Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Kosningar 2017: Björt framtíð eini flokkurinn sem vill ekki laxeldi í opnum sjókvíum

Björt fram­tíð og Vinstri græn­ir eru þeir flokk­ar sem gera minnsta fyr­ir­vara við mat Haf­rann­sókn­ar­stofn­un­ar á banni við lax­eldi á frjó­um eld­islaxi í opn­um sjókví­um í Ísa­fjarð­ar­djúpi. Við­reisn er fylgj­andi lax­eldi í opn­um sjókví­um með fyr­ir­vör­um sem og Sam­fylk­ing­in. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn kýs að svara ekki spurn­ing­um Stund­ar­inn­ar um stefnu sína í lax­eld­is­mál­um.

Kosningar 2017: Björt framtíð eini flokkurinn sem  vill ekki laxeldi í opnum sjókvíum
Bara einn flokkur Einungis einn flokkur á Alþingi tekur skýra og afdráttarlausa afstöðu gegn notkun opinna sjókvía í laxeldi við strendur Íslands. Þetta er Björt framtíð, flokkur sem ólíklegt er að fái kjörna fulltrúa á Alþingi í komandi kosningum. Myndin er tekin við laxeldiskvíar Laxeldis Austfjarða í Berufirði.

Björt framtíð er eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi sem er mótfallinn laxeldi í opnum sjókvíum við Íslandsstrendur. Í staðinn vill flokkurinn að notast verði við lokaðar sjókvíar þar sem það er hægt eða að farið verði í fiskeldi á landi. Í svari frá flokknum segir um þetta: „Björt framtíð er flokkur sem lætur sig umhverfismál varða. Ísland stendur nú á krossgötum í fiskeldismálum og stóraukning fiskeldis á sjó í opnum kvíum er brýnt umhverfismál. Flokkurinn styður uppbyggingu fiskeldis á landi eða í lokuðum kvíum á sjó en er andvígur fiskeldi á sjó í opnum kvíum.“ 

Svör Bjartrar framtíðar koma fram í svörum flokksins við spurningum sem Stundin sendi til allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi um stefnu þeirra í laxeldismálum. Harðar umræður hafa verið í íslensku samfélagi á síðustu árum um réttmæti laxeldis í opnum sjókvíum við strendur landsins. Skoðanir á málinu eru mjög skiptar en mikill stuðningur virðist vera við aukið laxeldi í ýmsum byggðalögum á landsbyggðinni, meðal annars á Vestfjörðum eins og fram kom á nýlegum íbúafundi á Ísafirði. Hafrannsóknarstofnun lagðist fyrr á árinu gegn laxeldi á frjóum eldislaxi í opnum sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. 

„Dregið er sterklega í efa að opnar sjókvíar séu besta mögulega tæknin til að stunda fiskeldi“

Svörin taka lítið tillit til þróunar í öðrum löndum

Laxeldi í opnum sjókvíum við strendur landa telst vera fiskeldisaðferð sem er á nokkru undanhaldi í heiminum. Norðmenn og norsk eldisfyrirtæki vinna nú að því að þróa aðrar aðferðir sem eru ekki eins umhverfisspillandi, líkt og Stundin og aðrir fjölmiðlar á Íslandi hafa fjallað um.

Þá hefur sjókvíaeldi á regnbogasilungi í opnum kvíum verið bannað með dómum í Svíþjóð vegna umhverfisáhrifa þess og sagði meðal annars í einum dóminum fyrr á þessu ári: „Dregið er sterklega í efa að opnar sjókvíar séu besta mögulega tæknin til að stunda fiskeldi: Á sama tíma og það er erfitt að meta umhverfisáhrifin af starfseminni þá má setja spurningarmerki við þá tækni sem notuð er – opnar kvíar sem ekki veitir neinn möguleika á hreinsun á fóðurleifum eða saur – sé besta mögulega tæknin.“

Stjórnmálaflokkarnir á Alþingi Íslands, nema Björt framtíð, hafa hins vegar stefnu í laxeldismálum sem virðist ekki taka mikið tillit til þessarar þróunar í laxeldismálum í heiminum. 

Sjálfstæðisflokkurinn svarar ekki

Eini flokkurinn sem svaraði ekki spurningum Stundarinnar var Sjálfstæðisflokkurinn og því er stefna flokksins í málaflokknum ekki birt með hér. Allir aðrir flokkar á þingi taka ekki eins skýra afstöðu gegn opnum sjókvíum og Björt framtíð. 

Miðað við síðustu skoðanakannanir er Björt framtíð hins vegar á leið út af Alþingi Íslendinga og því kann að vera að skoðanir flokksins á laxeldi hafi engin áhrif á umræðu og lagasetningu um efnið á þingi. 

Allir aðrir flokkar á Alþingi vilja ekki ganga svo langt að segja að þeir séu alfarið „andvígir“ sjókvíaeldi í opnum kvíum. Í þessum skilningi má segja að Björt framtíð sé umhverfisvænsti flokkur Íslands með tilliti til laxeldis í opnum sjókvíum.

Vinstri græn ganga næst lengst

Sá flokkur sem gengur næst lengst í þá átt að draga úr notkun opinna sjókvía í laxeldi eru Vinstri grænir. Í svörum frá þeim flokki segir meðal annars: „VG telur að fullnægjandi stefnumörkun liggi ekki fyrir í málaflokknum á Íslandi en ljóst að sjókvíaeldi þurfi að lúta mjög stífum reglum og að stefnt skuli að því að slíkt eldi byggist í framtíðinni, eins og kostur er, upp í lokuðum eldiskvíum, auknu landeldi og eldi á geldfiski, en miklar framfarir og sóknarfæri eru í slíku eldi og umhverfisvænum eldislausnum.“

Vinstri grænir vilja því ekki leggjast alfarið gegn opnum sjókvíum en telja samt sem áður að eldið eigi að fara fram eins og „kostur er“ í lokuðum eldiskvíuum í sjó, að landeldi verði aukið sem mest auk þess sem ófrjór eldislax verði notaður sem mest. 

Út frá þessu má segja að Vinstri græn séu næst umhverfisvænsti flokkur landsins þegar kemur að mati á stefnu þeirra í laxeldismálum. 

Þetta á þó ekki við um alla þingmenn flokksins þar sem til dæmis Lilja Rafney Magnúsdóttir, Suðureyringur og oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, hefur lýst yfir stuðningi við sjókvíaeldi á Íslandi. „Fiskeldi er ný og blómstrandi atvinnugrein á Vestfjörðum. Aðrir landshlutar hafa margra ára jákvæða reynslu af fiskeldi á landi sem hefur skapað mörg störf, bæði fyrir konur og karla, faglærða og ófaglærða. Á Vestfjörðum sunnan Dýrafjarðar er óheillaþróun síðustu ára að snúast við, fólki fjölgar og fær atvinnu við hæfi,” sagði Lilja Rafney meðal annars í aðsendri grein í dagblaði í fyrrahaust. 

Einstakir þingmenn flokksins virðist því vilja ganga lengra í laxeldinu en stefna flokksins kveður á um.  Vinstri grænir virðast því vera nokkuð klofnir í afstöðu sinni til laxeldis. 

„Það tiltekur þó ekki hvaða áhrif mögulegar mótvægisaðgerðir gætu haft á áhættumatið“

Viðreisn gerir færri fyrirvara

Öfugt við bæði Bjarta framtíð og Vinstri græn nefnir Viðreisn ekki að æskilegt sé að horfið verði frá því eins og kostur er að notast við opnar sjókvíar í laxeldi við Íslandsstrendur. Þá nefnir flokkurinn heldur ekki landeldi sem mögulega umhverfisvænni leið en sjókvíaeldi í opnum kvíum í sjó. 

Flokkurinn hefur einnig breytt nokkuð um skoðun á laxeldi í Ísafjarðardjúpi miðað við þá sýn sem núverandi formaður flokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafði á málinu í sumar þegar áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um laxeldi í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði lá fyrir og ljóst var að stofnunin myndi leggjast gegn laxeldi á frjóum eldislaxi á svæðunum tveimur.

Þá sagði Þorgerður Katrín, sem var sjávarútvegsráðherra á þeim tíma, að vægi skýrslu Hafrannsóknarstofnunar væri „þungt“. Nú kemur hins vegar fram í svari frá Viðreisn að einnig þurfi að líta til hugsanlegra mótvægisaðgerða til að vinna gegn umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á svæðunum: „Nauðsynlegt er að áhættumat Hafrannsóknastofnunar hverju sinni verði útgangspunktur útgefinna leyfa. Ekki eru gerðar athugasemdir við áhættumatið í sjálfu sér, en það tiltekur þó ekki hvaða áhrif mögulegar mótvægisaðgerðir gætu haft á áhættumatið og þá hversu mikið hægt væri að ala án þess að stefna erfðabreytileika nærliggjandi áa eða öðrum umhverfisþáttum í hættu,“ segir í svari Viðreisnar. Viðreisn virðist því hafa breytt um stefnu í málaflokknum að því leytinu til hversu miklu máli niðurstaða Hafrannsóknarstofnunar skiptir. 

Byggðarökin fyrir laxeldi

Þessar skoðanir Viðreisnar á laxeldinu nú ríma nokkuð við það mat sem fram hefur komið í skrifum frambjóðanda flokksins í Norðvesturkjördæmi, Gylfa Ólafssonar, en hann er efstur á lista Viðreisnar í kjördæminu.

Í grein í bæjarblaðinu BB í byrjun október reifaði Gylfi meðal annars hvernig stuðla megi að því að fiskeldi verði stundað í Ísafjarðardjúpi undir fyrirsögninni: „Svona hefjum við fiskeldi í Djúpinu“. Í skrifum sínum gengur Gylfi lengra í málflutningi sínum fyrir laxeldi á Vestfjörðum en til dæmis Þorgerður Katrín hefur gert í sínum málflutningi, meðal annars á íbúafundi um laxeldið á Ísafirði í lok september.

Gylfi sett í grein sinni fram klassísk byggðarök fyrir skoðun sinni á mikilvægi laxeldis fyrir byggð á Ísafirði, Súðavík og Bolungarvík:  „Allt er þetta á endanum gert fyrir íbúana. Að byggðafestan sem fiskeldið ber með sér gagnist byggðunum við Djúp. Að íbúðaverð hækki, fólk máli húsin sín, unga fólkið setjist að með börnin,“ sagði meðal annars í greininni.

Samfylkingin og Píratar taka undir

Samfylkingin og Píratar eru með sömu sýn og Viðreisn á því að taka þurfi tillit til mótvægisaðgerða þegar mat Hafrannsóknarstofnunar á banni við laxeldi með frjóum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi er metið. Hvorki Björt framtíð né Vinstri grænir gera þessa fyrirvara í svörum sínum. 

Um þetta segir Samfylkingin meðal annars: „Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar sem kynnt var í sumar  var ekki gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum, sem eðlilegt hefði verið að gera.“ Þá telja Píratar að „kaldranalegt“ sé að banna allt laxeldi á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. „Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar voru engin byggðarsjónarmið tekin með í reikningin. Píratar eiga erfitt með að vera ósammála mati vísindana. En það er heldur kaldranaleg nálgun að taka fyrir allt laxeldi í Ísafjarðardjúpi,“ segir í svari Pírata þar sem flokkurinn tekur fram að hann hafi ekki myndað sér stefnu í laxeldismálum. 

Spurningar Stundarinnar og svör þeirra stjórnmálaflokka sem svöruðu þeim má sjá hér fyrir neðan. Framsóknarflokkurinn svaraði ekki spurningum Stundarinnar lið fyrir lið eins og hinir stjórnmálaflokkarnir heldur sendi flokkurinn þess í stað almennt svar um stefnu flokksins í laxeldismálum. 

Stærsti flokkurinn svarar ekkiStærsti stjórnmálaflokkur landsins, Sjálfstæðisflokkurinn, svarar ekki spurningum um stefnu sína í laxeldismálum.

Spurningar til allra stjórnmálaflokkanna á Alþingi

1. Hver er stefna þíns flokks í laxeldismálum almennt séð? Er þinn flokkur fylgjandi laxeldi við strendur landsins eða mótfallinn? Rökstutt svar óskast. 

 2. Hver er stefna flokks þíns, eða mat, á mögulegu banni við laxeldi á frjóum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi og í Stöðvarfirði? Þetta var ein af niðurstöðum áhættumats Hafrannsóknarstofnunar sem birt var í sumar. Sjá hlekk hér að neðan. Er flokkur þinn sammála eða ósammála þessu mati Hafrannsóknarstofnunar? Vill flokkur þinn að sjókvíaeldi verði leyft í Ísafjarðardjúpi og í Stöðvarfirði? Rökstutt svar óskast.  http://www.ruv.is/frett/ahaettumat-hafro-hlytur-ad-vega-thungt

3. Hvernig telur flokkur þinn að gjaldtaka af laxeldisfyrirtækjunum eigi að fara fram? Átt er við gjaldtöku vegna notkunar á nátturunni við strendur Íslands, gjöld vegna leyfa fyrir laxeldið og annað í þeim dúr.

4. Ef flokkur þinn er fylgjandi laxeldi í sjókvíum hversu mikið af slíku eldi vill flokkurinn sjá við strendur Íslands? Spurt er um áætlað framleiðslumagn árlega í þúsundum tonna. Rökstutt svar óskast. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar

Viðreisn  

1. „Viðreisn er fylgjandi fiskeldi sem stenst þær kröfur sem taldar eru nauðsynlegar af vísindamönnum til að tryggja öryggi og umhverfisvernd.“ 

2. „Nauðsynlegt er að áhættumat Hafrannsóknastofnunar hverju sinni verði útgangspunktur útgefinna leyfa. Ekki eru gerðar athugasemdir við áhættumatið í sjálfu sér, en það tiltekur þó ekki hvaða áhrif mögulegar mótvægisaðgerðir gætu haft á áhættumatið og þá hversu mikið hægt væri að ala án þess að stefna erfðabreytileika nærliggjandi áa eða öðrum umhverfisþáttum í hættu. Það hlýtur að vera næsta skref, og mikilvægt að stofnunin fái svigrúm og stuðning til að greina þetta.“

3. „Í skýrslu stefnumótunarnefndar sem skilaði af sér í sumar er lagt til krónutölugjald á hvert kíló slátraðs eldisfisks. Slíkt upplegg er skynsamlegt, en skoða þarf sérstaklega hvernig krónutalan er ákvörðuð. Mikilvægt er að nærsvæði fái hlutdeild í tekjum sem hljótast af fiskeldi hliðstætt og nærsvæði fá fasteignagjöld af virkjunum.“ 

4. „Áhættumatið gerir ráð fyrir 71.000 tonnum. Burðarþol fyrir Ísafjarðardjúp var sett 25.000 tonn áður en áhættumatið var sett fram. Að mótvægisaðgerðum virtum ætti að vera hægt að ala 20.000 tonn í Djúpinu. Auk þess var Stöðvarfirði lokað, en þar hafa mótvægisaðgerðir ekki verið greindar heldur. Að þessu virtu ætti laxeldi að geta orðið um 100.000 tonn á ári. Rétt er að vinna út frá þeirri forsendu að á meðan skýrar og greinargóðar upplýsingar skortir skuli umhverfið njóta vafans. Sjálfbærni og vísindaleg ráðgjöf er undirstaða auðlindanýtingar á Íslandi.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna

Vinstri grænir  

1. „Í nýsamþykktri sjávarútvegsstefnu VG á landsfundi 2017 segir: „Í fiskeldi eru miklir vaxtar- og framtíðar möguleikar víða um land. Þeir felast í frekari þróun á umhverfisvænu fiskeldi, eldi sjávardýra og þörungaeldi. Styðja þarf vel við þróunarstarf og rannsóknir og skapa stranga lagaumgjörð og reglur fyrir greinina.

Eldi sjávardýra þarf að koma í kjölfar stefnumótunar og regluverks um framkvæmd slíks. Tryggja þarf rétt sveitarfélaga til að skipuleggja haf- og strandsvæði og efnahags- og samfélagsleg áhrif eldis skulu metin á líkan hátt og áhrif á náttúruna. Stjórnvöld ættu að hvetja til framþróunar og nýsköpunar í eldislausnum sem miða að hámarksnýtingu hliðarafurða, verndun villtra stofna og viðkvæmrar náttúru, ásamt því að hámarka dýravelferð og gæði afurða. Taka skal mið af viðmiðum sjálfbærrar þróunar, vísindalegu mati á áhættu og gera kröfur til fyrirtækja um hverjar þær mótvægisaðgerðir sem nauðsynlegar eru svo að eldi geti verið stundað í sátt við umhverfi og samfélög.

Vernda verður viðkvæma náttúru fyrir áföllum og skaða sem getur hlotist af óábyrgu fiskeldi. Vernda verður villta stofna íslenskra laxfiska og viðkvæma náttúru fyrir erfðablöndun, sjúkdómum, sníkjudýrum og öðrum áföllum sem geta hlotist af því að eldisfiskar sleppi úr haldi eða valdi umhverfi skaða með öðrum hætti. Farsælast til langrar framtíðar er eldi sem helst í hendur við aðra nýtingu, öfluga vöktun, eftirlit og verndun íslenskrar náttúru. Virða þarf rétt náttúrunnar með öllum sínum fjölbreytileika til að þróast áfram á eigin forsendum, byggðum landsins til langtíma hagsbóta.““

2. „VG er á því að varúðarreglu beri að beita í umgengni við náttúrunnar og að hún skuli njóta vafans. Því þarf að horfa sérstaklega til sjónarmiða sem þeirra sem reifuð eru í áhættumati Hafrannsóknarstofnunarinnar.“

3. „Rétt er að horfa til mögulegrar gjaldtöku í auknum mæli af þeim almannagæðum sem lögð eru til grundvallar í fiskeldi. Er þá bæði átt við ferskvatn sem nýtt er við fiskeldið en einnig öll önnur nýting á náttúrunni sem atvinnugreinin byggir á. Ljóst er að á Íslandi er gjaldtaka óveruleg í greininni ef borið er saman við nágrannalöndin.“

4. „VG telur að fullnægjandi stefnumörkun liggi ekki fyrir í málaflokknum á Íslandi en ljóst að sjókvíaeldi þurfi að lúta mjög stífum reglum og að stefnt skuli að því að slíkt eldi byggist í framtíðinni eins og kostur er upp í lokuðum eldiskvíum, auknu landeldi og eldi á geldfiski, en miklar framfarir og sóknarfæri eru í slíku eldi og umhverfisvænum eldislausnum.“ 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

 Samfylkingin

1. „Fiskeldi í kvíum getur treyst atvinnulíf og skapað ný sóknarfæri fyrir sjávarbyggðir. Við erum því fylgjandi uppbyggingu á umhverfisvænu laxeldi sem byggir á vísindum og þekkingu og að greinin hlýti ströngu regulverki.“

2.  „Áhættumat, þar sem tekið hefur verið tillit til allra mótvægisaðgerða, er að okkar mati forsenda leyfa fyrir eldi. Mikilvægt er að skýr niðurstaða liggi fyrir um það áður en ákvörðun er tekin. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar sem kynnt var í sumar  var ekki gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum, sem eðlilegt hefði verið að gera.“

3. „Svæði til laxeldis eru takmörkuð sameiginleg gæði og leyfi til laxeldis eru í raun sérleyfi til nýtingar þeirra, ekki ólíkt og sérleyfi til að nýta hluta fiskveiðiauðlindar eða orkuauðlinda. Því er mikilvægt að fyrirtækin skili auðlindagjaldi og rétt eins og varðandi sjávar- og orkuauðlindir teljum við rétt að hluti þess renni til viðkomandi byggða.“

4.  „Í sjókvíaeldi líkt og öðrum greinum er mun mikilvægara að horfa til verðmætasköpunar en magns. Að okkar mati eru tækifæri til þess hér við land að framleiða og selja vöru sem stenst allar kröfur um sjálfbærni og hreinleika og er laus við sýklalyf. Slík framleiðsla er gjarnan minni að umfangi og með meiri kröfur um öryggi og að eldi sé í takt við aðstæður á hverjum stað. Þar sem aðstæður eru ólíkar, svo sem varðandi strauma og hve hratt svæði hreinsa sig, er erfitt að fastsetja magntölur. Við teljum eðlilegt að hluti tekna ríkisins af laxeldi renni til að styðja við gæðaþróun, þróun öryggismála og markaðssetningu á hreinleika og sjálfbærni. Einnig þarf að horfa til burðarþolsmats fjarða líkt og Hafrannsóknarstofnun hefur þegar gert sums staðar á landinu.“  

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar

 Björt framtíð

1. „Björt framtíð er flokkur sem lætur sig umhverfismál varða. Ísland stendur nú á krossgötum í fiskeldismálum og stóraukning fiskeldis á sjó í opnum kvíum er brýnt umhverfismál. Flokkurinn styður uppbyggingu fiskeldis á landi eða í lokuðum kvíum á sjó en er andvígur fiskeldi á sjó í opnum kvíum. Þróun fiskeldis á sjó er að færast í átt að lokuðum kvíum enda stafar villtum laxi og vistkerfum fjarða mun minni hætta af þeirri tækni. Ísland á að nýta sér tækifærin sem felast í því að vera leiðandi í innleiðingu á nýrri tækni (lokuðum kvíum).“

2. „Mat Hafró bar ekki saman áhættu opinna kvía og lokaðra kvía. Björt framtíð er sammála mati stofnunarinnar að eldi á frjóum laxi í opnum kvíum á þessum svæðum er ekki heppilegt vegna mögulegra neikvæðra umhverfisáhrifa. Björt framtíð er hins vegar fylgjandi því að fiskeldi í lokuðum kvíum verði leyft á umræddum svæðum að því gefnu að aðstæður og tækni leyfi það.“

3. „Svæði við Íslandsstrendur þar sem hægt er að stunda lokað fiskeldi er takmörkuð auðlind. Af því leiðir að setja þarf auðlindagjald á iðnaðinn. Þó þyrfti að gefa iðnaðinum færi á að vaxa, sérstaklega þar sem stofnkostnaður lokaðs fiskeldis er hærri en opins – en rekstrarkostnaður ekki ósvipaður – og því þyrfti að huga að því að gjaldið sé hóflegt í byrjun og svo endurskoðað að ákveðnum tíma liðnum.“

4. „Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar er óhætt að ala 71.000 tonn af frjóum eldislaxi hér við land. Þess ber þó að geta að mat Hafró bar ekki saman áhættu opinna kvía og lokaðra kvía. Því getur verið að hægt sé að hafa fleiri lokaðar kvíar í sumum fjörðum heldur en opnar vegna minni neikvæðra áhrifa lokaðra kvía á umhverfið. Að sama skapi gætu lokaðar kvíar hentað verr á ákveðnum svæðum vegna t.d. ölduhæðar o.fl. og því er erfitt að leggja mat á hvort hægt sé að ala meira eða minna en mat Hafrannsóknarstofnunar. Hins vegar eru svæði við Íslandsstrendur þar sem hægt er að stunda fiskeldi er takmörkuð auðlind og almennt ber að taka það einnig með í reikninginn.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Framsókn

Vöxtur og viðgangur laxeldisins má ekki gerast á kostnað náttúrunnar eða villta íslenska laxastofnsins. Framsókn vill ná sátt um uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á Íslandi. Slík sátt næst aðeins með virku eftirliti og rannsóknum ásamt tryggu regluverki og vísindalegu áhættumati. Beita þarf mótvægisaðgerðum sem lágmarka umhverfisáhrif af eldinu og taka mið af bestu fáanlegu tækni (BAT).

Þórhildur Sunnar Ævarsdóttir, þingmaður Pírata

Píratar

1. „Píratar voru í miðju stefnumótunarferli þegar að boðað var til kosninga. Því höfum við ekki beina stefnu um laxeldi en höfum þó stefnu um mengun hafsins og framsækna loftslagstefnu. Píratar vilja taka varúðarnálgun þegar kemur að laxeldi almennt. Náttúran á alltaf að njóta vafans. Að því sögðu teljum við að hæg uppbygging laxeldis í kringum landið sé mögulegur vaxtasproti en viljum þó að farið verði að með ítrustu varkárni og samliða uppbygginguni verði virkt eftirlit með umhverfisáhrifum af hálfu Hafrannsóknarstofnunar. Við teljum ekki eðlilega nálgun að ætla upp í burðarþol svæða hratt, heldur viljum við gagnreynda nálgun.“

2. „Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar voru engin byggðarsjónarmið tekin með í reikningin. Píratar eiga erfitt með að vera ósammála mati vísindana. En það er heldur kaldranaleg nálgun að taka fyrir allt laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Skýrslan var þó skrifuð út frá þeirri nálgun að heildarmagn eldis ætti að vera um 30 þúsund tonn. Teljum við það full hátt og hratt farið þegar núverandi þorsk- og regnbogaeldi nær ekki einusinni einum tíunda af því. Því teljum við að hægt væri að byrja á mun lægri tölu og skoða afleiðingar í samhliða með virku eftirliti.“

3. „Í stefnu okkar um verndun hafsins kemur fram að auðlindir hafsins, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg eign þjóðarinnar. Því teljum við að leyfi til laxeldis ættu að vera til leigu til hóflegs tíma í senn. Afgjaldið ætti að vera tengt afkastagetu eldisins. Við teljum líka mikilvægt að áfram séu til staðar bankaábyrgðir fyrir mögulegu gjaldþroti aðila í rekstri, svokölluð hreinsunargjöld sem lagt var til að væru felld niður í vinnu starfshópsins um fiskeldi.“

4. „Við teljum óábyrgt að tala um fastar tölur í þúsundum tonna. Við teljum skynsömustu nálgunina að uppbygging verði hæg og gagnreynd. Mikilvægur þáttur er að Hafrannsóknarstofnun fái rými og fjármagn til þess að sinna eftirliti með mun virkari hætti en gert er í dag. Við viljum í stað þess að lofa föstu magni í hverjum flóa og firði fá að vita hvernig reynist að byrja á 20% af burðarþoli og út frá því rannsaka áhrifin sem síðan verða lögð til grundvallar fyrir hægri aukningu. Þannig leyfum við náttúrunni að njóta vafans en jafnframt tökum til hliðsjónar málefni byggða. Við teljum einnig að sveitafélög ættu að spyrja íbúa sína hver afstaða þeirra sé til sjókvíaeldis og taka mið af niðurstöðuni við áframhaldið.“

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Laxeldi

Umdeilt frumvarp matvælaráðherra um lagareldi bíður líklega næsta þings
FréttirLaxeldi

Um­deilt frum­varp mat­væla­ráð­herra um lagar­eldi bíð­ur lík­lega næsta þings

Gísli Rafn Ólafs­son, þing­mað­ur Pírata og vara­formað­ur at­vinnu­vega­nefnd­ar, seg­ir að enn sé ver­ið að ræða við hags­mun­að­ila út af lagar­eld­is­frum­varp­inu. Hann seg­ir lík­legra en ekki að frum­varp­ið bíði næsta þings. Frum­varp­ið er um­deilt og hafa mat­væla­ráð­herr­ar Vinstri grænna ver­ið gagn­rýnd­ir fyr­ir það.
Búið að ráða nýjan mann í starfið hjá MAST eftir innanhúsátök
FréttirLaxeldi

Bú­ið að ráða nýj­an mann í starf­ið hjá MAST eft­ir inn­an­húsátök

Mat­væla­stofn­un hef­ur ákveð­ið að Eg­ill Stein­gríms­son dýra­lækn­ir verði nýr sviðs­stjóri yf­ir með­al ann­ars lax­eldi hjá stofn­un­inni. Átök urðu inn­an­húss hjá stofn­un­inni eft­ir að Þor­leif­ur Ág­ústs­son var ráð­inn í starf­ið en hann hafði með­al ann­ars skrif­að grein­ar þar sem hann lýsti yf­ir stuðn­ingi við sjókvía­eldi sem at­vinnu­grein.
SFS gagnrýnir breytingu á gjafakvóta í laxeldi og talar um hann eins og eign
FréttirLaxeldi

SFS gagn­rýn­ir breyt­ingu á gjafa­kvóta í lax­eldi og tal­ar um hann eins og eign

Sam­tök fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi hafa skil­að gagn­rýnni um­sögn um laga­frum­varp mat­væla­ráð­herra um lagar­eldi. Einn af rauðu þráð­un­um hjá SFS er að rekstr­ar­leyf­in í grein­inni séu eign lax­eld­is­fyr­ir­tækj­anna og að ef breyta eigi hug­mynd­inni um ótíma­bund­in leyfi í frum­varp­inu þurfi að draga úr og milda margt ann­að í því.

Mest lesið

Fyrsta barnið fætt á Seyðisfirði í yfir 30 ár - „Fór allt á besta veg miðað við aðstæður“
1
Fréttir

Fyrsta barn­ið fætt á Seyð­is­firði í yf­ir 30 ár - „Fór allt á besta veg mið­að við að­stæð­ur“

Fyrsta barn­ið í yf­ir þrjá ára­tugi fædd­ist á Seyð­is­firði í dag eft­ir snjó­þunga nótt þar sem Fjarð­ar­heið­in var ófær. Varð­skip­ið Freyja var einnig til taks ef flytja þyrfti móð­ur­ina á Nes­kaups­stað. „Þetta er enn ein áminn­ing­in um ör­ygg­is­leys­ið sem við bú­um við,“ seg­ir ný­bök­uð móð­ir­in.
Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI ævaforn rómversk kveðja
2
Flækjusagan

Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI æva­forn róm­versk kveðja

Hin við­ur­styggi­lega nas­ista­kveðja Elons Musks dag­inn sem Don­ald Trump var sett­ur í embætti hef­ur að von­um vak­ið mikla at­hygli. Kannski ekki síst vegna þess að kveðj­una lét Musk flakka úr ræðu­stól sem var ræki­lega merkt­ur for­seta Banda­ríkj­anna. Hin fasíska til­hneig­ing margra áhang­enda Trumps hef­ur aldrei fyrr birst á jafn aug­ljós­an hátt — enda lét Musk sér ekki nægja að heilsa...
Sigmundur Davíð ver Musk með hæpnum samanburði
3
Greining

Sig­mund­ur Dav­íð ver Musk með hæpn­um sam­an­burði

Á með­an að öfga­menn og nýnas­ist­ar víða um heim upp­lifa vald­efl­ingu og við­ur­kenn­ingu og fagna an­kanna­legri kveðju Elons Musks spyr fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Ís­lands hvort ís­lensk­ir fjöl­miðl­ar ætli í al­vöru að flytja þá fals­frétt að handa­hreyf­ing sem leit út eins og nas­ista­kveðja, frá manni sem veit­ir öfga­full­um sjón­ar­mið­um vængi flesta daga, hafi ver­ið nas­ista­kveðja.
Yfirgangstal með óþægilega hliðstæðu
4
StjórnmálBandaríki Trumps

Yf­ir­gangstal með óþægi­lega hlið­stæðu

Embætt­i­staka Don­alds Trumps vek­ur upp spurn­ing­ar sem við Ís­lend­ing­ar þurf­um að hugsa alla leið, með­al ann­ars í ljósi yf­ir­lýs­inga hans gagn­vart Græn­landi og Kan­ada, seg­ir Frið­jón R. Frið­jóns­son borg­ar­full­trúi. Hann kveðst einnig hafa „óþæg­inda­til­finn­ingu“ gagn­vart því að vellauð­ug­ir tækni­brós­ar hjúfri sig upp að Trump, sem nú fer á ný með fram­kvæmda­vald­ið í lang­vold­ug­asta ríki heims.
Sólveig Anna sendi bréf á móðurfélög Subway og Hard Rock Cafe
6
Fréttir

Sól­veig Anna sendi bréf á móð­ur­fé­lög Su­bway og Hard Rock Ca­fe

Fé­lög­in sem reka Su­bway og Hard Rock Ca­fé á Ís­landi eru að­il­ar að SVEIT, sem Efl­ing seg­ir að stað­ið hafi fyr­ir stofn­un gervistétt­ar­fé­lags til að rýra kjör starfs­manna í veit­inga­geir­an­um. Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir formað­ur fé­lags­ins hef­ur nú skrif­að bréf út til al­þjóð­legra móð­ur­fé­laga þess­ara tveggja veit­inga­staða­keðja og beð­ið þau um að rann­saka starfs­hætti sér­leyf­is­haf­ana hér­lend­is.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Sigurjón sagði hana einfalda en skemmtilega - Enginn mannanna fékk samþykki
3
Fréttir

Sig­ur­jón sagði hana ein­falda en skemmti­lega - Eng­inn mann­anna fékk sam­þykki

Eng­inn þeirra karl­manna sem komu á heim­ili þroska­skertr­ar konu til að hafa kyn­mök við hana var ákærð­ur. Þó hafði eng­inn þeirra feng­ið sam­þykki henn­ar. Sál­fræð­ing­ur seg­ir hana hafa upp­lif­að sjálfs­vígs­hugs­an­ir á þessu tíma­bili. Óút­skýrð­ar taf­ir á lög­reglu­rann­sókn leiddu til mild­un­ar refs­ing­ar yf­ir Sig­ur­jóni Ól­afs­syni, fyrr­ver­andi yf­ir­manni kon­unn­ar.
Það rís úr djúpinu 1: Gríðarlegt vatnsmagn leynist á 660 kílómetra dýpi, og demantar
4
Flækjusagan

Það rís úr djúp­inu 1: Gríð­ar­legt vatns­magn leyn­ist á 660 kíló­metra dýpi, og dem­ant­ar

Fyr­ir fá­ein­um dög­um birti vef­rit­ið Science Al­ert fregn um rann­sókn, sem raun­ar var gerð ár­ið 2022, en hef­ur ekki far­ið hátt fyrr en nú. Hér er frá­sögn Science Al­ert. Rann­sak­að­ur var ör­lít­ill dem­ant­ur sem fund­ist hafði í dem­antanámu í rík­inu Bótsvana í suð­ur­hluta Afr­íku. Hér er sagt frá þeirri rann­sókn í vef­rit­inu Nature.com. Í ljós kom að dem­ant­ur­inn hafði mynd­ast...
Fyrsta barnið fætt á Seyðisfirði í yfir 30 ár - „Fór allt á besta veg miðað við aðstæður“
6
Fréttir

Fyrsta barn­ið fætt á Seyð­is­firði í yf­ir 30 ár - „Fór allt á besta veg mið­að við að­stæð­ur“

Fyrsta barn­ið í yf­ir þrjá ára­tugi fædd­ist á Seyð­is­firði í dag eft­ir snjó­þunga nótt þar sem Fjarð­ar­heið­in var ófær. Varð­skip­ið Freyja var einnig til taks ef flytja þyrfti móð­ur­ina á Nes­kaups­stað. „Þetta er enn ein áminn­ing­in um ör­ygg­is­leys­ið sem við bú­um við,“ seg­ir ný­bök­uð móð­ir­in.

Mest lesið í mánuðinum

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
1
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
2
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
5
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár