu
Björn skrifar að „atlagan að Piu“ hafi verið dæmd til að mistakast. „Stórdeilurnar vegna komu Piu Kjærsgaard á fund Alþingis eru angi af umræðum sem setja sterkan svip á stjórnmál líðandi stundar í Evrópu,“ skrifar Björn. „Sjónarmið sem hún boðar í útlendingamálum voru fyrir nokkrum árum kennd við öfgaskoðanir. Þau eru nú viðurkenndur hluti meginsjónarmiða í evrópskum stjórnmálum.“
Þá skrifar Björn að Samfylkingin ætti að taka upp harðari útlendingastefnu til að forðast fylgistap. „Með fordæmingu sinni á viðhorfum Kjærsgaard skipar Samfylkingin sér í hóp andstæðinga danskra jafnaðarmanna í útlendingamálum. Formaður danska jafnaðarmannaflokksins nýtur á sama tíma vaxandi virðingar flokksbræðra í öðrum löndum en hér vegna harðrar útlendingastefnu sinnar. Slík fyrirstaða kunni að stöðva fylgistap jafnaðarmannaflokka um alla Evrópu.“
Píratar gangi af þingfundi á „öruggt svæði“
Í greininni notar Björn reglulega hugtakið „öruggt svæði“, sem er þýðing á enska hugtakinu „safe space“. Hugtakið á uppruna sinn í hreyfingum kvenna, samkynhneigðra og annarra hópa og táknar rými þar sem manneskja úr viðkomandi hópi getur verið viss að hún mæti ekki fordómum, mismunun, áreiti eða ofbeldi vegna hópsins sem hún tilheyrir.
„Hér á landi höfum við kynnst því undanfarna daga hvernig pólitísk öfl vilja ráða skoðanamyndun í landinu með því að þagga niður í erlendum einstaklingi sem þeir eru ósammála,“ skrifar Björn. „Umburðarlyndið gagnvart skoðunum annarra er ekkert og þess er krafist að sjálft Alþingi sé „öruggt svæði“.“
Segir Björn Pírata ekki sætta sig við „aukna gæslu á landamærum eða varðstöðu um norrænan og evrópskan menningararf.“ Þeir sem hafi nasasjón af norrænum hátíðarræðum í áranna rás þurfi ekki að láta sér bregða vegna ummæla Piu. „Þurfi þingmenn að ganga af þingfundi á „öruggan stað“ vegna ummæla af þessum toga, ættu þeir ekki að fara í framboð,“ skrifar Björn.
Athugasemdir