Á Spáni er allt upp í loft. Íbúar Katalóníu vilja sumir fullt sjálfstæði frá valdinu í Madrid, og það hefur verið boðað til atkvæðagreiðslu í héraðinu. Spænska stjórnin bregst við af slíkri hörku að illar minningar kvikna um Francisco Franco og fasista hans sem réðu með harðri hendi á Spáni í tæp 40 ár og reyndust Katalónum einkar þungbærir. En hví vilja Katalónar sjálfstæði? Hverjir eru yfirleitt Katalónar? Eru þeir sérstök þjóð eins og þeir halda fram sjálfir eða bara hvurjir aðrir Spánverjar, þótt tungumálið hafi þróast svolítið ólíkt þeirri kastiljönsku sem við erum vön að kalla „spænsku“?
Til að skilja það sem nú er að gerast er, eins og venjulega, best að byrja á byrjuninni, og byrjunin á þessari sögu, hana má finna á eylandinu Gotlandi í Eystrasalti, nálægt ströndum Svíþjóðar. Eyjan er rúmir 3.000 ferkílómetrar, marflöt og frjósöm og kringum Kristsburð bjó þar fólk sem stundaði að mestu hefðbundinn landbúnað að hætti járnaldarmanna.
Uppruni á Gotlandi?
Uppruni fólksins var ýmislegur. Þar höfðu blandast afkomendur þeirra veiðimanna, sem fylgt höfðu hopandi ísröndinni norður eftir allri Evrópu þegar hlýnaði í álfunni og ísöld lauk fyrir um 10 þúsund árum, og svo fólk sunnan úr Miðjarðarhafslöndum sem fært hafði landbúnað þar norður eftir fyrir 5.000 árum eða svo. Og í blóði Gotlendinga mátti líka finna gen finnskættaðra veiðimanna sem veiddu sel á húðkeipum.
Eyjarskeggjar urðu enda flinkir siglingamenn að þeirra tíma sið og versluðu víða við Eystrasaltið. Og eitt sinn komu gotlenskir kaupmenn af hafi og sögðu sögur af ríkidæmi heilmiklu sem við lýði væri fyrir sunnan sjóinn; þar væri munaður meiri en á hinni flötu eyju þar sem þeir bjuggu. Þá kviknaði forvitni mikil og jafnvel nokkur ágirnd í einum höfðingja Gotlendinga, hann hét Berígur. Hvers vegna hann hugsaði sér til hreyfings er ekki vitað, nema hvað hann smalaði saman hópi Gotlendinga er ákváðu að freista gæfunnar og láta að sér kveða erlendis. Þrjú skip lögðu nú af stað frá Gotlandi, full af herskáu fólki, jafnt körlum sem konum, og lentu brátt á sendinni strönd þar sem fólk var fyrir en leyfði þeim að setjast að. Staðurinn þar sem Gotarnir lentu og bjuggu fyrsta kastið var eftir þeim nefndur og kallaður Gotaskandsan, segir rómverski sagnaritarinn Jordanes sem var af ættum Gota. Norðurlönd voru þá kölluð Skandsa sunnar í álfu, og er þar kominn uppruni orðsins Skandinavía.
Nema hvað Gotaskandsan heitir nú Gdansk og er í Póllandi.
Úthaldslitlir og þola illa hita
Nú tók Berígur sér konungsnafn yfir skipshöfnunum þremur og næstu tvær aldir eða svo jukust Gotar að íþrótt og frægð í hinum nýju heimkynnum sínum. Þeir öttu kappi við svonefndar baltneskar þjóðir sem þá bjuggu víða við sunnan- og austanvert Eystrasalt en sjálfir kallast þeir germanskir. Aðrar germanskar þjóðir voru einnig komnar suður frá Norðurlöndum og má nefna Vandala frá Danmörku sem Gotar áttu gjarnan í erjum og stríði við.
Rómverski sagnaritarinn Tacitus sagði af Gotum í kringum árið 100 eftir Krist og taldi þá herskáa og ofsafengna og gættu þess að blandast ekki öðrum hópum. Augu þeirra væru hvöss og blá, hárið rautt; þeir væru stórvaxnir og kraftalegir og gætu tekið ærlega á en hefðu hins vegar ekki sérlega mikið úthald og ættu afar erfitt að þola hita.
Á þriðju öld eftir Krist fór Gota aftur að langa í ferðalög. Upplausn var þá í Rómaveldi og margir germanskir ættflokkar sóttu þangað suður, um alla álfuna var rót. Gotar tóku sig þá upp frá heimkynnum sínum í norðurhluta Póllands og árið 238 leggja þeir spjótum sínum fyrst gegn Rómverjum þegar þeir réðust á borgina Histia þar sem nú er Ungverjaland.
Næstu áratugi voru þeir víða að herja og árið 251 unnu Gotar undir stjórn Hnífs konungs það fáheyrða afrek að gereyða rómverskum her í miklum slag við Abritus í Búlgaríu. Það sem meira var, Rómarkeisarinn Decius féll í orrustunni og varð þar með fyrstur keisara heimsveldisins til að láta lífið í orrustu við útlenskan óvinaher. Arftaki Deciusar sá sér þann kost vænstan að borga Hnífi og mönnum hans stórfé fyrir að hverfa frá hernaði á rómversku landi, og settust nú Gotar að í sunnanverðri Úkraínu og þar sem nú heitir Moldova.
Var svo kyrrt um hríð nema hvað hundrað árum seinna gerðust Gotar kristnir og undirgengust svokallaða Aríusartrú sem kenndi að Jesúa sem sonur Guðs væri skutulsveinn föðurins en þeir ekki jafngildir eins og kennt var í hefðbundnum rómverskum kristindómi. Um þennan stigsmun á guðdómi Jesúa gátu menn drepið hver annan í hrönnum lengi vel í fornöld.
Gotar hrekjast á hraðan flótta
Nema hvað – undir lok fjórðu aldar eru hinir kristnu afkomendur skipshafnanna þriggja frá Gotlandi orðnir stöndugir og fjölmennir á sínum nýju slóðum, og hafa meira að segja skipst upp í tvo aðskilda hópa sem ekki hafa mikið saman að sælda. Eru þar komnir Vesturgotar, sem kallaðir eru, og Austurgotar. Árið 375 eða þar um bil birtist hins vegar óttaslegin þjóð á austurlandamærum Gota í Úkraínu. Þar voru komnir Alanar, þjóð sem talaði íranskt tungumál og hafði búið norður af Svartahafi austanverðu. Alanar sögðu þá sögu að þeir hefðu hrakist frá heimkynnum sínum undan grimmri innrás villiþjóðar úr Mið-Asíu sem Húnar kölluðust, og eirðu þessir villimenn engu, og báðu Alanar nú um leyfi til að flýja um lönd Gota burt frá þessari ógurlegu hættu. Vissu nú Gotar ekki fyrr til en Húnar komu brunandi á sínum litlu knáu hestum inn á þeirra lendur líka, og með öll vopn á lofti, og þótt Gotar hefðu fyrrum lagt sjálfan Rómarkeisara í orrustu stóðust þeir Húnum engan snúning, og roskinn kóngur Austurgota Jörmundrekur kaus heldur að svipta sig lífi en reyna að verjast Húnum, og segir af því í Eddukvæðum fornum.
Riðlaðist nú ríki Gota á fáeinum áratugum. Austurgotar urðu undirsátar Húna en Vesturgotar og Alanar vildu strax leita hælis hjá Rómverjum á Balkanskaga og er að því mikil saga og flókin. Hér dugar að taka fram að undir stjórn Gotakóngsins Alaríks urðu Vesturgotar og Alanar þvílíkt veldi og svo öflugir að þeir höfðu brátt ráð Rómar í hendi sér og lögðu undir sig Rómaborg árið 410.
Konungsríki á Spáni
Hefði skipshöfnum hinna þriggja skipa Berígs sjálfsagt hlegið hugur í brjósti hefðu þeir vitað að fjórum öldum eftir að þeir ýttu úr vör frá hinu flata Gotlandi skyldu afkomendur þeirra verða fyrstir útlendinga til að leggja undir sig höfuðborg heimsins í 797 ár.
Þrátt fyrir að vera hraustir hermenn sáu Vesturgotar í hendi sér að þeir höfðu ekki úthald til að reyna að halda úti heimsveldi og hurfu því frá Róm með gífurlegt herfang og héldu til suðurhluta Frakklands þar sem þeir settu á stofn konungsríki. Það varð öflugt og ríkt um skeið og teygði sig langt suður á Spán.
Spánverjar höfðu í aldir verið undir rómverskri stjórn, nema Baskar, en skiptust þó í ýmsar þjóðir eftir búsetu og reyndar brá svo undarlega við að þegar Vesturgotar mættu þar til leiks, þá hittu þeir þar fyrir forna keppinauta sína og fjendur frá norðurhluta Póllands, hina germönsku Vandala, sem þangað höfðu hrakist – einnig á flótta undan Húnum. Svo fór þó að Vandalar hurfu aftur á braut og alla leið til Norður-Afríku en Vesturgotar urðu eftir á Spáni og réðu helst norðausturhluta lands.
Urðu Vesturgotar og Alanar svo bandamenn Rómverja þegar hnignandi heimsveldið þurfti sjálft að verjast innrás Húna og árið 451 hrundu rómverski herforinginn Aetius og Vesturgotakóngurinn Þeódórekur I innrás Atla Húnakóngs inn í mitt Frakkland. Þá var svo komið fyrir Gotum að Austurgotar voru í liði Húnakóngs gegn Vesturgotum og börðu frændur hart hverjir á öðrum í þessum þessum slag.
Eftir að Húnar höfðu verið sigraðir kom í ljós að þrek Rómar var endanlega á þrotum og féll heimsveldið í vestri árið 476. Enn ein germönsk þjóð nefndist Frankar og bjó í Belgíu, og undir lok fimmtu aldar náðu þeir Gallíu eða Frakklandi af Vesturgotum, en þeir síðarnefndu héldu löndum sínum á Spáni og náðu að lokum að leggja undir sig allan Pýreneaskagann.
Ekkja síðasta kóngs Vesturgota giftist landstjóra kalífans
Sá var hængur á að Vesturgotar og Alanar voru helstil fámennir og urðu því aldrei annað en yfirstétt í landinu og tóku smátt og smátt upp háttu heimamanna og meira að segja tungumál þeirra. Þeir gerðu sér höfuðborg í Toledo, skammt suður af hinni núverandi Madrid inni í miðju landi. Fjölmennastir voru Vesturgotar og Alanar þó sem fyrr í norðausturhluta Pýreneaskaga, og fóru menn að kalla það svæði Gota-Alaníu.
Var nú kyrrt um sinn, og Vesturgotar lærðu að meta appelsínur og reyndu að þola hitann og rykið í hinu fjöllótta konungdæmi sínu sem hefði vart getað verið ólíkara hinu flata svala Gotlandi. Árið 587 lögðu Gotar á Spáni af sína Aríusartrú og gerðust kaþólskir undir leiðsögn Rekkarðs konungs, sem sýndi að þeir voru orðnir í húsum hæfir í hinni kaþólsku Vestur-Evrópu.
En aldrei gat friður ríkt nema fáeinar aldir í einu, það er mannsins saga, og í byrjun 8. aldar var gerð innrás á Spán úr suðri. Þar voru komnir útsendarar spámannsins Múhameðs og eldmóður þeirra vann skjótan sigur á Vesturgotum. Kannski úthaldsleysi sem Tacitus talaði um hafi loks komið Gotum endanlega í koll. Árið 712 féll Hróðríkur „síðasti konungur Gota“ í orrustu gegn múslimum og þar var til marks um að nýtt fólk var mætt til leiks að ekkja hans Egilóna gekk síðar að eiga Abd al-Aziz ibn Musa, fyrsta landstjóra kalífaveldisins í Damaskus á Spáni.
Þar með hurfu Vesturgotar og Alanar í rauninni úr sögunni. Ferðinni sem Berígur og félagar hans hófu með siglingunni frá Gotlandi var lokið rúmum sjö öldum síðar þegar blóð afkomenda þeirra blandaðist sólbökuðu rykinu á Spáni.
Gotar og Alanar lifa enn – eða hvað?
Og þó. Nafn þeirra og Alana lifir enn í því héraði á Spáni þar sem þeir voru fjölmenntastir og afkomendur þeirra búa ennþá. Því Gota-Alanía ummyndaðist í munni manna yfir Katalóníu, og nú heimta þeir sjálfstæði frá afgangi Spánar.
Þannig fer þegar maður byrjar á byrjuninni. Maður finnur alls staðar þræði sem liggja aftur í forneskju. En því miður er full ástæða til að vara lesendur við. Allt það sem hér hefur farið á undan eru þjóðsögur einar, jú, margt er svo sem stutt rituðum heimildum, en þær geta verið vafasamar líka. Og fræðimenn eru hreint ekki sammála um að Gotar hafi komið frá Gotlandi. Berígur var næstum áreiðanlega ekki til. Það er alveg óvíst að Gotaskandsan er nú Gdansk. Og það er ekki alveg öruggt að nafnið Katalónía sé dregið af Gotum og Alönum. Kannski þýðir það upphaflega „Kastalaborg“ eða eitthvað álíka.
En hvað sem því líður. Kannski verður Katalónía sjálfstæð, hver veit, þótt ekki virðist líkur á því í bili. Það yrði þá líklega mesti sigur Vesturgota síðan á dögum Hnífs konungs og Þeódóreks I!
Athugasemdir