Create Festival – Wadada Leo Smith
Hvar? Mengi
Hvenær? 13. og 14. apríl
Aðgangseyrir 3.500 krónur á hvorn viðburð
Jazztónlistarmaðurinn og trompetleikarinn Wadada Leo Smith sækir nú Ísland heim eins og hann hefur margsinnis gert áður, nú með CREATE tónlistarhátíðina í farteskinu. Hún stendur yfir í Mengi í tvo daga, er tileinkuð tónsmíðum Wadada og flutningi þeirra. Samhliða hátíðinni gefur Mengi út íslenska þýðingu Árna Óskarssonar af Notes: (8 pieces). A Source for Creative Music, bók Wadada sem kom fyrst út árið 1973. Meðan á hátíðinni stendur munu myndræn tónverk listamannsins prýða veggi Mengis.

Útgáfutónleikar Prins Póló
Hvar? Iðnó
Hvenær? 27. apríl
Aðgangseyrir 3.500 krónur
Boðuð er nístandi angurværð og hoppandi stuð á útgáfutónleikum Þriðja kryddsins, en svo nefnist þriðja breiðskífa Prins Póló sem kemur út 27. apríl. Honum til halds og trausts á útgáfutónleikunum verður Árni+1 úr FM Belfast og verða gömul lög leikin í bland við þau nýju. Forsala á tónleikana er á tix.is.

Tvær goðsagnir – Kona og sögur af landi
Hvar? Eldborg
Hvenær? 18. apríl
Aðgangseyrir 4.990–9.990
Síðasta vetrardag mætir Bubbi í Eldborg og flytur í heild tvær af sólóplötum sínum, Konu og Sögur af landi. Mun hann ásamt hljómsveit flytja öll lögin af plötunum í upprunalegum útgáfum. Mörg af þekktustu lögum Bubba er að finna á plötunum tveimur, svo sem Rómeó og Júlía, Talað við gluggann og Stúlkan sem starir á hafið.
Poppóperan Vakúm
Hvar? Tjarnarbíó
Hvenær? Frá 12. apríl
Aðgangseyrir 2.900–3.900

Samband og möguleikar tónlistar og danslistar eru í fyrirrúmi í poppóperunni Vakúm, eftir Melkorku Sigríði Magnúsdóttur. Í tómi örsamfélagsins Vakúms standa fimm söngvarar og dansarar á sviði og takast á við það verkefni að skapa eitthvað úr engu; regla verður að óreiðu, samhverf og ósamhverf mynstur verða til, þögnin fæðir af sér söng.

Fólk, staðir og hlutir
Hvar? Borgarleikhúsið
Hvenær? 13. apríl – frumsýning
Aðgangseyrir 6.250
Vesturport og Borgarleikhúsið, í samstarfi við Þjóðleikhúsið í Osló, sameina aftur krafta sína í verkinu Fólk, staðir og hlutir eftir breska leikskáldið Duncan Macmillan. Verkið fjallar um leikkonuna Emmu, alkóhólista og lyfjafíkil sem eftir hneykslanlegt atvik á leiksviðinu fellst loks á að fara í afvötnun á meðferðarstofnun. Fíkillinn er meistari í lygum og áhorfandanum er kippt með inn í ferðalag þar sem engin leið er að átta sig á hvað er satt og hvað logið.

Börnin og bækurnar þeirra
Hvar? Borgarbókasafnið – Menningarhús Kringlunni
Hvenær? 17.–22. apríl
Aðgangseyrir Enginn
Í sýningunni Börnin og bækurnar þeirra má sjá börnin í frístundaheimilinu Eldflauginni með uppáhaldsbækurnar sínar. Börnin komu með sína uppáhaldsbók á safnið, völdu úr henni sitt uppáhaldsatriði sem þau síðan teiknuðu. Þá voru þau mynduð af ljósmyndaranum Adam Dariusz Topolski með uppáhaldsbókina sína.

Alþjóðasamvinna á krossgötum
Hvar? Norræna húsið
Hvenær? 18. apríl
Aðgangseyrir enginn
Helstu áskoranir Íslands í breyttu öryggisumhverfi, þjóðernishyggja, áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum og alþjóðastjórnmál verður á meðal umfjöllunarefna á ráðstefnu Norðurlandanna í fókus og utanríkisráðuneytisins.

Sirkussýning og smiðja
Hvar Ráðhús Reykjavíkur
Hvenær 21. apríl
Aðgangseyrir Fullorðnir fá frítt í fylgd með börnum
Meðlimir í Sirkús Íslands og Æskusirkúsnum sameinast um að sýna listir sínar í Tjarnarsal Ráðhússins. Þegar þau hafa lokið sinni sýningu fá viðstödd börn að spreyta og læra helstu trikkin.
Athugasemdir