Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúi Pírata, greindi frá því í morgun að hann hefði ekki aðeins verið beittur kynferðisofbeldi heldur hefði hann einnig beitt því sjálfur. Hann segist með þessu vilja sýna hvernig eigi að axla ábyrgð.
„Ég hef valdið þjáningum sjálfur. Það er mögulega ennþá fólk þarna úti sem er í sárum og það er á minni ábyrgð,“ sagði Halldór í Facebook-færslu um málið.
Halldór tekur fram að það væri hins vegar ekki hans að meta hvort hann hefði axlað ábyrgð að fullu með þessu, heldur muni það koma í ljós í kjölfarið hvað hann þarf að gera frekar.
Halldór sagðist hafa ýjað að þessu í viðtali um reynslu sína sem þolandi, en það hefði ekki verið sagt nógu hreint út. Hann væri tilbúinn til þess að gera allt til að binda enda á þjáningar þeirra sem hann meiddi. Hann væri ekki með nöfn þolenda sinna en þeir mættu leita til hans, ef þeir þekktu hann og treystu sér til. „Það má líka auðvitað stíga fram. Það má alltaf stíga fram,“ segir Halldór, sem var á meðal þeirra sem sendu frá sér yfirlýsingu um að karlkyns Píratar styddu átakið sem fór fram undir myllumerkinu #höfumhátt, þar sem þolendur og aðstandendur greindu frá reynslu sinni af kynferðislegu ofbeldi.
Þá sagði Halldór að áfengi væri hræðilegur þjáningavaldur sem eyðir mörkum á milli fólks. Hann væri ekki viss um að hann myndi eftir öllu sem hann hefði gert. „Mín var ábyrgðin að átta mig ekki á áhrifunum sem það hafði á mig og aðra og gera eitthvað í því.“
Áfengi hræðilegur þjáningarvaldur
Færslu Halldórs má sjá hér að neðan:
„Ég mun núna sýna hvernig ábygð er öxluð.
Það er ekki mitt að meta hvort hún hefur með þessu verið öxluð að fullu, það kemur í ljós hvað ég þarf að gera frekar.
Ég er ekki bara kynferðisbrotaþoli heldur er ég líka gerandi. Ég hef ýjað að þessu í viðtali um mína reynslu en ekki sagt það nógu hreint út - ég hef valdið þjáningum sjálfur. Það er mögulega ennþá fólk þarna úti sem er í sárum og það er á minni ábyrgð. Ég er tilbúinn að gera allt sem ég get gert til að binda enda á þær þjáningar. Ég myndi leita til þess sjálfur en ég er ekki með nöfn þeirra. Það má hins vegar leita til mín, þekki það mig og treysti það sér til þess. Það má líka auðvitað stíga fram. Það má alltaf stíga fram.
„Ég er tilbúinn að gera allt sem ég get gert“
Ég man líka örugglega ekki allt sem ég hef gert. Áfengi er hræðilegur þjáningarvaldur og það eyðir mörkunum milli fólks. Ég hefði átt að hætta að drekka fyrir löngu síðan. Mín var ábyrgðin að átta mig á áhrifunum sem það hafði á mig og aðra og gera eitthvað í því. Þessum áhrifum verður ekki stjórnað með því að stjórna aðgengi að áfengi heldur með því að draga fólk til ábyrgðar á drykkjunni.“
Atvik í æsku hafði áhrif
Í viðtali við Pressuna árið 2015 greindi Halldór Auðar frá atviki sem átti sér stað þegar hann var um fjögurra eða fimm ára gamall og eldri piltar króuðu hann af og létu hann bera sig. Hann var með bróður sínum en þótt hann hafi verið hræddur, skelkaður og niðurlægður ræddu þeir atvikið ekki fyrr en mörgum árum síðar. Greindi hann frá því að það hefði haft mikil áhrif á hann að vera sviptur sakleysi sínu á þennan hátt. Hann hefði átt erfitt með að treysta fólki og eiga heilbrigð líkamleg og tilfinningaleg samskipti við annað fólk. Í viðtali við DV greindi hann síðan frá því að tilfinningarnar hefðu kraumað innra með honum og magnast upp í þögnini með þeim afleiðingum að hann glímdi við þunglyndi, félagslega erfiðleika og brenglaða tilfinningu fyrir því hvar mörkin liggja í samskiptum við annað fólk.
Um leið sagðist hann ekki líta á sig sem saklausan brotaþola þar sem hann hefði ekki alltaf virt mörk annarra eftir að hann varð sjálfur fullorðinn maður. „Þá hef ég oftar en ekki verið undir áhrifum áfengis, “ segir hann. „Og ég vil ekki útiloka að atvikið á leikskólalóðinni spili þar inní. Án þess þó að ég ætli að kenna því um. Ábyrgðin er algjörlega mín.“
Þá sagðist hann hafa sterkar skoðanir á kynferðisbrotamálum og meðhöndlun dómskerfisins á þeim. Það svíði meðal annars hvernig forsendur gerenda í kynferðisbrotamálum hafi áhrif á það hvort litið sé á brotið sem kynferðisbrot eða ekki.
Áður hefur Halldór greint frá erfiðleikum sem hann glímdi við vegna neyslu vímuefna, en hann fékk geðrof í kjölfar grasreykinga. Hann hafði þá hætt neyslu og fengið aðstoð við að vinna úr sínum málum.
Athugasemdir