Sigríður Andersen dómsmálaráðherra heldur því til streitu að störf dómnefndar um mat á hæfni umsækjenda um dómaraembætti hafi ekkert með sjálfstæði dómstóla að gera. Þetta sjónarmið kom fram í viðtali Kveiks við hana sem birtist í heild á RÚV.is í dag.
Áður hefur ráðherra haldið því fram að í ljósi þess að dómnefndin sé sjálfstæð stjórnsýslunefnd hafi hún „ekkert með sjálfstæði dómstóla að gera“ og að „sjálfstæði dómstólanna varð[i] ekki vinnu nefndarinnar“.
Eins og Stundin benti á í ítarlegri umfjöllun þann 5. janúar síðastliðinn ganga þessi sjónarmið í berhögg við álit Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar en jafnframt ríma þau illa við lögskýringargögnin sem liggja að baki þeim lögum sem umrædd dómnefnd starfar eftir. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 15. september 2017 er bent á að löggjöf um tilvist og störf dómnefnda til að meta hæfni umsækjanda um dómaraembætti hafi, allt frá því að ákvæði um slíkar dómnefndir voru fyrst lögfest árið 1989, helgast af því markmiði að „styrkja sjálfstæði dómstólanna og auka traust almennings á því að dómarar séu óháðir handhöfum framkvæmdarvaldsins“. Að sama skapi benti Hæstiréttur Íslands á, þann 19. desember 2017, að reglur um dómnefnd til að meta hæfni umsækjenda um dómarastöður eiga rætur að rekja til lagasetningar sem hafði að markmiði að „styrkja sjálfstæði dómstóla og auka traust almennings á því að dómarar væru óháðir handhöfum framkvæmdavalds“. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga um breytingar á dómstólalögum sem samþykkt voru á Alþingi þann 19. maí 2010 og fólu í sér breytta skipun dómnefndar og aukið vægi hennar, er lögð sérstök áhersla á að „styrkja [þurfi] stöðu og sjálfstæði dómstólanna og tryggja sem best að þeir verði óháðir hinum tveimur þáttum ríkisvaldsins sem þeir hafa eftirlit með“.
Dómsmálaráðherra er þannig ósammála hugmyndum dómstóla og löggjafans um tilgang dómnefndarinnar. „Ef menn ætla að halda þessu fram [því að tilgangur nefndarinnar sé meðal annars sá að styrkja sjálfstæði dómstóla, innskot blaðamanns], þá varpa ég fram eftirfarandi spurningu: Ef þetta varðar sjálfstæði dómstólanna og þetta á að vera svo mikil hæfnisnefnd, hvernig stendur þá á því að það er mikið er lagt upp úr því að hún sé skipuð hagsmunaaðilum?“ sagði Sigríður Andersen í viðtalinu við Kveik.
„Ef þetta snýst bara um faglegheit, af hverju er þá verið að leggja svona mikla áherslu á að hagsmunaaðilar eigi þarna hlut að máli?“
Hún nefndi að þegar staðið hefði til að gera breytingar á samsetningu nefndarinnar árið 2015 hefðu borist gagnrýnar umsagnir frá hagsmunaaðilum.
„Ef þetta snýst bara um faglegheit, af hverju er þá verið að leggja svona mikla áherslu á að hagsmunaaðilar eigi þarna hlut að máli? Hvað sjálfstæði dómstólanna varðar þá er það þannig að það er það tryggt með allt öðrum hætti. Það er tryggt með því að dómararnir eru æviráðnir, þeir eru sjálfstæðir í störfum sínum og það má enginn segja þeim hvernig þeir eiga að dæma til dæmis og þar fram eftir götunum.“
Samkvæmt 11. gr. laga um skipun dómara skipar ráðherra fimm aðalmenn og jafnmarga varamenn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara, landsréttardómara og héraðsdómara. Einn nefndarmanna skal tilnefndur af Hæstarétti og er hann formaður nefndarinnar. Einn nefndarmanna skal tilnefndur af Landsrétti. Dómstólasýslan tilnefnir þriðja nefndarmanninn og skal hann ekki vera starfandi dómari en Lögmannafélags Íslands þann fjórða. Fimmti nefndarmaðurinn er svo kosinn af Alþingi.
Þegar Sigríður Andersen hélt því upphaflega fram þann 4. janúar að umrædd dómnefnd hefði ekkert með sjálfstæði dómstólanna að gera steig formaður Dómarafélags Íslands fram í viðtali, sagðist hafa hrokkið við og ekki trúa því að ráðherra væri raunverulega þessarar skoðunar. Nú liggur skýrt fyrir að ummæli Sigríðar voru ekki sett fram í hugsunarleysi heldur lýsa raunverulegri skoðun dómsmálaráðherra.
Athugasemdir