Lögreglan á Suðurnesjum handtók fyrir skömmu ökumann bifreiðar sem hafði ekki sinnt tilmælum lögeglu um að stöðva akstur. Eftir eftirför í Reykjanesbæ keyrði lögreglan í hlið bifreiðarinnar til þess að stöðva hana.
Ungt barn var í farþegasæti bifreiðarinnar samkvæmt vitnum sem Stundin hefur rætt við en ekki liggur fyrir hvort barnið hafi slasast við áreksturinn.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar eru tvær lögreglubifreiðar nú staddar við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og er það talið tengjast málinu en lögreglan á Suðurnesjum verst allra fregna og segir von á fréttatilkynningu um málið innan tíðar.
Sömu heimildir herma að um góðkunningja lögreglunnar hafi verið að ræða.
Fréttin verður uppfærð.
Uppfært: 15:50
Fréttatilkynning frá lögreglu vegna málsins:
Lögreglan á Suðurnesjum veitti ökumanni eftirför skömmu eftir hádegi en tilkynning hafði borist um mann akandi bifreið í annarlegu ástandi. Maðurinn var á leið frá Keflavík í átt að Innri-Njarðvík en þar var för hans stöðvuð með því að aka lögreglubifreið í veg fyrir hann. Maðurinn ók langt yfir hámarkshraða í íbúðarhverfi og skapaðist hætta vegna aksturslags hans. Maðurinn var handtekinn vegna málsins. Vitni að þessu atviki eru vinsamlegast beðin um að setja sig í samband við lögreglu í síma 444-2200.
Stundin spurði lögregluna á Suðurnesjum hvort hægt væri að staðfesta að barn hafi verið í bifreiðinni og fékk þessi svör:
Frekari upplýsingar verða ekki gefnar af hálfu lögreglu að svo stöddu.
Athugasemdir