Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir lykilatriði í umræðum um veiðigjöld og fiskveiðistjórnunarkerfið á Íslandi að þjóðin fái aukna hlutdeild í arðinum af sameiginlegum auðlindum og að byggðunum í landinu blæði ekki.
Í stjórnmálaumræðum á Alþingi rétt í þessu gagnrýndi hann Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að að vera frjálshyggjumaður í orði en tala um leið fyrir því að útgerðarfyrirtækjum væri hlíft við aga markaðarins.
„Með veiðigjöldin þá viljum við fyrst og fremst að þjóðin fái hærri afgjöld af sameiginlegum auðlindum sínum, hvort sem um er að ræða í sjó eða orku eða annað slíkt. Auðvitað getur slíkt kerfi leitt til mikillar samþjöppunar, en það eru líka til aðrar leiðir til að halda uppi byggðum í landinu en að þvinga menn til að standa í útgerð og atvinnuháttum sem í rauninni kannski bera sig ekki lengur,“ sagði Logi og spurði: „Af hverju bjóðum við ekki út eitthvað af þessum kvóta, af hverju tökum við ekki byggðakvótann og látum byggðirnar fá peningana í staðinn fyrir að vera með þetta kerfi sem við erum með í dag og gera þeim kannski kleift að byggja upp á nýjum atvinnuvegum, ferðaþjónustu, nýsköpun og öðru slíku?“
„Aðalatriðið er að byggðunum blæði ekki“
Þá sagði hann ótrúlegt að hlusta á málflutning Óla Björns Kárasonar, „fulltrúa frjálshyggjunnar“, í umræðum um útgerðina. „Á hún að lúta allt öðrum lögmálum, öðrum en verkfræðistofur, rakarastofur eða nuddstofur? Er ekki allt í lagi þótt eitthvað af útgerðarfyrirtækjum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn, þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið? Aðalatriðið er að byggðunum blæði ekki, en ef að háttvirtur þingmaður getur fullvissað mig um að í núverandi kerfi hafi byggðunum ekki blætt, þá skal ég bara biðjast afsökunar.“
Athugasemdir