Stjórn Tindastóls segist standa með þolendum og taka ábyrgð sína alvarlega í yfirlýsingu sem birt var á heimasíðu íþróttafélagsins á sunnudag. Á föstudag birti Stundin umfjöllun þar sem rætt var við tólf konur sem lýstu afleiðingum af framgöngu vinsæls knattspyrnumanns hjá félaginu sem var í tvígang kærður fyrir nauðgun. Stúlkurnar sögðust hafa verið dæmdar af samfélaginu, en kærum á hendur manninum var vísað frá.
Forsvarsmenn Tindastóls urðu ekki við ósk Stundarinnar um viðtal fyrir útgáfu blaðsins síðasta föstudag, en Bergmann Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildarinnar hafnaði viðtali með SMS-i. Um leið sagði hann að Tindastóll myndi ekki gefa út nein viðbrögð fyrr en áætlun frá KSÍ eða ÍSÍ væri komin. Aðalstjórn félagsins sendi frá sér yfirlýsingu í gær í kjölfar umfjöllunar Stundarinnar.
„Það er okkar von að umræðan um þetta alvarlega mál hafi þær breytingar í för með sér að þolendur treysti sér frekar til að stíga fram og að þeim sé trúað. Að við sem íþróttafélag stöndum okkur betur.“
„Það er mikilvægt að íþróttahreyfingin í heild sinni hlusti á þessar raddir þolenda og aðstandenda þeirra, læri af þeim og bregðist við af fullum þunga,“ segir í yfirlýsingu stjórnarinnar. „Ábyrgð stjórnenda, formanna, forsvarsmanna og þjálfara er þar mikil. Stjórnendur Ungmennafélagsins Tindastóls vilja því sérstaklega taka fram að félagið stendur með þolendum. Við tökum ábyrgð okkar alvarlega og við tökum málstað þolenda alvarlega. Kynferðislegt ofbeldi, kynferðisleg áreitni, einelti eða annað ofbeldi verður ekki undir neinum kringumstæðum liðið í starfi Ungmennafélagsins Tindastóls.“
Í yfirlýsingunni segir að kynferðislegt ofbeldi, kynferðisleg áreitni, einelti eða annað ofbeldi verði ekki undir neinum kringumstæðum liðið í starfi Ungmennafélagsins Tindastóls. „Það er okkar von að umræðan um þetta alvarlega mál hafi þær breytingar í för með sér að þolendur treysti sér frekar til að stíga fram og að þeim sé trúað. Að við sem íþróttafélag stöndum okkur betur þegar þessi erfiðu mál koma upp. Að við sem samfélag tökum betur á þessum málum. Að þegar við sjáum eitthvað, þá segjum við eitthvað og styðjum þá sem á þurfa að halda. Þær ungu konur sem stigu fram og sögðu sína sögu eiga skilið þakklæti fyrir mikinn styrk. Skömmin er gerandans.“
Stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls sendi frá sér yfirlýsingu í maí 2017 vegna frétta af því að annar leikmaður félagsins, Ragnar Þór Gunnarsson, hlaut dóm fyrir kynferðisbrot gegn stúlku sem var undir lögaldri. Í yfirlýsingunni sagði meðal annars að hann nyti trausts félagsins, sem ætlaði að gera allt til þess að aðstoða hann. Talað var um „mistök sem gerð voru“ og að hann hafi verið að stíga sín fyrstu spor sem fullorðinn einstaklingur, þá 22 ára, og gerst „sekur um dómgreindarbrest“.
Yfirlýsing UMSS tilbúin fyrir útgáfu Stundarinnar
Þá sendi Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) frá sér yfirlýsingu á föstudag eftir útgáfu Stundarinnar, sem samþykkt hafði verið á fundi stjórnarinnar tveimur dögum áður. UMSS er samband íþróttafélaga í Skagafirði og er Tindarstóll eitt aðildarfélaga. Stjórn UMSS ákvað að „lýsa yfir vilja félagsins, sem eins elsta íþrótta- og ungmennasambands landsins, til að eiga samstarf við ÍSÍ, UMFÍ og ráðuneyti íþróttamála um að tryggja sem best ofbeldislausa íþróttaiðkun fyrir alla.“
Í ályktuninni segir að aðalstjórn UMSS fagni þeirri umræðu og viðbrögðum sem #MeToo umræðan hefur leitt af sér og dáist af hugrekki þeirra einstaklinga sem stigið hafa fram fyrir skjöldu til að opinbera svo alvarleg vandamál. Að sama skapi vottar stjórnin öllum þolendum ofbeldis samúð sína.
„Í ljósi þessa verður lagt fyrir 98.Ársþing UMSS til samþykktar, siðareglur, jafnréttisstefna, fræðslu-og forvarnastefna og viðbragsáætlun vegna aga-eða ofbeldisbrota, eineltis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni sem mun ná til allra aðildarfélaga sambandsins,“ segir í yfirlýsingunni. „Með því mun UMSS og aðildarfélög þess ekki einungis marka skýra stefnu gegn kynbundnu-og kynferðisofbeldi heldur draga skýrar línur í hegðunarviðmiðum sem ná til allra þeirra sem að starfinu koma, iðkenda, þjálfara, foreldra, stuðningsmanna og stjórnarmanna. Stjórn UMSS leggur mikla áherslu á að öllum aðildarfélögum verði kynntar þessar reglur, stefnur og áætlun og þeim verði fylgt eftir.“
Athugasemdir