Ég eins og svo margir aðrir í mínum vinahóp, þekkti Hauk Hilmarsson. Ég eins og svo margir aðrir hef verið í sjokki yfir verkleysi og geturleysi yfirvalda til að komast að hinu sanna um það hvort að Haukur sé lífs eða liðinn. Getuleysið til að fá það að fullu staðfest hvort um andlát hans sé að ræða og þá kröfu um að fá líkamsleifar hans heim. Getuleysið um að fá fyrir því sönnun hvort að hann hafi í raun og sann fallið eða hvort að hann sé hugsanlega fangi tyrkneskra yfirvalda og sæti þar hugsanlega pyntingum. Það voru jú tyrkneskir fréttamiðlar sem af einhverjum ástæðum vissu hver hann var og hvaðan hann kom og fluttu af því fréttir. Því standa öll spjót á tyrknesk yfirvöld.
Ég hef fullan skilning á því að svona mál hefur aldrei áður komið á borð utanríkisráðuneytisins. Það kannski útskýrir hve lengi það tók að koma sér til verks og sýna fjölskyldu hans þá virðingu að halda henni upplýstri og jafnvel óska eftir samstarfi við að afla upplýsinga.
En það er engin afsökun!
Ég hef fullan skilning á því að samkvæmt búsáhaldamótmælaskýrslu yfirvalda að margir þar innanbúðar leggja töluverða fæð á Hauk og aðstandendur hans, vini og samherja.
En það er engin afsökun!
Haukur er strákurinn okkar, hann er bróðir, sonur, frændi, vinur og fyrirmynd svo margra, heima og heiman. Haukur var kannski ekki afreksmaður í íþróttum en hann var afreksmaður í réttlætiskennd og siðferði. Ungur maður sem var tilbúinn að fórna öllu fyrir annað fólk án þess að fá nokkurt hrós, klapp eða viðurkenningu á því, allt frá því ég hitti hann fyrst árið 2005.
Það er fjölskylda og vinir Hauks sem hafa komist að nánast öllu sem skiptir máli í rannsókn á hvarfi hans. Það sýnir að borgaraþjónusta okkar er í molum ef íslendingar lenda í vandræðum á erlendri grund og ljóst að við erum bara með utanríkisráðuneyti sem ætti að kallast viðskiptaráðuneyti enda virðist sérþekking á því sem skiptir höfuðmáli í flóknum heimi ekki vera til staðar hjá okkur, né vilji til að efla og laga það.
En það er engin afsökun.
Ég þekki það að eiga nána aðstandendur sem hurfu og þá nagandi óvissu sem þeir sem eftir sitja búa við. Það er lamandi og ótrúlega erfitt að þurfa að glíma við kerfið á sama tíma. Það er ekki í boði að slíkt fái að viðgangast í landi sem er stýrt að flokki sem kennir sig við allt það sem má finna í stefnu VG. Gleymum því ekki að þetta er ríkisstjórn undir forustu friðarsinna og innan þess flokks má finna harðsnúna aðgerðasinna sem hafa leitt vinnu SHA og allskonar bandalög friðarsinna í gegnum árin.
Ef það er einhver vafi á því hvort að Haukur hafi fallið og ef það er einhver von um að hann sé á lífi og einhver áhöld um það að hann sæti pyntingum í Tyrklandi, þá verður utanríkisráðherra og ráðuneyti hans að gera allt sem í þeirra valdi stendur og gott betur til að þrýsta á að fá úr því skorið, þó að það geti kostað yfirvinnu. Þá verður utanríkisráðneytið að nota þau tengsl sem þar er að finna við t.d. Bandaríkin til að skapa þrýsting.
„Ég skora á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands að taka upp símann og hringja í Erdogan“
Ég skora á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands að taka upp símann og hringja í Erdogan og krefjast aðgerða. Ég skora á Guðna Th, forseta lýðveldisins að taka upp símann og hringa í Erdogan og krefjast aðgerða og ef það dugar ekki til að ræða við ríki sem hafa einhverja vikt til að beita sínum diplómatísku leiðum til hins ítrasta til að fá svör.
Þetta er ekki eitthvað sem má gera með hangandi hendi, hver mínúta getur skipt sköpum.
Ég hélt satt best að segja að ríkisstjórn undir forustu friðarsinna og hernaðarandstæðinga myndi með sanni sýna í verki að þeim er ekki sama um hann Hauk, strákinn okkar sem breytti samfélaginu okkar með hugrekki og baráttugneista án þess þó að við vissum endilega af því, enda var hann með flestum fremri í að ætlast aldrei neins fyrir sínar fórnir.
Því má við þetta bæta að það eru Tyrkir sem eru að ráðast inn á yfirráðasvæði Kúrda í Sýrlandi eftir að Kúrdar höfðu bjargað fjölda manns frá ISIS með stuðningi frá t.d. bandaríkjamönnum. Það var Haukur sem stóð við hlið Kúrda til að berjast gegn ISIS og þá var enginn sem frelsaði Raqqa kallaður hryðjuverkamaður né ævintýramaður heldur frelsishetja af flestum hérlendis. Það er verið að ráðast á nákvæmlega sama fólkið og frelsaði Raqqa undan ISIS. Það er ekkert flókið og engin afsökun til aðgerðaleysis.
Athugasemdir