Ég ætla að segja ykkur sögu af ónefndri konu. Hún var millistjórnandi hjá stóru fjölmiðlafyrirtæki og var gjarnan nokkuð glöð í bragði. Ófeimin við að segja sínar skoðanir og sinnti starfi sínu vel. Almennt átti ég við hana góð samskipti.
Það kom mér því nokkuð á óvart – en samt á einhvern undarlegan hátt ekki – að þegar þessi kona var nefnd á nafn tóku karlmenn í bransanum fyrir vit sér og hristu haus í ákafa með orðum eins og „Guð minn almáttugur, ertu að díla við hana!?“ Samkvæmt flestum karlmönnum var þessi kona með öllu óalandi og óferjandi, „hvílík herfa!“ En þótt ég tæki ekki undir bölbænir þessara karlmanna í garð konunnar þá skildi ég nákvæmlega hvað þeir voru að tala um. Þetta var kona í stjórnunarstöðu, sem var ófeimin og framhleypin. Slíkt er glæpur í heimi karlmanna. Svona konur eiga skilið að um þær sé talað á þennan hátt. Þetta hafði ég heyrt áður og átti eftir að heyra síðar. Oft.
„Hann var dóni. Þessi maður var í guðatölu hjá starfsmönnum fyrirtækisins.“
En eins og ég sagði áðan var þessi kona millistjórnandi. Yfir henni var karl sem hafði á sér orð fyrir að vera ansi ákveðinn. Það vildu ekki margir lenda vitlausum megin við hann. Hann var mislyndur – stundum í góðu skapi, þannig að hann bræddi alla á svipstundu með skemmtilegheitum og meðfæddum sjarma, en stundum í svo vondu skapi að hann yrti ekki á mann á göngunum. Hann hellti sér yfir fólk einn daginn og ætlaðist svo til þess að allt væri gleymt og grafið morguninn eftir. Öll samskipti voru á hans forsendum. Ef hann hringdi í mann heilsaði hann ekki heldur fór beint í efnið. Hann óð inn á skrifstofur hjá fólki án þess að banka. Hann var dóni. Þessi maður var í guðatölu hjá starfsmönnum fyrirtækisins. Hann var svo mikil „týpa“. „Já, við erum nú alltaf perluvinir.“ „Þú þekkir hann ekki eins og ég þekki hann.“ „Hann er nú aldrei með neinn derring við mig,“ sagði fólk, en samt vissu allir um hvern var talað þegar minnst var á durtinn sem allir óttuðust.
Og hvor þeirra var svo fyrri til að fara frá fyrirtækinu? Jú, auðvitað konan. Hún sótti um aðra vinnu og fékk – í umhverfi sem var aðeins vinsamlegra að hennar mati, sagði hún mér seinna.
Ég ætla að segja aðra sögu sem gerðist fyrir mörgum árum. Ég hef verið beðinn um að skemmta hópi manna í veiðihúsi einhvers staðar úti á landi. Ég nenni því ómögulega en set upp nokkuð háa upphæð fyrir viðvikið og hún er samþykkt. Ég læt mig því hafa það og er sóttur seinni partinn á laugardegi.
Þegar í veiðihúsið er komið taka mennirnir á móti mér. Þeir eru allir komnir nokkuð vel í glas. Forystusauðurinn byrjar á því að afhenda mér peninginn sem ég hafði sett upp – í reiðufé. Þetta fannst mér svona heldur óvenjulegt – en svo sem ekki slæmt. Ég finn nánast kæfandi karla-andrúmsloft þarna. Þetta eru allt greinilega nokkuð vel stæðir menn sem eru mættir þarna til að fara á öskrandi fyllirí. Sumir eru flugmenn. Aðrir bankamenn.
Ég kem mér fyrir í eldhúsinu þar sem starfa nokkrir kokkar og ung kona sem starfar við þjónustu. Einhver samskipti eiga sér stað milli hennar og kokkanna. Eitthvert tal um gestina. Flissað yfir því hve „skrautlegir“ þeir séu orðnir. Ég tel mig ekki þurfa að veiða upp neinar frekari sögur um þá. Kringumstæðurnar eru nokkuð skýrar.
Ég vind mér á sviðið og skemmti þessum kófdrukknu flugmönnum. Það gengur þokkalega og ég lýk mér af. Eftir skemmtunina vindur forystusauðurinn sér að mér og kvartar yfir því að ég hafi ekki verið nógu „dirty“. Ég hefði mátt læða nokkrum neðanbeltisbröndurum þarna innan um og saman við. Ég afsakaði mig með því að ég væri lítið í slíku og hann lét gott heita.
Þegar svo ég var að bíða eftir að bílstjórinn færi með mig til baka varð ég vitni að einhverri skæðustu hrinu neðanbeltisbrandara sem ég hef á ævi minni heyrt. Allar konur sem um var talað voru ýmist almannagjár eða eitthvað þaðan af verra og það mætti nú aldeilis gera hitt eða þetta við þær.
Það var svo mörgum árum síðar sem ég hitti þessa þjónustustúlku aftur. Kom á daginn að hún er dóttir manns sem ég þekki vel. Hún var þá orðin ráðsett með börn og buru. Ég spurði hana hvort hún myndi nokkuð eftir þessu kvöldi og það virtist koma á hana. Hún sagði mér að hún hefði einmitt gert sér far um að gleyma þessu sumri í lífi sínu. Ég gat með góðri samvisku sagt það sama. En hjá mér var þetta bara ein kvöldstund. Hjá henni heilt sumar.
Ég á sjö ára gamla dóttur sem byrjaði í skóla fyrir um ári síðan. Fram að því hafði hún notið kærleiksríkra ára í leikskólanum þar sem dekrað var við hana, dálítið eins og henni væri pakkað inn í bómull. En hún situr í mér þessi nagandi tilfinning sem ég var með fyrstu skólavikurnar þegar stelpan mín varð allt í einu hluti af samfélaginu. Það var samt ekki eins og hún væri ekki að pluma sig. Hún átti þegar nokkrar vinkonur sem fylgdu henni úr leikskólanum. En samt var hún komin í frumskóginn þar sem hver og einn þarf að berjast til að verða ekki undir. Það þarf að beita ákveðinni færni til að fóta sig í flóknum samskiptamunstrum og strákarnir eru fyrirferðarmiklir.
„Ég vil að dóttir mín hafi öll sömu tækifæri og ég hafði“
Ég vil ekki að dóttir mín þurfi að sitja undir niðrandi umtali karlmanna í framtíðinni, af því að hún er svona eða hinsegin í fasi eða útliti. Ég vil ekki að dóttir mín þurfi að hætta í vinnunni vegna þess að einhver karldurtur er dónalegur við hana. Ég vil ekki að dóttir mín verði fyrir áreitni af neinu tagi og þurfi að upplifa sumur sem hún vill gleyma.
Ég vil að dóttir mín hafi öll sömu tækifæri og ég hafði þegar ég var að alast upp og njóti allrar þeirrar virðingar sem ég hef notið – verandi hvítur íslenskur karlmaður. Og nú síðustu vikur hef ég verið óvenju bjartsýnn á að sú ósk rætist. Þökk sér þeirri byltingu sem nú er að eiga sér stað.
Athugasemdir