Píratar vilja að samþykkt verði breyting á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar fyrir þinglok og tryggt að framvegis þurfi ekki að rjúfa þing og boða til kosninga að nýju til að stjórnarskrárbreytingar taki gildi. Í staðinn verði stjórnarskrárbreytingar bornar undir landsmenn í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Píratar ætla að leggja fram frumvarp um málið í dag og má svo búast við því að greidd verði atkvæði um hvort málið verði sett á dagskrá fyrir þinglok.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar felur tillaga Pírata í sér, að meginefni til, að núgildandi breytingarákvæði stjórnarskrárinnar falli brott og í staðinn komi ákvæði í anda þess sem stjórnlagaráð lagði til árið 2011. Tillaga stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá hlaut yfirgnæfandi stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012.
Fari svo að frumvarp Pírata verði ekki aðeins tekið á dagskrá heldur samþykkt, bæði á þessu þingi og á því næsta, verður breytingum á stjórnarskrá þannig háttað í framtíðinni að Alþingi samþykkir frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá og ber það undir atkvæði allra kosningabærra manna til samþykktar eða synjunar. Sé frumvarpið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu er það svo staðfest af forseta innan tveggja vikna og tekur þá gildi.
Píratar og Samfylkingin hafa talað fyrir breytingu í þessum anda á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar í viðræðum um þinglok undanfarna daga. Sjálfstæðismenn hafa lagst eindregið gegn tillögunni og jafnframt gegn málamiðlunartillögu Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um að sett verði sams konar bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá og var í gildi á tímabilinu 2013 til 2017. Það ákvæði fól í sér að heimilt væri, á afmörkuðu tímabili, að breyta stjórnarskránni án þingrofs ef yfirgnæfandi stuðningur væri við breytingarnar á Alþingi og í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Athugasemdir