Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, hvatti til þess á Alþingi í dag að húsnæðisliðurinn yrði tekinn út úr vísitölu neyslurverðs. Fjármála- og efnahagsráðherra sagði að vinna væri hafin um að skoða lánaumhverfi hér á landi. Þingmaður Samfylkingar sagði ekki vera hægt að aðskilja íslensku krónuna og verðtrygginguna.
Ólafur hafði óskað eftir sérstakri umræðu um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Sagði hann að lóðaskortur í Reykjavík væri meðal orsaka hækkunar húsnæðisverðins, sem smitaðist út í vísitöluna. Húsnæðisliður vísitölu neysluverðs væri ástæða meirihluta þeirra verðbóta sem lántakendur þyrftu að greiða „Sjá menn skrímslið?“ spurði Ólafur.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði starfshóp sérfræðinga munu meta kosti og galla þess að miða verðtryggingu við vísitölu án húsnæðis eða leyfa tengingu við aðrar vísitölur Nú þegar væri hægt að taka óverðtryggð lán og vægi þeirra væri að aukast. „Verðtrygging lána hefur þó þann kost að greiðslubyrði framan af lánstíma er lægri,“ sagði Bjarni.
„Pylsa án kóks“
„Grunnvandi hárra vaxta og verðtryggingar liggur í gjaldmiðilnum,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. „Lausnin liggur í nýjum gjaldmiðli og í því sambandi kemur aðeins einn kostur til greina, að mati langflestra sérfræðinga, og það er evran með aðild að Evrópusambandinu.“
Ágúst Ólafur sagði að 19 þjóðir Evrópu hefðu kosið að nota evru. „Á meðan við höfum krónuna munum við búa við verðtrygginguna og oft hærri vexti en aðrar þjóðir,“ sagði Ágúst Ólafur. „Það er bara svona einfalt. Að tala um krónu án verðtryggingar er eins og að tala um pylsu án kóks. Það er ekki hægt að aðskilja þetta tvennt í sundur, þótt bæði séu óholl fyrir þig.“
Skrefum til afnáms lofað í stefnuyfirlýsingu
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin muni taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum. „Samhliða þeim verður ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði,“ segir í stefnuyfirlýsingunni. „Sérstök áhersla verður lögð á að gæta efnahagslegs stöðugleika. Ríkisstjórnin vill enn fremur skapa hvata og stuðning til þess að heimili sem það kjósa geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.“
Þá segir í yfirlýsingunni að ríkisstjórnin muni hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar. „Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella,“ segir í stefnuyfirlýsingunni.
Athugasemdir