Eygló Harðardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, og Hildur Knútsdóttir, varaþingkona Vinstri grænna, telja að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, sæti ómaklegum árásum í kjölfar mistaka sinna vegna þess að hún er kona. „Áfram er lamið á henni. Nú skal sko taka hana niður,“ segir Eygló í færslu á Facebook.
Stundin greindi frá því í byrjun vikunnar að Áslaug Arna hefði óskað eftir aðstoð á Twitter svo hún gæti horft á streymi af hnefaleikabardaga Conor McGregor og Floyd Mayweather. Haft var eftir stjórnarformanni Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði að það væri sorglegt að þingmenn nýttu sér ólöglega þjónustu. Fleiri fjölmiðlar fjölluðu um málið í kjölfarið og baðst Áslaug Arna að lokum afsökunar á hegðun sinni. Stundin greindi frá því sama dag að Áslaug Arna hefði lagst sérstaklega gegn því að fjallað yrði um uppreist æru kynferðisbrotamannsins Roberts Downey á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar, en dregið í land eftir að nefndasvið Alþingis skilaði áliti um málið.
Í dag greindi svo Fréttablaðið frá því að Áslaug hefði lækað Twitter-færslu um að ósk um fund þingnefndar væri lýðskrum. Lækið var sett í samhengi við fundi þingnefnda síðustu misserin um veitingu uppreistar æru. Aðspurð sagði Áslaug í viðtali við Fréttablaðið að hún teldi ekki ástæðu til að endurskoða hegðun sína á samfélagsmiðlum í ljósi stöðu sinnar og ábyrgðar. „Nei, það tel ég ekki. Ég er búin að biðjast afsökunar á þessu tísti sem var þarna inni í örskamma stund og taldi vera mistök. Að öðru leyti tel ég það ekki vera,“ er haft eftir henni í Fréttablaðinu.
Eygló Harðardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, tjáir sig um fréttaflutning af Áslaugu Örnu á Facebook í dag. „Kona gerir mistök og biðst afsökunar. Áfram er lamið á henni. Nú skal sko taka hana niður. Karl gerir mistök. Allt í þessu fína,“ skrifar hún.
„Konur í pólitík fá alltaf verri útreið en karlar“
Þá leggur Hildur Knútsdóttir, varaþingkona Vinstri grænna, orð í belg: „Mér sýnist á fréttaflutningi að nú eigi að hengja Áslaugu Örnu. Ég er ekki að segja að mér finnist hún endilega flekklaus stjórnmálamaður, því fer fjarri, en ég er orðin svo þreytt á því að sjá hvernig konur í pólitík fá alltaf verri útreið en karlar. Það er engu líkara en að það séu gerðar miklu strangari siðferðiskröfur til þeirra. Getum við til dæmis munað að Bjarni Ben, forsætisráðherrann sjálfur, var í Panamaskjölunum? Og getum við munað þátt hans í Vafningsmálinu? Og hversu oft hefur fólk tengt honum hagnast á einkavæðingu ríkisins?“
Athugasemdir