Rauði krossinn á Íslandi telur að ný reglugerð Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um réttindi hælisleitenda muni hafa verulega neikvæð áhrif á stöðu þeirra hérlendis. Hælisleitendur hafi almennt ekki atvinnuréttindi á Íslandi og því sé verulega íþyngjandi fyrir þá að vera sviptir réttinum til framfærslufjár meðan þeir bíða brottvísunar í kjölfar ákvörðunar stjórnvalda um synjun hælisumsóknar. Biðin taki oft vikur eða mánuði og hælisleitendur lendi þá milli steins og sleggju.
„Skilaboð stjórnvalda sem virðast eiga að komast til skila með þessari skerðingu eru óljós en áhrifin verða að öllum líkindum mjög neikvæð fyrir þá sem í hlut eiga, þ.e. umsækjendur um alþjóðlega vernd,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, í samtali við Stundina.
Eins og Stundin greindi frá fyrr í dag felur reglugerðin meðal annars í sér að útlendingar eru sviptir réttinum til framfærslufjár eftir að hælisumsóknum þeirra er synjað og meðan þeir bíða eftir að vera sendir úr landi. Komi hælisleitandi frá ríki sem er á lista yfir örugg upprunaríki og umsókn er metin „bersýnilega tilhæfulaus“ getur Útlendingastofnun jafnframt fellt niður alla þjónustu við viðkomandi eftir að framkvæmdarhæf ákvörðun um synjun umsóknar liggur fyrir.
Brynhildur segir mjög íþyngjandi fyrir einstaklinga að dregið sé úr framfærslufé þeirra.
„Umsækjendur um alþjóðlega vernd hafa almennt ekki atvinnuréttindi svo þeir geta ekki aflað sér fjár, það gefur auga leið að að þannig er erfitt að lifa og það er óljóst hversu lengi fólk þarf að gera það,“ segir hún.
„Eftir að fólk fær synjun þá þarf það að bíða eftir að stoðdeild ríkislögreglustjóra framkvæmi flutning og tíminn sem það tekur hefur verið að hlaupa á vikum og jafnvel mánuðum. Fólk getur ekki komið sér sjálft úr landi vegna peningaleysis eða brottvísunar og endurkomubanns. Það má því segja að það sé í raun fast milli steins og sleggju.“
Athugasemdir