Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, telur Alþingi hafa sætt ómaklegri gagnrýni vegna embættisfærslna dómsmálaráðherra í Landsréttarmálinu.
Í umræðum undir liðnum fundarstjórn forseta í dag tók hann upp hanskann fyrir fyrrverandi stjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og sagðist telja Alþingi hafa staðfest tillögu dómsmálaráðherra um dómaraefni við Landsrétt í góðri trú.
Guðmundur Andri vitnaði í pistil sem Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður birti nýlega á Kjarnanum. Þar segir Ragnar: „Alþingi brást skyldum sínum með alvarlegum hætti. Það gætti ekki að eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu. Alþingi tempraði ekki vald framkvæmdarvaldsins heldur studdi ólögmætar ákvarðanir.“
Skrif Ragnars ríma vel við niðurstöðu Hæstaréttar í dómum sem kveðnir voru upp 19. desember, en þar kemur skýrt fram að „annmarki var á meðferð Alþingis á tillögu dómsmálaráðherra þar sem ekki var bætt úr annmörkum á málsmeðferð ráðherra þegar málið kom til atkvæðagreiðslu á Alþingi.“
Guðmundur telur Ragnar þó ganga fulllangt í ályktunum sínum. „Vegna þess að ég held að Alþingi hafi veitt dómsmálaráðherra atbeina að ákvörðunum sínum í góðri trú þrátt fyrir allt. Alþingi hafði einfaldlega ekki þær upplýsingar sem það þurfti að hafa í þessu máli til að taka vitlegar ákvarðanir um skipan dómara. Alþingi hafði ekki upplýsingar um þau miklu og eindregnu varnaðarorð sem embættismenn höfðu haft í frammi í þessu máli.“
Hér má sjá helstu upplýsingarnar sem lágu fyrir Alþingi þegar meirihluti þingmanna studdi tillögu dómsmálaráðherra um skipun Landsréttardómara síðasta sumar og felldu tillögu stjórnarandstöðunnar um að málinu yrði vísað aftur til ríkisstjórnar til frekari undirbúnings.
Við þinglega meðferð málsins komu fram ýmis varnaðarorð og gagnrýni á verklag ráðherra frá reyndum lögfræðingum. Einn þeirra, Jóhannes Karl Sveinsson, sagðist hafa fengið áfall við að lesa rökstuðning ráðherra. Í uppsiglingu væri réttarfarshneyksli sem yrði íslensku samfélagi dýrt, ekki aðeins vegna mögulegs bótaréttar umsækjenda heldur einnig vegna þess vantrausts og langvarandi vandamála í réttarkerfinu sem framganga ráðherra kynni að hafa í för með sér.
Flestum sérfræðingum bar saman um að ef ráðherra ákvæði að víkja frá mati dómnefndar bæri henni, lögum samkvæmt, að framkvæma eigin rannsókn á hæfni umsækjenda þannig að enginn vafi léki á því að hæfustu einstaklingarnir væru skipaðir. Við meðferð málsins var vísað sérstaklega til dóms Hæstaréttar í máli nr. 412/2010, frá 14. apríl 2011, þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að við skipun í embætti héraðsdómara hefði þáverandi ráðherra ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína, enda þyrfi til þess að liggja fyrir „fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að þeir umsækjendur sem ráðherra leggur til séu a.m.k. jafnhæfir og þeir sem dómnefndin leggur til“.
Þann 19. desember 2017 staðfesti Hæstiréttur Íslands að þau varnaðarorð sem fram komu við meðferð málsins á þinginu áttu sannarlega rétt á sér: málsmeðferð ráðherra við skipun Landsréttardómara stóðst ekki stjórnsýslulög, enda var rannsókn hennar á hæfni umsækjenda ófullnægjandi. Vísaði Hæstiréttur sérstaklega til dómafordæmisins frá 2011, rétt eins og sérfræðingar í lögum og þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu ítrekað gert í umfjöllun um málið.
Athugasemdir