Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra viðurkenndi á fundi velferðanefndar í morgun að í kjölfar rannsóknar velferðarráðuneytisins á kvörtunum þriggja barnaverndarnefnda á hendur Braga Guðbrandssyni, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu, hefðu verið send tilmæli til aðila málsins um að þeir gættu þess að starfsmenn Barnaverndarstofu og barnaverndarnefnda færu ekki út fyrir sín svið í einstökum málum. Það gerðist þó ekki fyrr en eftir að Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, brýndi fyrir Ásmundi Einari að greina satt og rétt frá.
Í viðtali við Stundina eftir fundinn sagði Halldóra að það væri enn hennar skoðun að ráðherra hefði ekki lagt fram mikilvæg gögn sem lágu fyrir í málinu á fundi nefndarinnar 28. febrúar síðastliðinn og að það væru óásættanleg vinnubrögð.
Ásmundur Einar mætti á opinn fund velferðarnefndar Alþingis nú í morgun og sat fyrir svörum um embættisfærslur sínar í máli Braga Guðbrandssonar en tilefni fundarins var forsíðuumfjöllun Stundarinnar frá því á föstudaginn. Þar var greint frá því að Bragi hefði, í samráði við föður málsaðila í barnaverndarmáli, beitt sér fyrir því að faðir, sem barnaverndarnefnd og meðferðaraðili óttuðust að hefði brotið kynferðislega gegn dætrum sínum, fengi að umgangast þær. Þá kom fram í umfjöllun Stundarinnar að aðstoðarmaður Ásmundar, lögfræðingur og skrifstofustjóri hefðu tekið við gögnum um málið, símtalslýsingu og tölvupóstssamskiptum sem Stundin birti í dag, fyrir hönd ráðherra á fundi þann 31. janúar 2018. Þannig hefði Ásmundi Einari mátt vera kunnugt um eðli afskipta Braga Guðbrandssonar af umræddu barnaverndarmáli áður en hann mætti á fund velferðarnefndar þann 28. febrúar en látið hjá líða að greina nefndarmönnum frá því sem hann vissi.
Svaraði ekki hvort tilmælum hefði verið beint til Braga sjálfs
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, yfirheyrði Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra um málið á fundinum og gekk hart eftir því hvort ráðherra teldi þau afskipti sem Bragi hafði af því máli sem fjallað hefur verið um í Stundinni standast lög og skyldur Braga sem opinbers starfsmanns.
Ásmundur Einar svaraði því einu til að niðurstaða velferðarráðuneytisins hefði verið sú að Bragi hefði ekki brotið af sér í starf. Upptöku af spurningum Halldóru og svörum Ásmundar Einars má sjá hér að ofan og útskrift á samtalinu neðst í fréttinni.
Þá spurði Halldóra ítrekað að því hvort niðurstaða rannsóknar ráðuneytisins hefði orðið tilefni til þess að beina einhverjum tilmælum þaðan til Braga Guðbrandssonar.
Því svaraði Ásmundur Einar ekki fyrr en Halldóra hafði áminnt hann um að segja satt og rétt frá. Þá svaraði Ásmundur því til að tilmælum hefði verið beint til aðila máls að halda sig innan sinna verksviða í störfum. Hann svaraði því þó ekki beint hvort þar hefði verið um Braga sjálfan að ræða.
„Svo þurfum við að skoða það hvort að við eigum að beita okkur fyrir því að tilnefning Braga verði dregin til baka.“
Segir vinnubrögð ráðherra óásættanleg
Stundin ræddi við Halldóru að loknum fundinum og sagði hún að hann hefði að einhverju leyti skýrt málið. „Það er ennþá mitt mat að ráðherra hafi ekki fært fram öll þau gögn sem lágu fyrir í málinu á fundinum 28. febrúar,“ sagði Halldóra.
Spurð hvort það séu þá að hennar mati óásættanleg vinnubrögð og að Ásmundur Einar ætti að víkja úr stóli ráðherra, svo sem Halldóra sagði í frétt Stundarinnar síðastliðinn föstudag, svaraði hún:
„Mér finnast það alla vega óásættanleg vinnubrögð. Ráðherra viðurkenndi það á fundinum að það er til minnisblað, og var minnisblað sem lá fyrir í ráðuneytinu sem niðurstaða ráðuneytisins byggði á. Það voru nákvæmlega þær upplýsingar sem við í nefndinni vorum að biðja um 28. febrúar. Mögulega báðum við rangt um þær upplýsingar, það er stundum sem svona einfaldir hlutir eru flæktir. Það þó átti að vera mjög skýrt að við vorum að biðja um gögn sem sýndu á hverju ráðuneytið byggði formlega niðurstöðu sína í þessu máli. Það var skilningur minn, og annarra nefndarmanna, á þessum fundi með ráðherra að þessi gögn væru hreinlega ekki til. Okkur fannst það mjög furðulegt og það var meðal annars ástæða þess að við sendum út þessa beiðni um upplýsingar frá ráðuneytinu, eftir fund með barnaverndarnefndunum sem í hlut áttu.“
Telur ekki hægt að bjóða Braga fram
Að mati Halldóru gengur ekki að Ísland bjóði Braga fram sem fulltrúa í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna eftir tíðindi síðustu daga. „Nei, það finnst mér engan veginn. Mér finnst ofsalega furðulegt að menn átti sig ekki á því. Þetta mál er algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Að fara að bjóða fram aðila í þetta mikilvæga, alþjóðlega starf sem ekki ríkir traust á og er jafn umdeildur og Bragi er, það myndi mér finnast ótrúlega undarleg niðurstaða.“
Halldóra segist telja að velferðarnefnd og utanríkismálanefnd eigi báðar að taka málið upp en hún segist þó eiga eftir að taka þá umræðu með öðrum nefndarmönnum. Næstu skref séu að funda með Braga og reka á eftir því að leynd verði aflétt af gögnunum. „Svo þurfum við að skoða það hvort að við eigum að beita okkur fyrir því að tilnefning Braga verði dregin til baka.“
Athugasemdir