Kosningabaráttan hefur einkennst af óheiðarleika, með flóði af leynilega fjármögnuðum niðurrifsauglýsingum. Kosningarnar voru boðaðar eftir stjórnarslit vegna óheiðarleika. Ríkisstjórnin hafði verið mynduð eftir að önnur brotnaði upp vegna óheiðarleika. Eftir bankahrun, sem kom til að miklu leyti vegna óheiðarleika, var boðað til þjóðfunda, þar sem niðurstaðan var að við myndum byggja nýtt samfélag á heiðarleika.
Óheiðarleikinn sleit síðustu tveimur ríkisstjórnum og handhafar hans hafa ekki gert upp við hann.
Óheiðarleikinn er óstöðugleikinn, en samt erum við ekki að tala um hann.
Óheiðarleikinn er ekki á dagskrá RÚV og það þykir ekki kurteist að tala um hann.
Við eigum bara að einbeita okkur að loforðunum, en hvers virði eru loforð án heiðarleika?
Sigur óheiðarleikans
Óheiðarleikanum fylgir mikið afl. Hann fer sigurför um heiminn. Við héldum að öld upplýsingarinnar væri að hefjast, en öflugasta lýðræðisríki heims er undir æðstu stjórn manns sem allir vita að er óheiðarlegur. Aðferðin til að ná völdum var býsna einföld. Hann byrjaði á því að gera aðhald fjölmiðla óvirkt, með því að sannfæra fólk um að fjölmiðlar væru vandamálið - þeir væru óheiðarlegir og allt frá þeim sem kæmi honum illa væri falsfréttir. Með óheiðarleikanum náði hann að drepa móteitur óheiðarleikans.
Þessi aðferð virkar. Stjórnmálamenn annars staðar hafa lært það.
Stundin greindi nýlega frá upplýsingum sem sýndu að forsætisráðherra landsins hefði sagt almenningi ósatt um aðkomu sína að viðskiptum í aðdraganda hrunsins.
Hér er farið yfir ósannindin í smáatriðum, en í stuttu máli hafði meðal annars farið í fleiri boðsferðir á vegum banka, heldur en hann hafði sagt, hann hafði átt verulegar eignir í Sjóði 9, öfugt við það sem hann fullyrti, hafði selt þær dagana fyrir hrun, og hafði átt beina aðkomu að málefnum og vandamálulm bankans tveimur dögum áður en hann seldi persónuleg hlutabréf sín. Auk þess áttu ættingjar hans í samhliða viðskiptum upp á milljarða.
Róttækur óheiðarleiki
Fólki finnst þetta misjafnlega merkilegt og þar er kjósenda að dæma um mikilvægi heiðarleika og alvarleika tilfellanna.
Viðbrögð forsætisráðherrans voru hins vegar að stilla fjölmiðlinum upp sem óvini sínum og beita óheiðarleika gegn honum.
Tilfelli þess að forsætisráðherra sagði ósatt í ásökunum sínum gegn fjölmiðlinum, fyrir utan aðrar vafasamar ásakanir, eru nefnd hér. Auðvelt er að sannreyna með samanburði á fullyrðingu og fram komnum sönnunum. Í einu tillfeli óheiðarleika tók forsætisráðherra setningu í umfjöllun Stundarinnar úr samhengi og ásakaði Stundina ranglega um villu í fréttaflutningi í færslu á Facebook-síðu sinni. Þegar undirritaður birti setninguna í heild sinni í ummælum undir færslunni og benti á afbökunina faldi forsætisráðherra útskýringuna. Þetta væri sambærilegt við að fjölmiðillinn ásakaði forsætisráðherra ranglega og neitaði að birta málsvörn hans. Það er alfarið siðlaust og róttækt óheiðarlegt.
Í spjallþætti eftir birtingu Stundarinnar á fréttum um viðskipti forsætisráðherra birtist blaðamaður, sem hefur titlað sig fjölmiðlarýni, og gagnrýndi umfjöllunina. Það sem blaðamaðurinn sagði ekki var að hann var á sama tíma að vinna að kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins.
„Þetta er bara „crazy“,“ sagði blaðamaðurinn af Viðskiptablaðinu. „Það er verið að segja tiltekinn söguþráð þarna sem hentar tilteknu sjónarmiði og það er, þú veist, pólitískt. Ef þú vilt kalla það samsæri, þá veistu meira en ég, en gott og vel.“
Hann bætti við að fréttirnar væru ekki fréttir. „Stundin sagði þessa frétt í mars. Hún var bara ekki sorsuð þá. Þannig að þeir endurbirtu hana núna, með sorsum [heimildum]. Upplýsingarnar eru ekkert mikið meiri.“
Óljóst er hvaða frétt var sögð í mars á Stundinni, en augljóst er að nýjar fréttir voru í umfjölluninni.
Dagana eftir var blaðamaðurinn staddur við störf í Valhöll. Hann hafði ekki áður látið þess getið að hann væri starfandi fyrir kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins, á sama tíma og hann skrifaði gagnrýni á þá sem veittu flokknum aðhald. Eftir að Stundin sendi honum formlegar spurningar játaði hann í pistli að vera starfandi fyrir kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins. Þetta er dæmi um að fjölmiðlar, sem eiga að veita valdinu aðhald, fara að veita valdinu stuðning.
Óheiðarleiki ekki fréttnæmur
Gagnrýnin, sem endurómaðist úr röðum flokksmanna og einnig frá blaðamönnum á blaði sem undir ritstjórn fyrrverandi formanns flokksins, var meðal annars að umfjöllunin væri ekki ný.
Hins vegar hafði aldrei komið fram að forsætisráðherra hefði sagt ósatt með þeim hætti sem greint var frá. Í flestum lýðræðisríkjum þykir sjálfgefin frétt ef ráðherra segir ósatt. Það hefur jafnvel verulegar afleiðingar fyrir ráðherrann. Í umfjölluninni komu einnig fram nýjar upplýsingar um að forsætisráðherra hefði losnað við kúlulán með óútskýrðu ferli skömmu fyrir efnahagshrunið. Þar hafði hann ekki þurft að borga 50 milljónir króna, vegna þess að bankinn flutti lánið og veðið yfir á einkahlutafélag í eigu föður hans, sem síðar fór í þrot með meira en fjögurra milljarða króna afskriftum.
Og að forsætisráðherra hefði haft beina aðkomu að stjórnun einkahlutafélags, sem tók þátt í vafasamri viðskiptafléttu - svokallaðri Vafningsfléttu. Forsætisráðherra hafði áður sagt, meðal annars í vitnastúku fyrir dómi, að hann hefði enga aðkomu haft að fléttunni aðra en að veita undirskrift sína, en nýjar upplýsingar sýndu fram á að hann hafði gjarnan verið leiðandi aðili í málefnum félagsins.
Hvers vegna halda meðlimir heils stjórnmálaflokks og jafnvel flokkstengdir blaðamenn því fram að fréttir af ósannindum og hagsmunaárekstri forsætisráðherra séu ekki fréttnæmar?
Stimplun sendiboðans
Ein algengasta vörnin var að breyta fjölmiðlinum, Stundinni, í pólitískan andstæðing, eða óvin.
Ritstjórn Stundarinnar hefur hins vegar engin flokkspólitísk tengsl. Enginn af meðlimum ritstjórnarinnar hefur nokkurn tímann verið virkur í flokksstarfi stjórnmálaflokks. Stundin leggur sig fram um gagnsæi. Þannig er enginn annar fjölmiðill sem birtir hagsmunaskráningu fyrir ritstjóra miðilsins. Stundin er í dreifðu eignarhaldi með reglum sem tryggja að enginn eigandi ræður meiru en 15 prósent atkvæða á hluthafafundum.
Gagnrýnin barst að hluta til frá Morgunblaðinu, sem er undir ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Blaðamaður sem hefur gagnrýnt Stundina harðlega hefur auglýst að hún muni veita kjósendum far á kjörstað til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, og hefur x-D í prófílmyndinni sinni. Fjölmiðillinn sendi sjálfur skilaboð með upphafsstöfum í nafnlausum pistli: „KJÓSUM X-D“.
Í nafnlausum auglýsingum er fréttamaður Ríkisútvarpsins sakaður um „spillingu“, fyrir að segja frétt af því að forsætisráðherra hefði verið metinn „innherji“ af Fjármálaeftirlitinu þegar hann stundaði viðskiptin og að hann hefði notast við netfang Alþingis í samskiptum við bankann sem hann átti regluleg viðskipti með. Hann er sagður spilltur vegna þess að hann hélt ræðu á fundi Samfylkingarinnar, 19 ára gamall, þar sem hann gagnrýndi flokkinn fyrir skort á lýðræði. Spillingin felst líka í því, samkvæmt auglýsingunni, að vera bróðir annars ritstjóra Stundarinnar.
Með því vilja þeir meina að allt sé þetta eins. Tengsl séu tengsl. Að hafa verið viðloðandi flokksstarf 19 ára gamall sé sama og að vera blaðamaður í umræðu að grafa undan trúverðugleika fjölmiðils og afneita fréttagildi augljóslega fréttnæmra umfjallana um formann flokks á sama tíma og starfað er við kosningabaráttu sama flokks.
Óheiðarleikanum er beitt vegna þess að hann virkar, og hann virkar helst í aðhaldsleysi.
Praktískur óheiðarleiki
Forsætisráðherra hefur verið staðinn að óheiðarleika í mikilvægustu málunum í aðdraganda tveggja síðustu alþingiskosninga. Hann lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB 2013, og núlleraði þannig umræður um gjaldmiðilsmál og vaxtamál og svo framvegis, en niðurstaðan var að slíta viðræðunum án umræðu og án þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt samstarfsflokkurinn hefði lofað því sama fyrir kosningar. Í leiðtogaumræðum í gær ákvað hann að nota spurninguna sem hann fékk til að gagnrýna formann Vinstri grænna fyrir aðildarumsókn að Evrópusambandinu árið 2009, þegar Steingrímur J. Sigfússon var formaður, í tilraun til að sýna að þetta sé allt eins. Allir svíki. Heiðarleiki núlleraður.
Fyrir kosningarnar í fyrra tók forsætisráðherra sérstaklega ákvörðun um að birta ekki óþægilega skýrslu um aflandseignir Íslendinga og skaðlega stefnu stjórnvalda í þeim efnum, þótt tilkoma kosninganna hefði átt sér rót í aflandsviðskiptum. Og skýrsla sem sýndi misskiptingaráhrif stærstu efnahagsaðgerðarinnar, leiðréttingarinnar, var tilbúin fyrir kosningar, en birt löngu síðar.
Aðrir, jafnvel meðlimir sama flokks, reyna að öðlast brautargengi með ósannindum sem ýta undir útlendingaótta, eins og þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson gerði með grein sem stal umræðunni og tók tíma að afsanna. Brottvísun heiðarleikans er raunveruleg hætta.
Hengjum sendiboðann
Við bíðum eftir stefnu frá öðrum auðmanni sem varð forsætisráðherra og faldi hagsmuni sína, braut siðareglur þingmanna og ráðherra, og samþykkti enga ábyrgð, en ræðst stöðugt gegn fjölmiðlum, meðal annars fyrir að segja frá því að hann mæti því sem næst aldrei í vinnuna sem hann var kjörinn til. Stefnu á grundvelli meiðyrðalaga, sem hafa verið nýtt af dómstólum til að refsa blaðamönnum - sem í sex skipti á undanförnum árum hafa fengið þá niðurstöðu hjá Mannréttindadómstól Evrópu að íslenska ríkið hafi brotið gegn tjáningarfrelsi þeirra. Við erum í lögbanni. Okkur er bannað að segja fréttir af því sem norskir fjölmiðlar kalla „skandalabanka“, sem fór í þrot meðal annars vegna spilltra viðskiptahátta, jafnvel þótt fréttirnar fjalli um kjörinn fulltrúa.
Ísland er í fréttum í helstu samanburðarlöndum fyrir að vera ekki samanburðarhæft, land þar sem yfirvald bannaði umfjöllun um forsætisráðherrann. Eins og úr öðrum heimi.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ganga svo langt að kalla eftir því að „hengja þessa auvirðulegu rógbera“. Forsætisráðherrann neitar að svara efnislegum spurningum Stundarinnar, en mætir þess í stað í viðtal hjá sjónvarpsmanni sem uppnefnir nafngreindan blaðamann „böðul“ og ritstjórnina „götustráka“ og „pörupilta“.
Óheiðarleikanum er viðhaldið með fælingarmætti refsinga, stöðugum áróðri gegn fjölmiðlafólki og aðhaldsleysi meðvirkra eða kurteisra fjölmiðla, sem kannski vilja bara skiljanlega halda sjálfum sér utan skotlínunnar.
Áróðursaðferðirnar
Áróðursaðferðirnar snúast um að einfalda allt koma öllum í skotgrafirnar. Allir verða eins í stríði, allir gerðir aðilar. Þú ert með eða á móti. Satt verður ósatt og ósatt satt. Því það tekur tíma að skilja sannleikann, og ef aðhald með óheiðarleikanum er ekki til staðar, getur hann orðið þín besta vörn og sókn.
Þessi grein fjallar ekki um Sjálfstæðisflokkinn eða Bjarna Benediktsson. Hún fjallar um eyðileggjandi afl í samfélagi. Hún fjallar um að heiðarleikinn er forsenda þess að allt annað sé í lagi.
Heiðarleiki snýst um framfarir. Hann framkallar traust, óheiðarleiki étur upp traust. Óheiðarleikinn er misnotkun á trausti.
Ástæðan fyrir því að fólk er almennt heiðarlegt er að því er umbunað fyrir það en það mætir neikvæðum afleiðingum fyrir óheiðarleika - þegar hann kemst upp. En þegar fólk kemst upp með óheiðarleika, eða jafnvel hagnast á óheiðarleika, veldur það margfeldisáhrifum óheilinda í samfélaginu. Af hverju ætti fólk að vera heiðarlegt þegar óheiðarleikinn er tækið til að koma þér á toppinn?
Við lögðum af stað með heiðarleika sem leiðarljós, en hann er jafnóðum étinn upp á leiðinni, eins og brauðmolar Hans og Grétu. Við höfum val um að leita skjóls í sælgætishúsi eða horfa raunsætt á hlutina.
Þau samfélög sem leggja áherslu á heiðarleika og afnám spillingar eru þau sem taka farsælastar ákvarðanir, njóta mesta mannauðsins og eru líklegust til að verðskulda traust og fá þannig fjármögnun til að sækja tækifæri.
Fælingarmáttur blekkingar, óstöðugleika og vantrausts er mun meiri hindrun fyrir athafnasemi en skattprósentan eða þær gjafir sem okkur eru gefnar úr okkar eigu.
Á endanum er heiðarleiki stærsta efnahagsmálið og stærsta velferðarmálið. En einhvern veginn hefur tekist, með óheiðarleikann að vopni, að jaðarsetja umræðuna um grundvallaratriði alls hins.
Athugasemdir