Fjárframlög til stjórnmálaflokka á Alþingi árið 2018 verða 648 milljónir króna, en voru 286 milljónir króna árið 2017. Þetta er hækkun upp á 127 prósent. Fulltrúar sex stjórnmálaflokka fóru fram á hækkunina við vinnslu fjárlagafrumvarpsins og var gengið að óskum þeirra. Flokkur fólksins og Píratar stóðu ekki með að tillögunni.
Alþingi barst sameiginlegt erindi stjórnmálaflokkanna 18. desember síðastliðinn, þar sem farið var fram á hækkunina. Framkvæmdastjórar Framsóknarflokks, Miðflokksins, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Vinstri grænna skrifuðu undir erindið, sem bar yfirskriftina „Nauðsynleg hækkun opinberra framlaga til stjórnmálasamtaka“. Meirihluti fjárlaganefndar, skipaður fulltrúum Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, lagði í kjölfarið fram tillögu þar sem gengið var að öllu leyti að kröfum flokkanna um fjárframlög.
Hæst framlög fá Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn í krafti atkvæðastyrks síns, 166 og 111 milljónir króna hvor flokkur fyrir sig. Flokkar þurfa að hljóta að lágmarki 2,5% atkvæða eða minnst einn mann kjörinn á þing til að eiga rétt til framlaga.
Þar sem þingstyrkur flokka breyttist vegna kosninga síðasta haust hafa töluverðar sveiflur orðið á framlögum til hvers flokks fyrir sig. Vinstri græn, til dæmis, fá 65,1 milljón króna hærra framlag en í fyrra og Samfylkingin 62,5 milljónir. Hástökkvararnir eru þó Sjálfstæðisflokkur, sem fær 81,2 milljón krónum meira en í fyrra, og Miðflokkurinn, sem fær í fyrsta skipti framlag í ár, alls 71,5 milljónir króna. Björt framtíð fékk hins vegar ekki nægan atkvæðafjölda til að eiga rétt á framlagi, en flokkurinn hlaut 20,9 milljónir króna í fyrra.
Athugasemdir