Samtökin ICAN sem berjast fyrir banni við kjarnorkuvopnum fengu nýverið friðarverðlaun Nóbels en barátta samtakanna hefur skilað sér í því að 122 ríki Sameinuðu þjóðanna hafa samþykkt sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum. Í kjölfar viðurkenningarinnar kviknaði von í brjósti margra um að hún myndi hafa jákvæð áhrif á umræðuna um kjarnorkuafvopnun í heiminum, enda höfum við fyrirmyndir um bann við ýmsum vopnum.
Það er góðra gjalda vert að hugsa á heimsvísu en því miður fyrir okkur hér á Íslandi getum við hafið baráttuna á heimavelli. Ísland er nefnilega ekki eitt þeirra 122 landa sem stóðu að samþykkt sáttmálans. Þess í stað tóku íslensk stjórnvöld afstöðu með NATÓ ríkjum undir forystu Bandaríkjanna, hunsuðu undirbúningsviðræðurnar.
„Kjarnorkuvopnum hefur verið beitt, þeim hefur oft næstum því verið beitt og hættan á því að þeim verði beitt hefur sjaldan verið meiri en í dag.“
Á bak við afstöðu Íslands virðist liggja einhverskonar brengluð heimsmynd þar sem gríðarleg kjarnorkuvopnaeign Bandaríkjanna mun stuðla að heimsfriði og vernda okkur. Þetta á sér stað á sama tíma og rökum á borð við „en það myndi enginn nota kjarnorkuvopn“ er beitt til að draga úr því hættuástandi sem tilvist þessara vopna skapar.
Heimurinn sem við búum í er bara ekki svo fullkominn. Kjarnorkuvopnum hefur verið beitt, þeim hefur oft næstum því verið beitt og hættan á því að þeim verði beitt hefur sjaldan verið meiri en í dag.
Á sama tíma og 122 ríki Sameinuðu þjóðanna standa að sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum leggur Bandaríkjaher til að framleidd verði smærri kjarnorkuvopn því að núverandi vopn eru of stór til að Rússum stafi raunveruleg ógn af þeim. Lausnin í nútíma öryggisfræðum er því að „auka fjölbreytni“ kjarnorkuvopna.
Íslensk stjórnvöld standa á tímamótum. Hvort ætla íslensk stjórnvöld að standa að sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum og skipa sér í hóp þjóða sem raunverulega berjast fyrir friði og afvopnum eða halda áfram að fylgja þjóðabandalagi stríðsógna og hörmunga?
Athugasemdir