Hvorki lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu né ríkislögreglustjóri telja sig geta brugðist við því að lögreglumaður, sem var þrívegis kærður fyrir kynferðisbrot, hefði verið sendur í útkall á heimili eins kæranda hans fyrir skemmstu.
Halldóra Baldursdóttur telur kerfið hafa brugðist sér og dóttur hennar, Helgu Elínu Herleifsdóttur, í kjölfar kæru sem þær lögðu gegn háttsettum lögreglumanni, sem var kærður fyrir að hafa beitt Helgu Elínu kynferðisofbeldi nokkrum árum áður í sumarbústaðarferð.
Halldóra hefur nú sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins: „Hann setti þar með ekki þær kröfur til sinna manna að það sé óásættanlegt með öllu að starfandi lögreglumenn fái á sig ítrekaðar kærur fyrir barnaníð,“ segir hún meðal annars um viðbragðaleysi ríkislögreglustjóra.
Martröð að gerandi sé sendur í útkallið
Kæran var lögð fram árið 2011 en meint brot átti sér stað í sumarbústað árið 2007. Við tók langt ferli sem endaði með að málið var látið falla niður. Í viðtali við Mannlíf lýsa mæðgurnar baráttunni sem þær hafa háð við kerfið, óréttlætinu við að lögreglumanninum hafi aldrei verið vikið frá störfum og martröðinni sem rættist þegar hann mætti í útkall heim til þeirra. Þess má geta að maðurinn sem um ræðir hefur þrisvar verið kærður fyrir kynferðisbrot en aldrei verið vikið úr starfi, hvorki tímabundið né að fullu.
Halldóra lýsir því í samtali við Mannlíf að hún hafi staðið frammi fyrir því að maðurinn sem dóttir hennar kærði fyrir kynferðisbrot kom að heimili hennar til að taka skýrslu.
„Ég sagði að þessi maður væri alls ekki velkominn í mín hús“
„Það sem mér hefur þótt ólíðandi er að við höfum verið sett í þá stöðu að ef við þyrftum á aðstoð lögreglu að halda þá gætum við átt von á að maðurinn sem við kærðum fyrir að brjóta kynferðislega á dóttur minni kæmi á vettvang. Núna hefur sú martröð ræst. Ég spurði fyrir rælni hvað sá maður héti og þá kom í ljós að þetta var umræddur maður. Ég sagði að þessi maður væri alls ekki velkominn í mín hús og útskýrði ástæðuna fyrir lögreglunni. Eftir skraf og ráðagerðir var hann sendur heim og kallað eftir rannsóknarlögreglumanni úr Reykjavík, sem reyndist okkur afar vel. En eftir situr að hinn mætti á svæðið.“
Ríkislögreglustjóri vísar á ríkissaksóknara
Halldóra segir ríkislögreglustjóra hafa brugðist í þessu máli, þar sem ábyrgðin hafi verið hans að víkja manninum frá störfum á meðan á rannsókninni stóð. Ríkislögreglustjóri hefur gefið hins vegar út yfirlýsingu vegna málsins þar sem ábyrgðinni á málinu er hafnað, þvert á móti hafi embættið leitað til ríkissaksóknara og óskað eftir aðgangi að rannsóknargögnum til að geta í framhaldi tekið ákvörðun um uppsögn lögreglumannsins. Þeirri beiðni hafi verið synjað á grundvelli „heimildarskorts í lögum“, en synjanir á afhendingu gagna í málum sem þessum væri stefnubreyting frá því sem tíðkaðist og rataði málið því þaðan á borð innanríkisráðuneytisins þar sem að ákvörðun þessi hefði fordæmi í öðrum málum. Þá vísaði ríkislögreglustjóri á lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins: „Það er á forræði lögreglustjóra að ákveða um tilfærslu í starfi og við hvaða verkefni lögreglumaður starfar,“ sagði í yfirlýsingunni.
Stundin hafði samband við ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra og bæði núverandi og þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins og leitaði svara á þessu ósamræmi, þar sem samkvæmt þessu virðist óljóst hvar ábyrgðin liggi þegar ákvarðanataka um brottvísan lögreglumanna er annars vegar. Thelma Cl. Þórðardóttir, fjölmiðlafulltrúi ríkislögreglustjóra, segir að til að leysa embættismann frá embætti um stundarsakir þurfi að vera „rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi embættismanns, sem ef sönn reynist, sé það alvarleg að viðkomandi teljist eigi verður eða hæfur að rækja starfann sem embættismaður“. Í þessu máli hefði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu getað fært lögreglumanninn til í starfi, en hann starfaði í sama bæjarfélagi og mæðgurnar bjuggu í.
Þá segir hún að „ekki væri unnt án rannsóknargagna málsins eða nægjanlegra upplýsinga um málsatvik þess að taka svo íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, sem lausn frá embætti um stundarsakir er“. Hins vegar kemur fram í svari Sigríðar J. Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, til Stundarinnar að ríkissaksóknari hafi sent „ríkislögreglustjóra allar upplýsingar um málið vegna fyrirhugaðrar ákvarðanatöku hans um það hvort veita ætti viðkomandi lögreglumanni lausn frá störfum“. Því hafi ekki verið um stefnubreytingu að ræða, líkt og fram kemur í yfirlýsingu ríkislögreglustjóra.
Var ekki færður til í starfi
Rétt er að þó svo að ríkislögreglustjóri hefði ekki getað fengið öll gögn afhent til þess að geta í framhaldi tekið ákvörðum um brottreksturs hins ákærða úr starfi, tímabundið eða að fullu, var lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins heimilt að færa þann ákærða til í starfi á meðan rannsókn stóð yfir, sem hann gerði ekki. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir þessu máli hafa verið lokið fyrir sína tíð, hún geti ekki svarað fyrir þær ákvarðanir sem teknar voru af forvera sínum og hvers vegna maður sem í þrígang hafi verið kærður fyrir kynferðisbrot hafi aldrei verið vikið úr starfi eða færður til. Hún segir lögregluna ekki búa yfir neinum gagnabanka um hvaða lögreglumaður sé kallaður í hús og hvenær, og þá geti lögreglan ekki séð neins staðar fyrri sögu um hvort að lögreglumaðurinn hafi verið kærður áður. Samkvæmt því mætti ætla að svipaðar eða sömu aðstæður gætu komið upp aftur, en aðspurð út í þetta segir Thelma Cl. Þórðardóttir að í LÖKE séu haldin skrá um öll kærumál.
„Þetta er algjörlega forveri minn sem tók þá ákvörðun.“
Sigríður Björk: „Við erum ekki með neinn gagnabanka um það hver er kallaður í hvaða hús og hvenær, annað hvort er maður í vinnu eða ekki. Og þessu máli var lokið fyrir mína tíð.“
Blaðamaður: Þannig að því var lokið og þið gátuð ekkert séð fyrri sögu um að hann hafi verið kærður áður?
Sigríður Björk: „Það allavega væri ekki hægt að sjá neinstaðar.“
Blaðamaður: Og þið getið ekki heldur svarað því hvers vegna lögreglumaður sem hefur í þrígang verið kærður sé enn að störfum?
Sigríður Björk: „Þetta var fyrir 2011, ég var ekki á staðnum. Það þarf að skoða gögnin og reyna að rekja aftur á bak. En á þessari stundu er ég bara ekki með nein svör við því. Þetta er algjörlega forveri minn sem tók þá ákvörðun.“
Ábyrgð ríkislögreglustjóra að vísa frá störfum
Í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn frá Halldóru kemur fram það sé á ábyrgð ríkislögreglustjóra að víkja lögreglumönnum frá störfum, að því er Mannlíf greinir frá. Því er ljóst að ábyrgðin á að taka ákvörðun um brottvísan lögreglumanns meðan rannsókn stóð yfir var hjá ríkislögreglustjóra en ekki ríkissaksóknara eins og fram kom í yfirlýsingu þess fyrrnefnda. Þegar Stundin leitaði svara til Stefáns Eiríksonar, fyrrverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, um hvers vegna lögreglumaðurinn hafi ekki verið færður til meðan rannsókn stóð yfir sagðist hann ekki mega tjá sig um einstök mál og benti á ríkislögreglustjóra, sem vísar til þess að hann hafi skort upplýsingar frá ríkissaksóknara, sem ríkissaksóknari hafnar.
Athugasemdir