Fyrrverandi lögreglufulltrúi úr fíkniefnadeild, sem hreinsaður hefur verið af ásökunum um óeðlileg samskipti við aðila úr fíkniefnaheiminum, átti nær enga aðkomu að stjórnun og framkvæmd tálbeituaðgerðarinnar við Hótel Frón sem fór út um þúfur í apríl árið 2014. Því hefur þó verið haldið fram í fjölmiðlum að hann hafi stýrt aðgerðinni. Maðurinn var á námskeiði hjá Lögregluskólanum daginn sem aðgerðin fór fram og kom ekki til vinnu fyrr en um það leyti sem henni var að ljúka.
Þann 8. janúar síðastliðinn birtist frétt á Vísi.is um að umræddur lögreglufulltrúi hefði stýrt tálbeituaðgerðinni. Sem kunnugt er hlaut Mirjam van Twuyver, hollensk móðir og „burðardýrið“ í málinu, átta ára fangelsisdóm og íslenskur sendisveinn fjögurra ára dóm en höfuðpaurinn á bak við innflutning fíkniefnanna slapp í ljósi þess að lögregla handtók sendisveininn fyrr en til stóð.
Í skýrslutökum hjá héraðssaksóknara gáfu sex lögreglumenn sömu eða svipaðar skýringar á því hvers vegna þeir töldu aðgerðina hafa mistekist og töldu lögreglufulltrúann ekki hafa haft nein áhrif á gang mála.
Maðurinn var ekki látinn bera vitni fyrir dómi, enda var aðkoma hans að aðgerðinni nær engin. Þá hefur Vísir greint frá því að nafn hans komi ekki fyrir í rannsóknargögnum málsins.
Orðið „go“ misskildist
Samkvæmt upplýsingum sem Stundin hefur aflað leiddu óskýr fyrirmæli og samskiptaleysi, meðal annars vegna vaktaskipta hjá sérsveitamönnum, til þess að sendisveinninn var handtekinn of snemma, áður en hann gat leitt lögregluna að höfuðpaurnum.
Athugasemdir