Blade Runner föstudagspartísýning
Hvar? Bíó Paradís
Hvenær? 22. júní kl. 20.00
Aðgangseyrir: 1.600 kr.
Ein þekktasta cyberpunk og neo-noir kvikmynd sögunnar, Blade Runner, ratar aftur á stóra tjaldið og býður kvikmyndagestum að upplifa hana á ný. Kvikmyndin byggist á vísindaskáldsögu Philip K. Dick og var leikstýrt af Ridley Scott, en þegar hún kom út árið 1982 skartaði hún nýjustu tæknibrellunum og framsæknu sögusviði.
Secret Solstice
Hvar? Laugardal
Hvenær? 21.–24. júní
Aðgangseyrir: 24.9000 kr.
Sumarsólstöðuhátíðin Secret Solstice hefur skapað sér sess í tónlistarflóru Íslands og er haldin í fimmta skiptið í ár. Hátíðin er fyrst og fremst tileinkuð rappi og dansvænni raftónlist, með stórstjörnurnar Stormzy og Guzzi Mane þar fremsta í fylkingu, en eins og fyrri ár er líka stjanað við pabbarokkara landsins, og mæta Slayer á hátíðina í ár.
Mannabein
Hvar? Hönnunarsafn Íslands
Hvenær? 24. júní–24. júlí
Aðgangseyrir: 1.000 kr.
Mannabein er afrakstur af sjálfskoðunarferli Torfa Fannars Gunnarssonar og leit hans að sátt við stöðu sína í heiminum ásamt því að finna samhljóm á milli ytri og innri raunveruleika. Fatalínan er prjónuð úr mjúkri bómull á handprjónavél. Hattarnir koma frá bæjunum Pisac og Chinchero í Perú. Spjótin eru rennd úr mahóní.
Sóley
Hvar? Norræna húsið
Hvenær? 27. júní kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2.000 kr.
Það styttist í að fjölhæfa tónlistarkonan Sóley Stefánsdóttir gefi út fjórðu plötu sína, en ef hún líkist fyrri plötum verður hún melankólísk og sjálfshugul píanó-popp-plata. Þetta efnilega söngvaskáld er annar listamaðurinn til að spila á vikulegri tónleikaröð Norræna hússins sem byrjaði 20. júní, en allt í allt verða níu slíkir tónleikar í sumar.
MESH
Hvar? Mengi
Hvenær? 28. júní kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2.000 kr.
Mesh er tilraun í umhverfissálfræði, samstarfi og hljóði undir stjórn Clay Chaplin. Í júní hefur hópur hljóðlistafólks frá Los Angeles, Chicago og Reykjavík dvalið í húsi í sveit á Suðurlandi og skapað nýtt hljóðverk í gegnum tilraunir, spuna og samvinnu, sem er síðan flutt á þessu kvöldi.
Jacqueline Boxx & Reykjavík Kabarett
Hvar? Tjarnarbíó
Hvenær? 29. júní kl. 21.00
Aðgangseyrir: 3.900
Jacqueline Boxx notar burlesque-dans til að sýna að fatlað fólk getur verið unaðslegt og kynverur, en Jacqueline er fötluð og hefur dansað í hjólastól í fjögur ár. Hún kemur fram ásamt Reykjavík Kabarett 29. júní, og heldur síðan tvö námskeið 30. júní sem eru ætluð fólki með skerta hreyfigetu. Það kostar 2.900 kr. á annað námskeiðið, og 5.000 á bæði.
Einskismannsland – Leiðsögn listamanna
Hvar? Hafnarhús
Hvenær? 5. júlí kl. 20.00
Aðgangseyrir: 1.650 kr.
Leiðsögn með Pétri Thomsen og Steinunni Gunnlaugsdóttur sem eiga verk á sýningunni Einskismannsland: Ríkir þar fegurðin ein? Á sýningunni er sjónum beint að verkum listamanna sem endurspegla tengsl Íslendinga við víðerni landsins og breytilegt verðmætamat gagnvart náttúrunni. Sýningin rekur sögu hugmynda Íslendinga um víðerni landsins með augum myndlistarmanna.
Eistnaflug
Hvar? Neskaupstað
Hvenær? 11.–14. júlí
Aðgangseyrir: 19.900 kr.
Eins og venjulega mun íbúafjöldi Neskaupstaðar tvöfaldast þegar árshátíð þungarokkara landsins hefst en Eistnaflug hefur verið haldið árlega frá 2005. Auk allra helstu rokksveita landsins mæta einnig þýska thrashsveitin Kreator, sænska svartmálmsveitin Watain, breska rokksveitin Anathema, pólska málmsveitin Batushka, franski raftónlistarmaðurinn Perturbator og fleiri.
Athugasemdir