GRECO, nefnd Evrópuráðsins gegn spillingu, er ekki hlutlaus og faglega skipuð nefnd heldur þvert á móti pólitískt skipuð og ber að líta á störf hennar í því ljósi. Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins en Brynjar sat í Íslandsdeild Evrópuþingráðsþingsins árið 2013. „Svona nefndir eru pólitískt skipaðar og snúast ekki um sérfræðinga og fagfólk,“ segir Brynjar í samtali við Stundina.
GRECO birti nýlega skýrslu um úttekt á spillingarvörnum Íslands á vettvangi æðstu handhafa framkvæmdarvalds og löggæslu. Þar er að finna 18 formlegar ábendingar til stjórnvalda um úrbætur. Meðal annars er bent á að ráðherrar séu tregir til að segja af sér embætti séu þeir staðnir að misgjörðum, að valdhafar sem brjóti reglur þurfi að sæta viðurlögum og að styrkja þurfi lögregluna sem að sama skapi sé of berskjölduð fyrir pólitískum afskiptum.
Pólitík sveipuð skikkju hlutleysis
Brynjar segir að ekki sé skortur á alþjóðlegum stofnunum og samtökum sem kenni sig við mannréttindi og hvers konar góðmennsku og nefnir hann Evrópuráðið og GRECO í því samhengi. „Margir halda að hér sé um að ræða einhverjar hlutlausar nefndir skipuðu fagfólki, sem geti leiðbeint okkur. Það er mikill misskilningur. Þarna er pólitíkin allsráðandi þótt hún sé sveipuð skikkju hlutleysis, fræða og vísinda.“ Brynjar segir jafnframt að nefndir eins og GRECO séu pólitískt skipaðar og umræða um þær verði að taka mið af því. „Evrópuráðið er byggt bara upp eins og venjulegt, pólitískt þing og menn eru kosnir þar inn af þjóðþingunum. Í eðli sínu er það því pólitískt þing þó það fjalli um afmörkuð málefni. Ég starfaði með Evrópuráðinu um nokkurra ára skeið og ég var bara þar starfandi með flokkagrúppu hægri manna. Aðrir voru í sósíalistagrúppum eða grænum grúppum og svo framvegis. Allir þessir aðilar eru að tilnefna í nefndir eins og GRECO, þannig að sú nefnd er pólitísk, alveg eins og þingnefndir hér heima.“
Brynjar gerir einnig athugasemd við það hvernig skýrsla GRECO er unnin. „Það er bara talað við einhverja einstaklinga, sem sjálfir hafa pólitískar skoðanir, og maður sér það alveg á niðurstöðunni. Því velti ég fyrir mér hversu faglega þetta sé unnið, hvernig komast menn að þessari niðurstöðu. Það virkar þannig á mig að það sé bara tekið spjall við fólk og svo sé lýst áhyggjum af því að hlutirnir séu svona og svona á Íslandi. Menn mega ekki misskilja mig samt þannig að það komi ekki oft margar góðar ábendingar úr þessu. Ég er bara að undirstrika að þetta sé ekki hlutlaust eða faglegt heldur er þetta pólitísk vinna. Það þarf að taka skýrslu GRECO með þeim fyrirvara. Það er ekki þar með sagt að þetta geti ekki allt verið rétt. Ég tel samt ekki að svo sé og ég held að menn séu að taka of mikið upp í sig til að geta staðið undir því.“
Segir engin tengsl milli Sjálfstæðisflokks og lögreglu
Spurður hvort að ábending GRECO um óeðlileg tengsl lögreglunnar á Íslandi við einn stjórnmálaflokk, sem augljóslega er Sjálfstæðisflokkurinn, sé ástæðan fyrir því að Brynjar bendi á þetta svarar hann því til að það sé eitt þeirra atriða sem hann telji að GRECO sé úti á túni með.
„Það eru engin tengsl á milli Sjálfstæðisflokksins og lögreglunnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað verið mjög lengi og oft við völd og verður því auðvitað fyrir gagnrýni, eðlilega. Við höfum lengi haldið á dómsmálaráðuneytinu til að mynda,“ segir Brynjar. „Ég hef starfað mjög mikið með lögreglunni alveg frá því ég útskrifaðist úr lagadeild fyrir meira en þremur áratugum en ég hef aldrei orðið var við nein óeðlileg tengsl við Sjálfstæðisflokkinn, hvað þá neina spillingu. Í litlu samfélagi, þar sem fólk er tengt og allir þekkja alla, þá er auðvelt að reyna að búa til einhver óeðlilegt tengsl en þau eru bara ekki til staðar. Mér finnst þetta bara vera píp.“
Athugasemdir