Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafa synjað konu frá Kósóvó með átta ára dóttur um dvalarleyfi og metur hana ekki sem flóttamann.
Konan taldi sig vera í hættu í heimalandi sínu vegna heimilisofbeldis og skorts á lögregluvernd. Útlendingastofnun mat frásögn konunnar trúverðuga en telur úrræði vera til staðar í Kósóvó fyrir þolendur heimilisofbeldis.
Mæðgurnar þurfa að yfirgefa landið eftir 5 daga. Konan sótti um alþjóðlega vernd í febrúar, en hún var beitt ofbeldi af tengdafjölskyldu sinni í 17 ár samkvæmt greinargerð með ákvörðun Útlendingastofnunar.
Tengdafaðir hennar gekk harðast fram í líkamlegu og andlegu ofbeldi, að sögn konunnar. Tíu manns bjuggu á heimilinu og tóku tengdamóðir og mágar hennar einnig þátt. Ofbeldið hófst þegar hún og eiginmaðurinn trúlofuðu sig, en tengdafaðir hennar samþykkti ekki sambandið þar sem hún kom frá öðru landsvæði.
Konan sagði að hún hefði þurft að læsa sig inni án matar í nokkra daga til að hlífa börnum sínum við ofbeldinu. Þegar hún leitaði til lögreglu var henni mætt „með fordómum og fyrirlitningu“. Var henni sagt að þar sem hún væri kona ætti hún að halda sig heima. Tengdafaðir hennar er sagður hafa tengsl við lögregluna á svæðinu.
Konan sagði ofbeldið hafa ágerst undanfarið og náð hápunkti þegar mágur hennar reyndi að misnota hana kynferðislega. Í framhaldinu hefði eiginmaður hennar aðstoðað hana við að yfirgefa landið, taka yngstu dótturina með og fara til Íslands, þar sem systir hennar hefur búið í 19 ár. Samband hennar við mann sinn og börn sé gott og aðeins efnahagslegar ástæður standi í vegi fyrir því að þau flytji af heimili tengdafjölskyldunnar.
„Umsækjandi hefur ekki lagt fram nein
gögn um að henni sé ómögulegt að
leita aðstoðar lögreglu.“
„Að mati Útlendingastofnunar getur umsækjandi leitað á náðir yfirvalda í heimaríki sínu og tilkynnt um spillingu og misferli einstakra lögreglumanna, en umsækjandi hefur ekki lagt fram nein gögn um að henni sé ómögulegt að leita aðstoðar lögreglu,“ segir í ákvörðun stofnunarinnar.
„Þá verður ekki séð að barn umsækjanda eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna ríkrar þarfar á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna,“ segir að lokum. „Það áreiti og ofbeldi sem umsækjandi hefur orðið fyrir verður ekki talið veita börnum umsækjanda rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.“
Upphaflega var vakin athygli á málinu á Facebook-síðunni Ekki fleiri brottvísanir. Hildur Harðardóttir, íslensk kona sem kynntist mæðgunum, fjallar um aðstæður þeirra á Facebook.
„Útlendingastofnun neitar þeim um vernd á þeim grundvelli að þær geti leitað til yfirvalda í heimalandi sínu þar sem stjórnarskráin og frjáls félagasamtök ættu að geta verndað þær. Það er langt frá raunveruleikanum en ÚTL horfir einungis til laga í Kósóvó og tekur ekki til greina rótgróið feðraveldi og spillingu í samfélaginu þar,“ skrifar Hildur sem segist sjaldan hafa kynnst jafn hugrakkri manneskju og móðurinni.
„Hún og dóttir hennar hafa nú þegar reynt allt til að komast undan ofbeldinu sem þær urðu fyrir og byrja upp á nýtt, en mæta lokuðum dyrum alls staðar. Hún reyndi að fara til lögreglu í Kósóvó og tilkynna ofbeldið, en var mætt með niðurlægingu, sannleiksgildi frásagnar hennar var dregið í efa og hún send aftur heim. Hún reyndi að flýja með dóttur sína á eyju í miðju Atlandshafi þar sem systurdóttir hennar hefur búið frá því hún var lítil stúlka. Hérna mættu þeim hinsvegar enn einar lokaðar dyrnar.“
Athugasemdir