Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru óánægðir með að fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar með umboðsmanni Alþingis í síðustu viku hafi ekki verið opinn og sjónvarpað á þingvefnum. Jón Steindór Valdimarsson, sem tók við af Brynjari Níelssyni sem formaður nefndarinnar í síðustu viku, var gagnrýndur af nefndarmanni Sjálfstæðisflokksins undir lok fundar og spurður hvort honum eða meirihluta nefndarinnar hefði verið kunnugt um afstöðu umboðsmanns í málinu fyrirfram.
Sami tónn er í Facebook-færslu Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem spyr: „Hvernig stendur á því að nýr meirihluti í stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd Alþingis kaus að láta þennan fund vera lokaðan fjölmiðlamönnum? Vissu þau hver niðurstaða umboðsmanns Alþingis er í þessu máli?“ Raunin er þó sú að enginn nefndarmaður, hvorki úr Sjálfstæðisflokknum né öðrum þingflokkum, óskaði eftir því að fundurinn yrði opinn almenningi.
Ekki ástæða til frumkvæðisathugunar
Á umræddum fundi, sem haldinn var á fimmtudag, kom fram að umboðsmaður teldi ekki tilefni til að hefja frumkvæðisathugun á embættisfærslum Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra og Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í málinu sem varð til þess að ríkisstjórnin sprakk.
Afstaða umboðsmanns byggir á því að hann sér ekki ástæðu til að ætla annað en að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hafi sagt satt um efni og ástæður samtals síns við Bjarna Benediktsson þegar hún greindi Bjarna frá því að nafn Benedikts Sveinssonar, föður hans, væri að finna í gögnum um uppreist æru kynferðisbrotamannsins Hjalta Sigurjóns Haukssonar. Samskiptin munu hafa átt sér stað 21. júlí, sama dag og ráðuneytisstjóri benti Sigríði á nafn Benedikts Sveinssonar.
Framáfólk í Sjálfstæðisflokknum hefur túlkað afstöðu umboðsmanns sem eins konar heilbrigðisvottorð fyrir verklag ráðherranna í umræddu máli, eða staðfestingu á því að uppþotið vegna Hjaltamálsins og samskipta ráðherra um það, hafi verið „allt tómur misskilningur“ eins og Jón Gunnarsson orðar það með deilingu sinni á frétt um málið.
„Við erum komin fram með þær upplýsingar að það er óþarfi fyrir samfélagið að vera í einhverjum ótta og óöryggi gagnvart því að þarna hafi ráðamenn gert eitthvað rangt. Svo er ekki,“ skrifar Hildur Sverrisdóttir, þingkona og einn af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, af sama tilefni.
„Má reikna með Umboðsmanni Alþingis í Kastljósinu í kvöld eftir fréttir dagsins?“ spyr Njáll Trausti Friðbertsson, annar nefndarmaður flokksins á Facebook.
Ekki tilefni til að véfengja orð Sigríðar Andersen
Sigríður Andersen greindi Bjarna Benediktssyni frá því þann 21. júlí, að eigin sögn, að faðir Bjarna hefði undirritað meðmæli fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson.
Á þeim tíma hafði dómsmálaráðuneytið neitað brotaþolum, fjölmiðlum og almenningi um sams konar upplýsingar undir þeim formerkjum að um viðkvæm trúnaðargögn væri að ræða.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst síðar að þeirri niðurstöðu að upplýsingarnar væru ekki undanþegnar upplýsingarétti almennings, þvert á lagatúlkun ráðuneytisins.
Í bókun sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkti samhljóða á fimmtudag er greint frá þeirri afstöðu umboðsmanns Alþingis, sem fram kom á fundinum, að það kunni að hafa verið „málefnaleg ástæða fyrir því að upplýsa forsætisráðherra um trúnaðargögn úr stjórnsýslumáli sem tengdust aðila nákomnum honum þar sem tilefnið hafi verið að þá hafi verið uppi vangaveltur um að forsætisráðherra hefði komið að afgreiðslu þessa tiltekna máls“.
Fram kom í máli Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, fyrir nefndinni að hann sæi ekki ástæðu til að véfengja þá skýringu dómsmálaráðherra að hún hefði verið að sinna rannsóknarskyldu sinni þegar hún hafði samband við forsætisráðherra, eða þá skýringu að tilgangur samtalsins hafi verið að skoða meinta aðkomu Bjarna að málinu og hvort honum hefði verið kunnugt um meðmæli föður síns. Umboðsmaður Alþingis tók einnig fram á fundinum að það væri ekki hlutverk hans að skipta sér af því hvort Alþingi aðhefðist frekar í málinu.
Athugasemdir