Sumarið 1812 var Napóleon Frakkakeisari herra Evrópu allt frá Miðjarðarhafi til Eystrasalts og frá Atlantshafsströndum Spánar og lengst inn á sléttuna á mótum Póllands, Úkraínu og Rússlands. Allar þjóðir á þessu svæði urðu að sitja og standa eins og Korsíkumanninum þóknaðist. Ekkert benti til annars en þessi yfirstjórn Frakka í Evrópu gæti haldist í langan tíma enn, kannski svo lengi sem Napóleon lifði. Sumir telja meira að segja að ef hann hefði ekki gert nein mistök hefði hann náð að hrista svo vel saman sitt víðlenda yfirráðasvæði að Evrópa hefði farið langleiðina til pólitískrar sameiningar strax um 1830 sem hefði þá til dæmis komið í veg fyrir hrannvíg heimsstyrjaldanna á 20. öld. En það er nú reyndar vafasamt, vaxandi þjóðernisstefna í brjóstum Evrópumanna hefði alltaf gert Frökkum erfitt fyrir að ríkja til lengdar yfir Evrópu.
En veldi Frakka hefði þó að minnsta kosti getað orðið mun langlífara en raun bar vitni ef Napóleon hefði ekki þetta sumar ákveðið að refsa Rússum fyrir það sem hann taldi vera andstöðu við sig. Svo þann 24. júní 1812 réðist hann inn í Rússland með 700.000 manna her og ætlaði að gersigra Rússa í einni stórorrustu af því tagi sem hann kunni manna best að stýra. En allir vita hvernig fór. Rússar fóru undan í flæmingi og þótt Napóleon næði Moskvu náði hann ekki að knésetja rússneska herinn. Þegar grimmur vetur skall á þurfti Napóleon að hörfa og eftir miklar raunir sluppu aðeins 27.000 dáta hans lifandi frá Rússlandi. Leiðtogar undirokaðra Evrópuríkja notuðu tækifærið og slitu sig undan hinu franska helsi. Napóleon safnaði í skyndingu nýjum her en í gríðarlegri fólkorrustu við Leipzig í október 1813 beið hann lægri hlut og tapaði ríki sínu í upphafi næsta árs.
Nærri 200.000 hestar týndu lífi
Öll þessi saga er vel þekkt og orsakir liggja að mestu ljósar fyrir. Napóleon náði einfaldlega ekki að þjálfa hinn nýja og óreynda her sinn nægilega til að hann stæðist Evrópuríkjunum snúning við Leipzig. Er ekki svo? Nei, segja raddir sem hafa rannsakað Napóleonsstríðin frá nýjum sjónarhóli. Það voru ekki hinir ungu dátar sem kostuðu Frakkakeisara sigurinn við Leipzig. Þeir stóðu sig eins vel og kostur var og hefðu vel getað fært Napóleon sigur og ríki hans nýjan þrótt. Það sem Napóleon vantaði hins vegar við Leipzig voru vel þjálfaðir hestar.
Að minnsta kosti 200.000 hestar fylgdu Napóleon til Rússlands. Þetta voru þrautþjálfuð riddaraliðshross sem höfðu verið tamin og tuskuð svo til í mörg herrans ár að þau riðu óhikað gegn öskrandi fallbyssum og blikandi byssustingjum þegar þau voru knúin sporum, létu sig engu varða blóðþef, púðurlykt, ærandi hávaða, dauða og tortímingu allt í kring um sig, heldur hlýddu riddara sínum og báru hann eins og vindurinn í nýja og nýja bardaga og blóðsúthellingar.
Nærri því hver einasti af þessum stríðshestum Napóleons drapst í feigðarförinni til Rússlands. Sumir féllu í skærum við Rússa, aðrir dóu úr kulda, vosbúð og hungri á undanhaldinu hræðilega þegar vetur var skollinn á, margir voru drepnir svo glorsoltnir hermennirnir hefðu eitthvað að éta þar sem þeir stauluðust gegnum jökulkaldan skafrenninginn á sléttunum.
Enginn tími til að þjálfa hestana
Og þótt Napóleon gæti með ofurmannlegu átaki hrist nýtt fótgöngulið fram úr erminni til að segja gegn fallbyssum Evrópuríkjanna við Leipzig þá var enginn tími til að þjálfa nýja hesta fyrir riddarasveitirnar. Í orrustunni í október 1813 var franska riddaraliðið ekki svipur hjá sjón og átti sinn ríka þátt í að keisarinn beið ósigur og glataði ríki sínu.
Athyglin sem örlögum stríðshesta Frakka í Rússlandsförinni hefur verið sýnd að undanförnu er hluti af auknum áhuga á hlutskipti dýra í stríðsbrölti mannanna. Lengst af var það sjálfsagt mál að brúka hesta í stríði. Hesturinn var náttúrlega „þarfasti þjónninn“ og það var talið sjálfsagt að etja þjóninum út í opinn dauðann ef svo bar undir, láta hann flengjast gegn sverðum og byssukúlum í einhverjum átökum um hégóma mannanna sem hesturinn átti engan þátt í. Og oft réðu hestarnir úrslitum. Mongólar og fleiri hirðingjaþjóðir sem lögðust í landvinninga hefðu aldrei komist spönn frá rassi nema vegna þrautpíndra hrossa sinna. En sem betur fer hefur um síðir runnið upp fyrir æ fleiri hvílík svívirða og dýraníð fólst í riddaraliði fyrri tíma.
Mörg dýr önnur en hestar hafa verið notuð í stríði. Í fornöld voru frægastir stríðsfílarnir sem þjóðir á Indlandi, Karþagómenn og fleiri notuðu. Brúkun þeirra sem „skriðdreka“ þeirra tíma var að vísu erfiðleikum háð því fílarnir voru aldrei jafn leiðitamir og stríðshrossin. Þeir vildu hlaupa út undan sér og ærast þegar á þeim stóð skæðadrífa af örvum og skyldi engan undra. En hlutverk fílanna var reyndar oftar en ekki fyrst og fremst að hræða riddaralið óvinanna. Jafnvel hinir þrautreyndustu hestar fylltust skelfingu þegar þeir stóðu á vígvelli andspænis reiðum, illa lyktandi og ofsafengnum fíl.
Samson og refirnir
Í Dómarabók Biblíunnar er hins vegar að finna nokkuð sérkennilegt dæmi um notkun á dýrum í hernaðarlegum tilgangi. Hetjan Samson stóð þá í ströngu gegn Filisteum, þá segir í 15. kapítula, fjórða og fimmta versi:
„Síðan fór Samson og veiddi þrjú hundruð refi, tók blys, sneri hölunum saman og batt eitt blys millum hverra tveggja hala. Síðan kveikti hann í blysunum og sleppti því næst refunum inn á kornakra Filista og brenndi þannig bæði kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða.“
Þessi „tækni“ Samsons virðist hafa verið guði vel þóknanleg, en mun ekki hafa breiðst að ráði út. Hennar er altént ekki getið oftar í Biblíunni. Forvitnilegt væri að vita hvort þessi saga eigi sér einhverja stoð í raunveruleikanum eða hvort þetta var eintómur tilbúningur Biblíuhöfundarins. Hann virðist að minnsta kosti ekki einn um að hafa slíka eða svipaða hugmynd. Í indverskum texta frá því á 3. öld fyrir Krist er lýst hugmyndum um að festa logandi hluti við bæði ketti og fugla og í kínverskum herfræðiritum frá 10. og 11. öld eftir Krist er því lýst hvernig nota megi fugla til að hrella óvini. Ekki skorti hugkvæmnina því koma átti örlítilli glóð fyrir innan í apríkósusteini sem síðan átti að festa við fætur spörfugla og vona síðan að þeir flygu af sjálfsdáðum inn í korngeymslur fjandmannanna og kveiktu í þeim.
Í Rússasögum, annál sem skrifaður var í Rússlandi um svipað leyti (og til er á íslensku í þýðingu Árna Bergmanns), er lýst harla svipuðum aðferðum. Þar hyggst stórhertogaynjan Olga hefna sín á ættbálki Drevljana sem höfðu drepið eiginmann hennar.
Olga beitir logandi dúfum
„Olga krafðist þess að fá þrjár dúfur og þrjá spörva frá hverju heimili [í borg Drevljana]. Þegar þeim hafði verið safnað saman afhenti Olga hverjum hermanni í her sínum einn fugl og skipaði þeim að festa með spotta við hvern fugl svolítið af brennisteini í litlum taupoka. Þegar kvöldaði bað Olga hermenn sína að sleppa dúfunum og spörvunum. Fuglarnir flugu þá til hreiðra sinna, dúfurnar í dúfnahús sín og spörvarnir undir þakskeggin. Þannig kviknaði í [öllum húsum Drevljana]. Ekki eitt hús slapp óbrunnið og ómögulegt var að slökkva eldana því í öllum húsunum kviknaði samtímis.“
Undir lok miðalda varð mikil þróun í púðurgerð og íkveikjubúnaði alls konar. Kínverjar sáu þá í hendi sér að á spörfugla með glóðarkorn í apríkósusteini var ekki endilega gott að treysta og þá er lýst í kínverski kennslubók „gervifugli“ knúinn flugeldum sem senda mætti í herbúðir óvina. Þarna er auðvitað bara umað ræða það sem nú heitir skammdræg eldflaug. En í Evrópu voru menn skemmra á veg komnir og héldu áfram að smíða hugmyndir um að brúka blessuð dýrin til svona verka. Franz Helm hét maður, fæddur í Köln um 1500. Hann þjónaði í stórskotaliði Karls V keisara Germanska veldisins gegn Tyrkjum og var síðar í liði hertoga í Bæjaralandi. Helm skrifaði svokallaða „Eldbók“ þar sem hann fjallaði um alls konar íkveikju- og sprengitækni og birti myndir af fjölmörgum sprengjum og sprengikúlum af öllum stærðum og gerðum. Í sumum tilfellum var hann að endurrita eldri fróðleik um þetta eldfima efni en annað var hans eigin hugarsmíð.
„Hvernig skal kveikja í kastala“
Og meðal þeirra „tækja“ sem Helm lýsir í bókinni eru „eldflaugakötturinn“ og „eldfuglinn“ sem sjá má á stóru myndinni sem fylgir þessari grein. Þetta birtist í kafla sem ber heitið: „Hvernig skal kveikja í kastala eða borg sem þú getur ekki sigrast á öðruvísi.“ Þar segir um „eldflaugaköttinn“:
„Búðu til lítinn poka eins og á eld-ör … Ef þú vilt komast að bæ eða kastala reyndu þá að útvega þér kött frá þessum stað. Festu nú pokann við bakið á kettinum, kveiktu í honum, láttu hann skíðloga og slepptu síðan kettinum svo hann hleypur í næsta kastala eða bæ og í skelfingu sinni reynir að fela sig og endi hann til dæmis í hlöðu þá mun kvikna í hey eða hálmi.“
Þessi fræði Helms birtust í nokkrum útgáfum bókar hans en ekki er vitað hvort hann reyndi einhvern tíma að framkvæma hugmyndir sínar. Óneitanlega virðist hugmyndin afspyrnu vond því burtséð frá siðfræðispurningum, þá virðist einkar heimskulegt að ætla að treysta á að svo óútreiknanleg dýr sem kettir eru hlaupi á einhvern ákveðinn stað. Miklu líklegra hefði verið að eldflaugakötturinn kveikti í herbúðum umsátursliðs en hlypi inn í kastala til að kveikja þar í. Enginn mun eldflaugaköttur alla vega hafa komið við sögu í raunverulegu stríði.
„Sjálfsmorðshundar“
Hins vegar er enginn vafi á að Rauði herinn sovéski tók hunda í þjónustu sína í svipuðum tilgangi. Hundunum var ætlað að bera tímasprengju á bakinu og hlaupa með hana undir skriðdreka óvinanna, losa hana þar og stökkva svo burt áður en sprengjan sprakk og eyðilagði drekann. Kveikibúnaðurinn reyndist brogaður og því var ákveðið að hafa einfaldlega pinna á sprengjunni sem ætlað var að reka upp undir skriðdrekann þegar hundurinn var kominn undir hann. Þá sprakk sprengjan með hundi og öllu saman. Þetta voru því eins konar sjálfsmorðshundar, þótt það hugtak sé auðvitað rangt, því hundarnir höfðu ekkert val í þessu efni.
Þjálfun sprengjuhunda hófst 1924. Hundunum var kennt að matur leyndist undir skriðdrekum, jafnvel á ferð, og því lærðu þeir að skjótast þangað til að seðja hungur sitt. Sprengjuhundarnir voru svo teknir í notkun eftir að Þjóðverjar gerðu innrás í Sovétríkin 1941. Þeir munu hafa skilað einhverjum árangri í byrjun, því að minnsta kosti lærðu Þjóðverjar fljótt að varast hunda í Rússlandi. Þegar þeir lögðu undir sig þorp og bæi var fyrsta verk þeirra að drepa hvern einasta hund sem þeir sáu.
Grundvallarmistök Rauða hersins
En Rauði herinn hætti þó fljótlega að nota sprengjuhundana. Sovétmenn höfðu nefnilega gert grundvallarmistök við þjálfun hundanna. Við þjálfunina notuðu Sovétmenn vitaskuld sína eigin skriðdreka til að kenna hundunum að skríða undir þá. Gallinn var sá að sovéskir skriðdrekar notuðu dísilolíu og hinir þefnæmu hundar lærðu að tengja dísillykt við leitina að matarbita. Þýskir skriðdrekar notuðu hins vegar bensín á sínar vélar og þegar sprengjuhundunum var sleppt í skriðdrekaorrustu hlupu þeir því miklu oftar undir sovésku drekana en þá þýsku og sprengdu þá í loft upp. Þá var notkun hundanna hætt og því skiptu þeir að endingu hvergi nærri jafn miklu máli í síðari heimsstyrjöldinni og stríðshrossin (eða skortur á þeim) höfðu gert í lokaatlögunni að Napóleon.
Þótt ótrúlegt megi virðast var þjálfun slíkra sprengjuhunda þó haldið áfram í Sovétríkjunum og síðan Rússlandi allt til 1996.
Athugasemdir